Rannsóknir og þróun fiskeldis fram til aldamóta

150. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 14:58:07 (6703)

     Flm. (Jóhannes Geir Sigurgeirsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um rannsóknir og þróun fiskeldis á Íslandi fram til aldamóta sem ég er 1. flm. að ásamt þingmönnunum Láru Margréti Ragnarsdóttur, Ragnari Arnalds, Önnu Ólafsdóttur Björnsson, Össuri Skarphéðinssyni, Ingibjörgu Pálmadóttur, Einari K. Guðfinnssyni, Kristínu Ástgeirsdóttur, Jóhanni Ársælssyni og Rannveigu Guðmundsdóttur. Hér er um að ræða þáltill. sem flutt er af þingmönnum allra flokka.
    Það hefur orðið mikil aukning í fiskeldi í heiminum á síðustu áratugum. Eldi ýmissa sjávardýra á sér lengri sögu í Asíu og víðar en hefur undanfarin ár náð verulegri fótfestu í okkar heimshluta. Framboð sjávarafurða hefur aukist á síðustu árum vegna vaxandi framleiðslu eldisafurða og allt bendir til þess að vægi eldis muni aukast enn frekar á komandi árum. Gert er ráð fyrir að helstu fisk- og sjávardýrategundir í eldi muni verða þær sem þegar hafa náð fótfestu á mörkuðum þar á meðal nokkrir helstu nytjafiskar Íslendinga. Framandi tegundir munu einnig verða ræktaðar en í mun minna mæli. Það er áhyggjuefni að þróun fiskeldis á Íslandi er ekki í svipuðum takt og þróun eldis í þeim löndum sem við helst viljum bera okkur saman við. Ef svo heldur sem horfir mun Ísland hverfa úr tölu þeirra þjóða sem teljast stórar á sviði sjávarafurða og verð og eftirspurn á þeim afurðum sem við framleiðum fer að lúta öðrum lögmálum en hingað til. Þessu til rökstuðnings get ég bent á að reiknað er með því að á árunum fram til 2010 muni nánast öll aukning á fiskneyslu í heiminum koma frá fiskeldi og á þeim tíma verði það orðnar um 30 millj. tonna og nálgist það að vera þriðjungur af allri umsetningu á fiski heiminum.
    Ef við Íslendingar tökum ekki þátt í þessari þróun mun það gerast á sama tíma að í stað þess að vera í dag með um 1,4% af heimsframleiðslu af fiskafurðum verðum við komin niður í árið 2010 að vera með 0,7%. Ef við tökum annan samanburð, þá vorum við á árinu 1970 með 1,8% af heildarframleiðslunni. Þetta er að mínu mati einnig mjög þarft að skoða í ljósi þróunar helstu nytjafiskstofna okkar síðustu árin og ekki síst eftir þær fréttir sem við fengum í gærkvöldi af togararallinu sem sýna að það er því miður ekkert sem bendir til þess að þorskstofninn muni rétta við á næstu árum. Þeirri skoðun vex stöðugt fiskur um hrygg að hrygningarstofninn sé einfaldlega orðinn svo lítill að það sé ekki nema við allra bestu

náttúruleg skilyrði sem við getum vænst þess að fá virkilega gott klak og góða þorskstofn.
    Fiskeldi er í sjálfu sér að mörgu leyti ekkert frábrugðið annarri ræktun og eldi dýra. Við erum fyrir mörgum öldum komin af því stigi hvað snertir landdýr að stunda þar veiðar okkur til framfæris heldur er það allt saman komið í ræktun. Sú ræktun hefur tekið mjög langan tíma og er talin í árhundruðum að breyta villtum dýrum í ræktuð húsdýr. Með nútímatækni og þeirri þekkingu sem menn ráða yfir, þá tekur það mun skemmri tíma að breyta sjávardýrum í nytjadýr í eldi og við höfum talað um þann tíma sem við teljum í áratugum en ekki öldum en verður engu að síður að sinna vel.
