Rannsóknir og þróun fiskeldis fram til aldamóta

150. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 15:19:23 (6707)

     Guðmundur Stefánsson :
    Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka flm. og hans meðflm. fyrir að hreyfa þessu þarfa máli á Alþingi. Það hafa áður komið fram þáltill. um stefnumótun í fiskeldi en segja má að oft hafi verið þörf en nú sé nauðsyn. Ég held nefnilega að það sé í sjálfu sér stefnumótunarþörf í öllum atvinnugreinum en fiskeldið er kannski mjög gott dæmi um hvernig fer ef þeim mikilvæga þætti er ekki sinnt sem skyldi.
    Nú á fiskeldið sér í rauninni langa sögu á Íslandi og reyndar matfiskeldið líka. Í Hvalfirðinum voru gerðar tilraunir með að ala fisk í kvíum þegar árið 1972 og á Fáskrúðsfirði árið 1977 og um svipað leyti voru hafnar eldistilraunir í Færeyjum. Árið 1961 tók Tilraunastöðin í Kollafirði, Laxeldisstöð ríkisins, til starfa. Í skýrslu Rannsóknaráðs, Fiskeldi og sjávarbúskapur, segir svo um verkefni þeirrar stöðvar, með leyfi forseta:

    ,,Samkvæmt lögum átti verkefni stöðvarinnar að vera tilraunir með klak og eldi laxfiska í fersku vatni, sjóblöndu og sjó, að taka þátt í og reyna nýjar fiskræktaraðferðir, kennsla í hirðingu og fóðrun fisks í eldi, kynbætur á laxi og silungi, útvegun og eldi á heppilegum stofnum lax og silungs til þess að sleppa í ár og vötn og til notkunar í öðrum eldisstöðvum, framleiðsla fisks til sölu á erlendum markaði.``
    Ef allt þetta hefði gengið eftir og ef þá þegar hefði verið mótuð skýr stefna um fiskeldi þá hefðum við ekki gengið í gegnum þá erfiðleika, a.m.k. ekki í svipuðum mæli og við höfum gert. Ég er sannfærður um að þá væri fiskeldi á Íslandi miklu öflugri atvinnugrein eins og hún er í flestum nágrannalöndum okkar.
    Á árunum 1987--1988 má segja að fyrsta framleiðslan hafi komið úr eldisstöðvunum hér. Árið 1987 voru framleidd tæp 700 tonn og ári seinna tæp 1.400 tonn af fiski. Segja má að á nákvæmlega sama tíma hafi verð fallið á laxamörkuðunum um 30--40%. Í rauninni varð það ekki, sem betur fer, banabiti íslensks fiskeldis en það var upphafið að þeim erfiðleikum sem það hefur síðan átt í.
    Annað atriði varðandi stefnumótun í fiskeldi er, eins og fram kemur í grg. með tillögunni, að eldisafurðir munu verða sífellt fyrirferðarmeiri á heildarfiskmarkaðinum og má reikna með að fiskeldi í einhverri mynd hafi nú þegar verulega áhrif á afkomu veiða og vinnslu hér á landi, samanber t.d. rækju og hörpudisk. Það má því reikna með að þessi áhrif verði meiri en þau hafa verið og þess vegna er full ástæða til að marka skýra stefnu í málefnum fiskeldis og ætti í rauninni að sameina stefnu í fiskeldi, fiskveiðum og fiskvinnslu. Ég hygg að málin muni þróast í þá átt.
    Sem dæmi um stefnumörkun eru í fyrrnefndri skýrslu Rannsóknaráðs ríkisins sett fram hugsanleg markmið. Það er auðvitað ekki sett þar fram stefna, það er stjórnvalda að mínu mati að setja fram stefnuna, en það er talað um að stefnt verði að því að árið 2000 verði 2--3% af útflutningi sjávarafurða frá eldi. Það þýðir að við mundum á því ári framleiða, miðað við núverandi aðstæður, 6.000--7.000 tonn af eldisfiski. Verðmæti þessa útflutnings yrði um 2 milljarðar og við erum að tala um 150--200 ný störf í fiskeldi auk þeirra margfeldisáhrifa sem slík frumframleiðslugrein hefur.
    Árið 2010 er lagt til að um gæti verið að ræða 5--10% af útflutningsverðmætum sjávarafurða. Þá erum við að tala um 12.000--20.000 tonn á ári, 3,5--6 milljarða í útflutningsverðmætum og nokkur hundruð ný störf. Þetta segir okkur að það er mjög mikilvægt að marka slíka stefnu vegna þess að þessum markmiðum, ef þau yrðu ofan á, verður aldrei náð öðruvísi en að stefnan sé skýrt mörkuð og skipulega unnið.
    Ég held að það sé alveg ljóst að auðvitað byggjum við ekki fiskeldið upp á stefnumótuninni einni en reynslan hefur sýnt okkur að ef við ætlum að koma í veg fyrir afdrifarík mistök og ef við ætlum að koma í veg fyrir að við missum af slíku tækifæri sem laxeldi vissulega var --- Norðmenn flytja núna út eldisafurðir fyrir yfir 50 milljarða á ári --- og ætlum að ná yfirleitt viðhlítandi árangri þá verðum við að marka skýra stefnu. Það er að mínu mati frumskilyrði í atvinnumálum.