Norræni fjárfestingarbankinn

150. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 14:30:58 (6696)

     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Ég lýsi stuðningi mínum við þetta frv. og tel að sjálfsögðu sjálfsagt að svo öflugt fyrirtæki sem Norræni fjárfestingarbankinn sýni góðum grönnum vinsemd þegar hann er fullfær um það og ekkert nema gott eitt um það að segja. Og ég get alveg tekið undir með hæstv. ráðherra að vissulega hefur Norræni fjárfestingarbankinn verið afar vel heppnað samstarf á þessu sviði og að mestu norrænum þjóðum til sóma. En enginn er fullkominn og dæmi eru um það að lánveitingar frá bankanum hafi e.t.v. ekki orðið til eins mikils góðs og til var ætlast og dæmi eru um það að fé hafi verið notað í framkvæmdir sem ollu mengun og öðrum skaða. Við þessu verður auðvitað aldrei að fullu séð. Það má segja að slíkt sé óhjákvæmilegt kannski á stundum og í viðtölum mínum við starfsmenn Alþjóðagjaldeyrisbankans í Washington í vetur gerði ég einmitt fyrirspurn um hvernig þeim hefði gengið að veita sitt fé þannig að sem mest og best kæmi að gagni fyrir íbúa þeirra landa sem aðstoðina þáðu og vissi þá raunar og benti á ýmsar mjög slæmar fjárfestingar sem þaðan höfðu komið. Þeir voru afar heiðarlegir og sögðu að þeim væri fullljóst að mörg stór slys hefðu orðið þar og allt væri gert til þess að hindra þau í framtíðinni. Ég veit að þar hafa slysin verið miklu fleiri heldur en vegna framlaga Norræna fjárfestingarbankans og vona svo sannarlega að þau verði sem allra fæst. Samstarf norrænna þjóð við Eystrasaltsríkin hlýtur hins vegar að vera byggð á því að norrænar þjóðir séu að hjálpa Eystrasaltsþjóðum til að byggja upp lýðræðisþjóðfélag sem byggist á jafnrétti og þeim norrænu hugsjónum sem við byggjum okkar þjóðfélög á. Þess vegna vil ég leggja á það áherslu að þau skilyrði verði eindregið sett að ekki fari svo að það fé sem frá Norræna fjárfestingarbankanum kemur nýtist einungis hluta íbúa þessara þjóða.
    Ég verð að segja alveg eins og er að ég er ekki svo bjartsýn að halda að svo geti endilega orðið. Í Morgunblaðinu í dag geta menn lesið langa grein eftir stúlku sem heitir Iveta Geidàne og mun stunda nám hér við Háskóla Íslands, stúlku frá Lettlandi. Í grein hennar kemur fram --- og ég ætla ekkert að fella dóm á stúlkuna, hún er auðvitað íbúi síns lands og hefur sínar skoðanir --- en það er nú ekki að sjá að það sé í sjónmáli að sættir takist með öllum íbúum Lettlands. Og eins og hér hefur margkomið fram í umræðum áður, þá verður átökum auðvitað einhvern tíma að linna. Það er ekki sök þess fólks sem var flutt meira og minna nauðugt til Lettlands fyrir 50 árum síðan að það er þar enn og getur ekkert annað farið né heldur er það sök lettneskra íbúa að landið fékk þetta fólk yfir sig. En ef menn ætla að halda áfram að blása lífi í glæður haturs og óvildar um alla framtíð, þá getur vel verið að ég fari að efast um hvað Norðurlöndn eigi að gera með að vera að hjálpa þessum þjóðum fjárhagslega. Það er alveg óhjákvæmilegt að setja þessum þjóðum þau skilyrði að samstarf við Norðurlandaþjóðir geti ekki byggst á þessum áratuga ef ekki árhundraða erjum milli þjóðflokka í þessum löndum. Og þetta hlýt ég að verða að segja hér vegna þess að mér hefur stundum fundist menn gleyma þessu eins og óneitanlega hefur komið hér fram í þáltill. hv. 3. þm. Reykv. þar sem hann ætlast til að Alþingi Íslendinga samþykki að minni kröfur séu gerðar um mannréttindi í Eytrasaltslöndunum en í öðrum löndum. Það er er auðvitað sjónarmið sem ég get ekki sætt mig við og ég vona ekki mjög margir hv. alþm. þannig að af minni hálfu er allur stuðningur við Eystrasaltsríkin gersamlega háður því að þeim verði gert það skiljanlegt að við séum að hjálpa þeim, ekki til að byggja upp land þar sem einn kúgar annan, heldur þar sem menn muni koma til með að lifa saman í friði og undir þeim formerkjum sem ég held að við séum nú öll sammála um að trúa á, að allir menn hafi jafnan bæði borgaralegan rétt og annan rétt í sínu landi.
    Þetta vildi ég, hæstv. forseti, segja hér og ég vona að enginn misskilji það á þann veg að ég sjái ofsjónum yfir aðstoð við Eystrasaltsríkin, en þar á móti held ég að norrænar þjóðir verði að setja kröfur á hendur þeim á móti.