    Við Íslendingar búum yfir góðum fiskimiðum og að sjálfsögðu munum við nýta þau áfram. Það er hins vegar ekkert sjálfgefið að þjóð sem býr við góð fiskimið búi við góð náttúruleg skilyrði til eldis. Það er því afar mikilvægt að það verði settur kraftur á rannsóknir hvað þetta snertir á næstu árum og raunar höfum við hvorki efni á né leyfi til þess að vanrækja þann þátt rannsókna og þróunar.
    Nú er það ekki svo að ekkert hafi verið gert í þessum málum og ég bendi á það að á síðustu árum hefur Rannsóknaráð ríkisins lagt mikla vinnu í að reyna að sjá fyrir þróun fiskeldis og stefnumótun á því sviði. Rannsóknaráðið gaf út skýrslu árið 1986 þar sem það benti á þá möguleika sem við hefðum í fiskeldi en benti einnig á, sem því miður var ekki hlustað á nema takmarkað á þeim tíma, að við ættum eftir mikið rannsókna- og þróunarstarf. Rannsóknaráð ríkisins skipaði síðan vinnuhóp árið 1990 sem skilaði nýrri skýrslu á síðasta ári. Hópur á vegum sjútvrn. hefur unnið að þessu máli síðan 1990 og það er mitt mat að á þessari vinnu hljóti framhaldsvinna og þróun í framtíðinni að byggjast.
    Um síðustu helgi var haldin ráðstefna um fiskeldi á Akureyri og ein af meginniðurstöðum hennar sem þar kom fram er sú að varðandi laxeldið stöndum við kannski í dag í þeim sporum sem við hefðum þurft að standa 1985, þ.e. að grundvallarþekkingin og starfsaðferðirnir séu nú til staðar og það sé ekki eftir neinu að bíða að hefja frekari nýtingu á þeim mannvirkjum sem við eigum hvað þetta eldi snertir, en ég mun ekki koma frekar að því í máli mínu hér.
    Þá nefni ég að í bleikjueldinu eru verulegir möguleikar og þar eru vænlegir þróunarkostir. Þar hefur verið unnið skipulega að málinu. Rannsóknaþátturinn hefur fylgt með, ekki komið á eftir eins og því miður varð að hluta í laxeldinu og þar hefur fagráð bleikjueldisins og fleiri aðilar lagt fram mikla vinnu.
    Ég ætla að nefna hér einn þátt sem er lúðueldi. Það er mjög fróðlegt að skoða hvernig þar hefur tekist til. Það er í fyrsta lagi skólabókardæmi um mjög vel heppnaða samvinnu milli einkaaðila og hins opinbera að slíku máli undir forustu öflugs frumkvöðuls. Það hefur einnig tekist að vinna þetta með algerum lágmarkskostnaði og væntanlega ekki nema brot af þeim kostnaði sem hefur þurft að eyða annars staðar í heiminum og með þeim árangri að í dag erum við Íslendingar ein af þrem þjóðum í heiminum sem eru komnar lengst í rannsóknum á lúðueldi. Það sýnir mér að það markmið að við komumst á næstu árum í fremstu röð þjóða varðandi þekkingu á eldi er ekki óraunhæft.
    Lúðueldið er einnig dæmi um eldi sem á margan hátt hentar mjög vel við okkar aðstæður. Lúðan þrífst best við lágt hitastig og annað það, að það hefur komið fram í rannsóknum að hún nýtir fóður mjög vel og svo vel að rannsóknaraðilar hafa tví- og þrífarið yfir sín gögn til þess að trúa eigin augum. Það leiðir aftur hugann að því að fiskeldið er leið til þess að breyta fiskafurðum sem ekki eru mannamatur í matvöru. Þar á ég við að sem fóður í fiskeldi og ég get nefnt þar fisktegundir eins og loðnu og sandsíli sem hér er í verulegu magni en ekki nýtt og hvers kyns fiskúrgang sem með þessu móti er hægt að umsetja í gegnum fiskeldið í mannamat og þar er um að ræða verulega verðmætaaukningu.
