Umboðsmaður barna

149. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 12:17:02 (6675)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Á síðasta löggjafarþingi var frv. Guðrúnar Helgadóttur um umboðsmann barna vísað til ríkisstjórnarinnar að tillögu meiri hluta allshn. Í álitsgerð meiri hluta allshn. kom fram að nefndin taldi rétt að málið yrði kannað nánar. Á meðal þeirra atriða sem rétt þótti að kanna var athugun frv. með hliðsjón af lögum um umboðsmann Alþingis, hvort fyrirhugað hlutverk umboðsmanns barna muni rekast á við hlutverk hins fyrrnefnda. Jafnframt kom fram það álit að sifjalaganefnd tæki mál þetta til skoðunar. Í ljósi þess var málinu vísað til ríkisstjórnarinnar eins og fyrr segir. Málinu var vísað af hálfu forsrn. til meðferðar dómsmrn. Þar af leiðandi hefur félmrn. sem slíkt ekki, eðli málsins samkvæmt, beitt sér í því.
    Fyrir stuttu áttum við dómsmrh. viðræður um stöðu málsins og áframhaldandi vinnslu þess. Urðum við ásátt um að málið yrði tekið til frekari meðferðar í félmrn. Í framhaldi af því barst mér svohljóðandi erindi frá dómsmrn.:
    ,,Dómsmálaráðuneyti og sifjalaganefnd hafa haft til athugunar frv. til laga um umboðsmann barna er síðast var lagt fram á 115. löggjafarþingi. M.a. gaf sifjalaganefnd allshn. Alþingis umsögn um frv. í maí 1992.
    Með vísun til viðræðna félmrh. og dómsmrh. að undanförnu og að höfðu samráði við sifjalaganefnd hefur dómsmrn. ákveðið að vísa frekari könnun málsins til félmrh., enda hlýtur það að teljast eðlilegt í ljósi þess að málefni um vernd barna og ungmenna heyra nú undir ráðuneyti hans. Í dómsmrn. liggja fyrir viðamikil gögn um embætti umboðsmanns barna, einkum frá Norðurlöndum, sem dómsmrn. mun að sjálfsögðu láta félmrn. í té verði þess óskað.``
    Svo sem fram kemur í bréfinu hefur vinna dómsmrn. í málinu að undanförnu fyrst og fremst verið fólgin í gagnaöflun, einkum frá Norðurlöndum. Eins og kunnugt er hafa Norðmenn nú talsverða reynslu af störfum umboðsmanns barna en Noregur er eina þjóðin sem hefur sett á stofn slíkt embætti. Þá liggur nú stjfrv. fyrir sænska þinginu um stofnun embættis umboðsmans barna auk þess sem þessi mál hafa fengið umræðu í Danmörku og Finnlandi. Af þessum sökum er mikilvægt að kynna sér vel gögn frá þessum þjóðum áður en ákveðið er hvað gert er hérlendis.
    Ég hef lýst því yfir opinberlega að ég telji að við eigum að fylgja fordæmi Svía í þessum efnum og setja okkur það takmark að stofna til embættis umboðsmanns barna innan tveggja ára frá gildistöku Íslands á barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem var í nóvember 1992. Þau tímamörk tel ég æskilegt vegna þess að í barnasáttmálanum eru ákvæði þess efnis að aðildarríki sáttmálans skuli skila eftirlitsnefnd Sameinuðu þjóðanna með framkvæmd sáttmálans skýrslu um framkvæmd í hverju aðildarríki fyrir sig, fyrst eftir að tvö ár eru liðin frá fullgildingu hans. Ég tel að það væri viðeigandi að fyrsta úttekt á framkvæmd sáttmálans á Íslandi yrði þannig gerð af umboðsmanni barna en ekki af stofnunum ríkisvaldsins sem eru ábyrgar fyrir framkvæmd hans. Með því ætti að vera tryggt að slík úttekt yrði hlutlæg og ríkisvaldið gerðist ekki dómari í sjálfs sín sök.
    Það eru að sjálfsögðu aðrar ástæður fyrir því að rétt er að gefa sér meiri tíma til að íhuga vel stofnun embættis umboðsmanns barna. Mjög þarf að vanda til slíks undirbúnings og margar athugasemdir umsagnaraðila við frv. verðskulda gaumgæfilega athugun.
    Nú þegar mál þetta hefur verið falið mínu ráðuneyti mun ég þegar hefjast handa um þá undirbúningsvinnu sem málið krefst. Ég mun á næstunni fela sérstökum starfshópi að vinna málið áfram og skila mér drögum að nýju frv. um stofnun embættis umboðsmanns barna. Von mín er sú að málið fái þann framgang að unnt reynist að leggja frv. fyrir næsta Alþingi.