Rannsóknir og þróun fiskeldis fram til aldamóta

150. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 15:14:42 (6704)

     Árni M. Mathiesen (andsvar) :
    Frú forseti. Ég þakka hv. flm. fyrir að hreyfa þessu máli á Alþingi. Ég er afskaplega ánægður með að það hefur verið gert þar sem ég hef eytt mestum hluta af minni stuttu starfsævi í það að starfa við fiskeldi. Ég vil aðeins leiðrétta tvö, þrjú atriði hjá hv. flm. þar sem hann talaði um að fiskeldi heyri í dag undir landbrn. Það er ekki alls kostar rétt því eldi vatnafiska heyrir undir landbrn. en eldi sjávarfiska heyrir undir sjútvrn. Þess vegna var það hvernig hann lagði til að vísað yrði til nefndar alveg hárrétt hjá hv. 1. flm.
    Hann nefndi að því hefði verið öðruvísi farið með bleikjueldi en með laxeldi, að rannsóknirnar hefðu verið á eftir í laxeldinu en á undan eða samhliða í bleikjueldinu. Ég held að þetta sé mikil einföldun og mjög erfitt að skilja á milli rannsókna sem hafa verið gerðar á eldi laxa og eldi bleikju því svo skyldar eru tegundirnar og svo svipað er eldið. Það sem skilur sennilega á milli er það að menn hafa farið varlegar í fjárfestingu í sambandi við bleikjueldið og þær fjárfestingar hafa verið meira í samræmi við þann markað sem fyrir vöruna er en reyndin varð á með laxeldið.
    Fyrsti flm. nefndi einnig að hversu mikið hefði skort á um rannsóknirnar og hvað þær hefðu verið langt á eftir í þróun laxeldisins. Það má kannski segja að þetta sé túlkunaratriði en því eru auðvitað takmörk sett hversu hratt rannsóknirnar geta farið fram og hér á landi hafa menn gert eftir bestu getu. Ég mundi frekar vilja orða það þannig að fjárfestingin hefði farið langt fram úr því sem ástæða var til á hverjum og einum tíma og rannsóknir gáfu tilefni til að hægt væri.