    Þá verðum við einnig að horfa til þeirrar þróunar sem er í þorskeldi. Það er framtíðarverkefni. Norðmenn og fleiri þjóðir hafa nú þegar lagt verulega vinnu í þetta og sett sér háleit markmið. Hvað okkur Íslendinga snertir, þá vantar okkur í fyrstu umferð grundvallarþekkingu varðandi klak og hrygningu og afdrif seiðanna á fyrstu stigum. Síðan þurfa menn að þróa sig yfir í frekari ræktunaraðferðir þó að það bendi fátt til þess í dag að þorskeldi sem slíkt með þeim kostnaði sem því fylgir geti keppt við það verð sem er á þorski á markaði eins og staðan er í dag.
    Ég ætla að fara örfáum orðum um stöðu fiskeldis í stjórnkerfinu. Fiskeldið er í dag undir landbrn. sem á sér á margan hátt eðlilegar orsakir. Hérna er um ræktunarstarf að ræða, eldi sem er mjög hliðstætt því á margan hátt sem um er að ræða í landbúnaði en á margan hátt andstætt hins vegar þeim veiðiaðferðum sem enn er beitt í sjávarútvegi.
    Lítum svo aftur á ytra umhverfi greinarinnar, markaðsumhverfinu og þá staðreynd að þessi grein er í samkeppni og verður í stöðugt meiri samkeppni við afurðir sjávarins og er í harðri alþjóðlegri samkeppni gagnstætt landbúnaðinum sem meira horfir inn á við og svo er reyndar um allan heim. Út frá þeim forsendum hefði margt mælt með því að þetta heyrði undir sjútvrn.
    Nú veit ég ekki hvaða hugmyndir eru uppi innan núv. hæstv. ríkisstjórnar um breytingar hvað þetta snertir og mun reyndar ekki blanda mér í það mál. Það er núv. hæstv. ríkisstjórnar að ákveða það. En þetta er hins vegar mál sem verður að taka á og marka skýra stefnu á næstu árum.
    Virðulegi forseti. Á þeirri ráðstefnu sem haldin var um síðustu helgi gaf landbrh. út yfirlýsingu þess efnis að hann mundi strax eftir páska koma fram með stefnumótun af hálfu stjórnvalda varðandi fiskeldi. Því hlýt ég að fagna. Það er mjög af því góða að stjórnvöld séu að vakna til vitundar um að þetta sé atvinnugrein sem við hljótum að leggja rækt við.
    Ég tel því afar nauðsynlegt og mikilvægt fyrir ríkisstjórn og stjórnvöld að fyrir liggi skýr vilji Alþingis í þessu efni og tel reyndar að samþykkt þessarar tillögu mundi verða gott innlegg til þess. Okkur vantar vissulega nýja þætti í okkar atvinnulíf og fiskeldið hentar okkur á svo margan hátt, fellur að okkar þekkingu í matvælaiðnaði og okkar markaðskerfi.
    Til þess að nefna eitt lítið dæmi um það frammi fyrir hverju við stöndum varðandi þær breytingar sem eru í sjávarútvegi þá erum við að tapa 100--150 þús. tonnum af þorski miðað við þær heimildir sem við höfum í dag miðað við það sem við vorum að veiða fyrir nokkrum árum. Þetta getur þýtt 15--20 milljarða í verðmætum. Ef við lítum á vaxtarbroddinn í okkar atvinnulífi, ef við lítum á fyrirtæki í tækniiðnaði eins og til að mynda Marel, sem margir líta á sem fyrirmyndarfyrirtæki, þá þyrftum við 60 slík fyrirtæki til þess að vinna upp það sem við erum að tapa með minnkandi þorskveiði. Við hljótum að horfa á alla þætti sem geta unnið þetta upp og þar tel ég að fiskeldið sé þrátt fyrir allt mjög vænlegur kostur.
    Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til landbn. en ég geri einnig að tillögu minni að landbn. leiti umsagnar sjútvn. Alþingis varðandi málið.