Vinna ungmenna á vínveitingastöðum

149. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 12:26:57 (6678)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Hvað varðar 1., 2. og 3. lið fsp. er því til að svara að á gildistíma laga um vernd barna og ungmenna sem féllu úr gildi um sl. áramót þótti skorta á skýr ákvæði í lögum til þess að rækja markvisst eftirlit af því tagi sem spurt er um og þar með beita viðurlögum þegar svo ætti við. Þar sem lagaákvæðin þóttu óljós verður vart svarað svo að vel fari 2. og 3. lið fsp.
    Með lögum nr. 58/1992, um vernd barna og ungmenna, sem tóku gildi um síðustu áramót eru komin skýr lagaákvæði um að ungmenni innan 18 ára aldurs megi ekki starfa á stöðum sem hafi leyfi til áfengisveitinga nema það sé liður í viðurkenndu iðnnámi. Viðurlög við því að brjóta ákvæðið er missir á leyfi til áfengisveitinga. Nú þegar hefur forvarnadeild lögreglunnar í Reykjavík hafið undirbúning að því að framkvæma eftirlit með því að þetta ákvæði sé haldið. Þar sem gildistími laga nr. 58/1992 er aðeins þrír mánuðir liggja ekki fyrir tölulegar upplýsingar um það hvort eða í hve miklum mæli hefur verið brotið gegn framangreindu ákvæði laganna né hvort beitt hefur verið viðurlögum af þeim sökum.
    Á gildistíma eldri laga um vernd barna og ungmenna var það að verulegu leyti háð samstarfsvilja veitingamanna við lögreglu og barnaverndaryfirvöld að ungmenni innan 18 ára aldurs væru ekki ráðin til starfa á veitingahúsum og skemmtistöðum. Að sögn lögreglunnar í Reykjavík var reynt að stuðla að því eftir mætti með tilmælum frá hendi svokallaðs vínhúsaeftirlits og væntanlega barnaverndarnefndar að ungmenni á framangreindu aldursskeiði væru ekki að störfum á veitingahúsum. Að sögn lögreglunnar mun yfirleitt hafa verið orðið við þeim óskum. Það mun hafa verið fremur sjaldgæft að ágreiningsmál eða kærur af þessu tagi kæmu til meðferðar lögreglu eða barnaverndaryfirvalda. Olli það erfiðleikum við meðferð þeirra mála sem upp komu hvað lagaákvæði voru óskýr. Engar kærur eða kvartanir af þessum toga hafa heldur komið fyrir barnaverndasrráð síðustu 10 ár a.m.k. Á hinn bóginn var í nokkrum tilfellum leitað álits eða túlkunar barnaverndarráðs á eldri lögum um dvöl barna og ungmenna á áfengisstöðum eða skemmtistöðum og um störf ungmenna á þessum stöðum sérstaklega í tengslum við iðnnám.
    Eins og nú háttar er eftirlit með dvöl ungmenna eða starfi þeirra á veitingastöðum í Reykjavík í höndum svokallaðs vínhúsaeftirlits. Áður fyrr starfaði það undir dómsmrn. en nú undir forvarnadeild lögreglunnar í Reykjavík. Fjórir menn sinna þessu sérstaka eftirliti með þeim 105 veitingastöðum sem starfræktir eru í Reykjavík. Þeim sem starfa að eftirlitinu nú hefur á sérstökum fundi lögreglunnar verið kynnt ákvæði núgildandi laga um að lagt sé bann við því að ungmenni innan 18 ára starfi á veitingastöðum. Dreifibréf hefur verið sent til allra veitingahúsa í Reykjavík sem og að lögreglan hefur látið útbúa veggspjöld þar sem þetta er kynnt. Það verður innan tíðar sent öllum veitinga- og skemmtistöðum borgarinnar.
    Um þessar mundir er starfandi nefnd dómsmrh. sem ætlað er að fjalla um framkvæmd reglna varðandi veitinga- og skemmtistaði þar sem m.a. verði fjallað um tilhögun á eftirliti með þessari starfsemi. Í reglugerð sem fyrirhugað er að setja með samvinnu barnaverndaryfirvalda við aðrar stofnanir, sbr. 6. mgr. laga um vernd barna og ungmenna frá 1992, verður væntanlega nánar fjallað um samstarf lögreglu og barnaverndaryfirvalda, þar á meðal með hvaða hætti þessir aðilar koma til með að rækja eftirlit með störfum ungmenna innan 18 ára aldurs á vínveitingahúsum.