Greiðsluerfiðleikalán

149. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 12:43:29 (6685)

     Fyrirspyrjandi (Valgerður Sverrisdóttir) :
    Hæstv. forseti. Það er rétt sem kom hér fram hjá hv. 17. þm. Reykv. að mér gengur gott eitt til með því að leggja fram þessa fsp. Og þó ég nefndi það að hæstv. núsitjandi ríkisstjórn hefði byrjað á því að hækka vexti, þá er það ekki nema staðreynd. Ég skal líka taka undir það með hv. þm. að vextir voru einnig of háir í tíð fyrri ríkisstjórna.
    Ég vil þakka hæstv. félmrh. fyrir svörin en það kom m.a. fram í hennar máli að það sé ekki rétt að gefa væntingar um greiðsluerfiðleikalán og það er þá í sjálfu sér gott að það liggur fyrir vegna þess að fólk er að bíða eftir því og er að vonast til að þetta yrði gert. Ráðherra talaði um samstarf um skuldbreytingar á milli banka og Húsnæðisstofnunar og það er atriði sem mér finnst mikilvægt og eins það að reyna með einhverju móti að koma í veg fyrir gjaldþrot og allar þær hörmungar sem því fylgja.
    Hv. 17. þm. Reykv. minntist hér á þingmál sem hann hefur lagt fram í gær ásamt öðrum hv. þm.

Alþfl. og ég segi þá eins og hv. þm. að ég vona að honum gangi ekki nema gott eitt til með því að leggja fram þetta þingmál og ég styð það að sjálfsögðu. En það sem ég óttast er það að þó svo að þessi tillaga yrði samþykkt á þessu þingi, þá kæmi ekki lagafrv. fram fyrr en á haustþingi sem hugsanlega yrði þá samþykkt sem lög frá Alþingi fyrir áramót og þá yrði ekki hægt að grípa til aðgerða og þetta blessað fólk sem stendur í þessum erfiðleikum fengi ekki afgreiðslu í samræmi við þau lög fyrr en þá eftir um það bil ár og það er bara of langur tími. Þess vegna vil ég eindregið hvetja hæstv. félmrh. til þess að vinna hratt, og þó svo ekki verði farið út í það að veita greiðsluerfiðleikalán, þó er þetta samstarf um skuldbreytingar sem hæstv. ráðherra nefndi aðgerð sem verður að eiga sér stað og getur komið að gagni ef rétt er staðið að málum.