Endurskoðun laga um Þjóðleikhús

149. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 11:49:32 (6662)

     Fyrirspyrjandi (Þórhildur Þorleifsdóttir) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. hans svör. Það gleður mig að heyra að það sé í ráði að taka öll þessi mál upp til endurskoðunar og held ég að síst veiti af.
    Ég vil minna á að þeirri nefnd sem skipuð var 1989 var einmitt falið að fjalla um fleiri þætti í samhengi við endurskoðun þjóðleikhúslaga og gerði það með ágætum, held ég. Hvort sem mönnum líkar þær niðurstöður eða ekki, þá var einmitt tekið á málefnum óperunnar, sinfóníunnar, listdansflokksins og þjóðleikhúss. Ég vil undirstrika það við hæstv. menntmrh. að ef endurskoðun allra þessara laga stendur til þá er mikilvægt að það fólk sem starfar við þessar greinar komi að og að það sé hæfileg blanda af því fólki, ef við tökum Þjóðleikhúsið sem dæmi, sem starfar þar innan veggja og jafnframt atvinnufólki sem hefur komið að leiklist og starfar utan veggja Þjóðleikhússins svo það markist ekki af hagsmunum fastráðinna starfsmanna heldur að menn hafi víðsýni til að líta á málin í heild. Ég vona að hæstv. menntmrh. taki tillit til þess í öllum þeim nefndum, eða þeirri nefnd, hvort sem henni verður falið víðtækt valdssvið eða hvort stofnaðar verði fleiri nefndir, að hafa vel í huga að þeir sem starfa í viðkomandi greinum komi að við mótun þessara mála.