Héraðsskólar

149. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 12:04:57 (6669)


     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Fyrsta spurningin er: Hverjar eru framtíðarhorfur héraðsskólanna?
    Það verður að segjast eins og er að héraðsskólarnir virðast hafa lokið því hlutverki sem þeir höfðu áður og þeim hefur farið fækkandi á síðustu árum. Höfuðástæðan er sú að ekki hefur nægur fjöldi nemenda sótt um skólavist enda starfrækja sífellt fleiri grunnskólar alla bekki skyldunáms.
    Héraðsskólar sem eru starfandi á yfirstandandi skólaári eru þrír. Það eru Alþýðuskólinn á Eiðum, Héraðsskólinn að Skógum og Héraðsskólinn í Reykholti. Aðrir héraðsskólar sem áður voru starfandi hafa annaðhvort verið lagðir niður eða þeir hafa fengið nýtt hlutverk. Þannig var héraðsskólanum á Laugum í Reykjadal breytt í Framhaldsskólann á Laugum. Héraðsskólanum á Reykjum í Hrútafirði var breytt í skólabúðir og Héraðsskólinn á Laugarvatni var sameinaður Menntaskólanum á Laugarvatni.
    Héraðsskólinn á Núpi er ekki starfræktur á yfirstandandi skólaári vegna lítillar aðsóknar og sérstök nefnd fjallar nú um framtíð Héraðsskólans í Reykjanesi við Djúp eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda.
    Í öðru lagi er spurt hvort það sé stefna ráðherra að leggja skólana niður. Með lögum um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga frá 1989 var rekstur grunnskóla fluttur yfir til sveitarfélaga. Af þessum sökum er eðlilegt að takmarka grunnskólahald í héraðsskólum en þeir hafa alfarið verið kostaðir af ríkinu. Það er hins vegar ekki stefna mín að leggja skólana niður svo framarlega sem þeir hafa einhverju hlutverki að gegna en flestir hafa þeir reynt að hasla sér völl á framhaldsskólastigi.
    Að lokum er svo spurt hvort, ef skólarnir verði lagðir niður, 10. bekkur grunnskóla komi þá sjálfkrafa inn í grunnskólana þar sem 10. bekkur er ekki nú þegar starfandi.
    Þetta er háð ákvörðun viðkomandi sveitarstjórnar. Skv. 24. gr. laga nr. 49/1991, um grunnskóla, er bygging og rekstur grunnskóla verkefni sveitarfélaga. Grunnskólalög gera ráð fyrir heildstæðum grunnskóla fyrir 6--16 ára nemendur, þ.e. 1.--10. bekk sem meginreglu. Sveitarfélög geta sameinast um rekstur grunnskóla eða hluta grunnskóla, sbr. 25. gr. laganna. Lögin setja hins vegar vissar takmarkanir vegna 9. og 10. bekkjar. Ef 9. og 10. bekkur eru við skóla þá skal líta á þá sem afmarkaða bekki hvorn um sig þannig að ekki er gert ráð fyrir samkennslu árganga í þessum bekkjum. Einnig er í lögunum ákvæði um að nemendur skuli ekki vera færri en 12 að meðaltali til að starfræksla 9. og 10. bekkjar sé heimiluð. Þar sem svo háttar að ofangreint lágmark næst ekki getur ráðuneytið hins vegar veitt undanþágu frá þessu ákvæði, sbr. 76. gr. laga um grunnskóla.
    Þetta eru svör mín, hæstv. forseti, við þessum fsp. og ég vona að þau séu fullnægjandi.