Greiðsluerfiðleikalán

149. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 12:42:10 (6684)

    Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það er í sjálfu sér rétt að það hafa hvað eftir annað orðið miklar kollsteypur í húsnæðismálum, m.a. vegna aðgerða ríkisstjórna á fyrri árum og þar er skemmst að minnast þess að 1983 var launavísitölunni kippt úr sambandi. 1986 var sett á fót nýtt kerfi í húsnæðismálum sem lenti í algeru þroti og var síðan reynt að taka á því en nú eru nýir þættir sem komnir eru til sögunnar sem eru atvinnuleysi og mikill samdráttur í vinnu og þar með tekjum og spurningin er hvernig eigi að taka á því. Ég vil taka undir það sem hefur komið fram í þessari umræðu að það er mjög brýnt að horfa á þessi mál í ljósi þess ástands sem nú ríkir og hvernig hægt verði að aðstoða það fólk sem er að lenda í vanskilum og erfiðleikum, en það á sér auðvitað rætur í fortíðinni og þeirri miklu verðbólgu og háu vöxtum sem hér hafa verið á undanförnum árum og á þetta þarf allt að horfa í samhengi.