Bókaútgáfa á vegum ríkisins

149. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 11:40:29 (6659)

     Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir þessi svör. Ég verð að segja það að þetta er mun meiri útgáfa en ég átti von á þó að ég geri mér grein fyrir því að bæði Námsgagnastofnun og aðrir skólar, þar með talinn Háskóli Íslands, gefa út töluvert mikið af ritum á sínum vegum en þetta er allveruleg útgáfa og skiptir þá litlu hvort við erum að tala um smárit eða allt upp í stærri bækur. Þetta sýnir mér að það er þörf á því að halda utan um þessa útgáfu og að hún eigi greiðan veg í gegnum kerfið og það sé staðið sómasamlega að þeim málum. Það kom fram í umræðum um menntamálaráð og Bókaútgáfu Menningarsjóðs að mín skoðun er sú að ríkið eigi í samvinnu við Háskóla Íslands og fleiri að stuðla að öflugri háskólaútgáfu vegna þess að það er um gríðarlega mismunandi útgáfur að ræða, bækur sem þarf að koma á framfæri en þurfa kannski ekki að sama skapi að vera eins vandaðar eða eins mikið í þær lagt og jafnan vill verða hjá almennum bókaútgáfum.
    Varðandi síðari spurninguna um útboð, þá skil ég það vel að henni er vandsvarað en það sem þar lá að baki var kannski fremur það hvort ríkið hafi falið öðru aðilum að sjá um útgáfu, gert samninga við útgáfur og annað slíkt líkt og t.d Reykjavíkurborg gerði varðandi útgáfu Reykjavíkursögunnar þar sem gerður var samningur við ákveðna bókaútgáfu. Handritið var tilbúið en bókaútgáfan sá um útgáfuna að öllu öðru leyti. Við höfum líka dæmi um þetta, samvinnu Alþingis og Sögufélagsins þar sem Sögufélagið sá um útgáfu þeirrar bókar sem gefin var út til að minnast 150 ára endurreisnar Alþingis Íslendinga.