Greiðsluerfiðleikalán

149. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 12:32:41 (6680)

     Fyrirspyrjandi (Valgerður Sverrisdóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. á þskj. 835 til hæstv. félmrh. um greiðsluerfiðleikalán sem hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Mun ráðherra beita sér fyrir því að Húsnæðisstofnun ríkisins veiti greiðsluerfiðleikalán?``
    Um ástæðu þess að ég legg fram þessa fsp. þarf varla að hafa mörg orð. Við búum við gerbreyttar aðstæður í okkar þjóðfélagi. Ráðstöfunartekjur hafa minnkað. Fólk missir atvinnuna í stórum stíl og er þar af leiðandi komið í gríðarlega erfiðleika með að standa í skilum með sínar fjárskuldbindingar.
    Auðvitað spilar þarna inn í að hér hafa vextir verið allt of háir á síðustu árum og það var t.d. fyrsta verk núv. ríkisstjórnar að hækka vexti. En ég ætla ekki að neita því að ýmsir hafa reist sér hurðarás um öxl og farið út í allt of miklar og glannalegar fjárfestingar og eins má nefna það að bankarnir hafa líka stundað glannalega útlánastefnu. En það breytir hins vegar ekki því að fólk er að missa ofan af sér húsin og aðrir eru í biðstöðu, bíða eftir því að ríkisstjórnin taki á þessu máli, trúa því að ríkisstjórnin geti ekki horft aðgerðalaus á allt þetta gerast þar sem hún ber að sjálfsögðu mikla ábyrgð á ástandinu, og hver græðir svo sem á þessum gjaldþrotum sem hafa í för með sér mikla óhamingju og oft og tíðum upplausn heimila?
    Ég býst við því að það þurfi að breyta lögum til þess að heimilt sé að veita greiðsluerfiðleikalán. Í gær rann út frestur til þess að leggja fram þingmál hér á hv. Alþingi þannig að þau verði tekin fyrir á þessu vorþingi án afbrigða en það bólaði ekkert á slíku máli frá hæstv. félmrh. og því er ég spennt að heyra hver svör hennar verða hér á eftir.