Greiðsluerfiðleikalán

149. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 12:39:36 (6682)

     Össur Skarphéðinsson :
    Virðulegi forseti. Ég veit að hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur liggur það eitt til grundvallar að reyna að bæta hag þeirra manna sem eiga í erfiðum vanskilum með því að bera fram þessa fsp. sína. Þess vegna fannst mér það skjóta nokkuð skökku við að hún reyndi í sínu máli að gera þessa ríkisstjórn sem núna situr með einhverjum hætti ábyrga fyrir því og greindi frá að það væri hækkun raunvaxta sem ylli þessu að verulegu leyti og þessi ríkisstjórn hefði hækkað raunvexti þegar hún tók við völdum.
    Staðreyndin er sú að allan síðasta áratug hafa heildarskuldir heimilanna aukist verulega og ekki hvað síst meðan Framsfl. fór með forustu. Frá því 1981 hefur þessi skuldaaukning hins vegar orðið minnst árið 1992 eða 5,5%. Vitaskuld er það rétt að það er hækkun raunvaxta, það er lánskjaravísitalan og það er síðast en ekki síst það laka atvinnuástand sem við búum við núna sem veldur því að sennilega eru erfiðleikarnir ekki nærri því komnir fram að fullu. Það þarf að taka á þessum málum með einhverjum hætti og þess vegna hafa þingmenn Alþfl. lagt hér fram þáltill. um að sett verði lög um greiðsluaðlögun einmitt fyrir fólk sem er í þessum vanda.