Endurskoðun laga um Þjóðleikhús

149. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 11:51:50 (6664)

     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Ég get ekki látið hjá líða þar sem ég á sæti í þjóðleikhúsráði að vekja athygli hv. þm. á því vegna þess að mér dálítið neikvæður tónn í hv. fyrirspyrjanda, að Þjóðleikhúsið hefur sl. ár notið þeirrar gæfu að sjaldan eða aldrei hefur aðsókn verið eins mikil og almenn á öllum verkum hússins. Ég hygg að stjórn leikhússins hafi lagt sig mjög fram að reyna að hagræða í rekstri og standa yfir breytingar vegna þessa. Ég treysti ekki núv. ríkisstjórn og hæstv. menntmrh. til þess að semja ný lög um Þjóðleikhús. Ég treysti þessu fólki ekki. Mig langar ekkert að einkavæða Þjóðleikhúsið. Ég held að það ætti að bíða betri tíma að endurskoða lög um Þjóðleikhús. Það er mjög góður rekstur nú í húsinu. Það er góður andi þar og ég held að fullyrða megi að núverandi þjóðleikhússtjóri hefur verið mikil lyftistöng fyrir húsið. Það er góður andi í þjóðleikhúsráði og við getum alveg komist af án endurskoðunar á lögum um Þjóðleikhús enn um sinn.