Þungaskattur á dísilbifreiðar

149. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 11:32:52 (6656)


     Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir hans svör. Svarið er mjög í þágu einstaklingsins vegna þess að það er rétt, eins og kom fram í hans máli, að þessar greiðslur og gjaldtökur af þeim sem stunda þennan atvinnurekstur, sendibílstjórar og aðrir þeir sem eru t.d. í þungaflutningum út á land t.d., eru þeim mjög óþénugar. Rétt er að benda á t.d. að eigandi sendibíls sem getur flutt rétt um tonn þarf að borga um 140 þús. kr. á ári. Þeir sem eru með mæla sem lesið er af þrisvar á ári þurfa síðan að standa skil á þungaskatti til tollstjóra innan 50 daga. Þá er oftar en ekki um verulegar upphæðir að ræða. Allt bendir þetta því til, eins og fram kom í svari fjmrh., að þetta sé á réttri leið. Ég endurtek það að vissulega þarf ríkið sitt en í allri innheimtunni má þó ekki gleyma þætti einstaklingsins og oftar en ekki er þetta mjög íþyngjandi og eins og kom fram í máli fjmrh., þá vilja þessar upphæðir safnast upp og það er einstaklingnum mjög þénugt ef breyting verður hér á sem ég treysti að megi fram ganga eins og kom fram í máli fjmrh.