Ráðstafanir til að efla fiskeldi

150. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 15:29:02 (6709)

     Flm. (Guðmundur Stefánsson) :
    Frú forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um ráðstafanir til að efla fiskeldi á þskj. 870. Auk mín eru flm. að tillögunni hv. þm. Guðni Ágústsson og Stefán Guðmundsson.
    Með tillögu er lögð fram ákveðin áætlun um að efla núverandi fiskeldi, auka atvinnu, varðveita og efla þá þekkingu og reynslu í fiskeldi sem nú þegar er fyrir í landinu og ekki má glatast og treysta undirstöðurnar undir fiskeldinu, bæði í nútíð og í framtíð.
    Tillagan hljóðar þannig:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að kanna leiðir til að efla fiskeldi sem fyrir er í landinu og hvernig unnt sé að nýta sem best þau fiskeldismannvirki sem nú þegar hafa verið byggð. Þetta verði m.a. gert með eftirfarandi hætti:
    1. Gerð verði úttekt á stöðu allra fiskeldisfyrirtækja með það fyrir augum að kanna hvað hægt sé að gera til að bæta aðstæður til eldis í einstökum stöðvum, hvað það muni kosta og hvaða ávinningur gæti orðið af viðkomandi ráðstöfunum.
    2. Leitað verði allra leiða til að lækka verulega orkuverð til fiskeldis og gerður verið sérstakur samningur um sölu raforku til fiskeldisfyrirtækja til a.m.k. fimm ára.
    3. Markaðar verði sérstakar leiðir til að auðvelda innflutning erfðaefnis.
    4. Gerðar verði sérstakar ráðstafanir til að létta skuldbindingum vegna stofnkostnaðar af fiskeldisstöðvum.
    5. Gerðar verði ráðstafanir til að fiskeldisfyrirtæki njóti ekki lakari möguleika og kjara til rekstrarfjármögnunar en aðrar útflutningsatvinnugreinar.``
    Mér eru auðvitað ljósir og reyndar mjög vel ljósir erfiðleikar sem hafa verið í fiskeldinu og slakur árangur. Við ræddum áðan hluta af ástæðunni fyrir því. Auk þess að stefnumörkun var ónóg er ljóst að þekking og reynsla af fiskeldi var ekki til staðar þegar uppbyggingin var sem örust og kannski þurfti mest á henni að halda. Ég hef heyrt það mjög víða í þjóðfélaginu, mér sýnist að allir hafi tekið eftir að þessir erfiðleikar voru og árangurinn ekki góður. En ég held að öllum sé kunnugt um að árangur í fiskeldi á Íslandi hefur batnað mjög verulega. Þar hefur orðið mikill bati og í rauninni blasir við allt önnur mynd heldur en við þekktum fyrir aðeins örfáum árum.
    Því til sanninda vil ég nefna að á ráðstefnu um fiskeldismál á Akureyri um síðustu helgi kom það m.a. fram að nokkrar strandeldisstöðvar hafa náð því marki að framleiða lax yfir 30 kg á rúmmetra í eldisrými. Það er vissulega ekki nægjanlega góður árangur en það er mikil framför og ég er ekki í vafa um að þetta á eftir að batna.
    Það kemur fram í skýrslu fiskeldisdeildar Veiðimálastofnunar fyrir árið 1992 að seldar afurðir á útsett seiði eru 88% meiri árið 1992 en árið 1991. Þetta er mjög algeng viðmiðun í fiskeldinu og er að minnsta kosti örugg vísbending um að árangurinn er að batna mjög verulega. Reyndar sýna færri stöðvar en svipuð framleiðsla það sama en það munu vera á milli 70--80 eldisstöðvar starfandi hér í dag.
    Það sem lagt er til í þáltill. er að gerð verði úttekt á þeim stöðvum sem nú starfa. Þegar þær voru byggðar voru sumar þeirra og reyndar að mínu mati margar ekki fullgerðar. Það stafaði af því að fjárhagsörðugleikar komu í veg fyrir að menn gætu lokið fjárfestingunum og það voru ýmis tæknivandamál og kannski líka þekkingarskortur. En þó mönnum þyki ærið mikið fjárfest þá er mjög mikilvægt að því sem gera á sé lokið ef það á að skila þeim árangri sem til er ætlast. Ég tel þess vegna nauðsynlegt að það sé farið í gegnum þessi mál og menn geri sér grein fyrir hvort það sé eitthvað í þeim stöðvum sem nú starfa sem hægt sé að bæta til að betri eldisárangur og þar með betri afkoma náist. Ef svo er að menn geri sér grein fyrir hvað það er og hvað það muni kosta og hverju það muni skila. Komi í ljós að það sé hægt að bæta árangurinn og það borgi sig þá þarf að gera ráðstafanir til að þetta verði mögulegt, t.d. með því að útvega þeim sem reka eldisstöðvarnar hagstæð lán sem einhverjar líkur eru til að starfsemin geti klofið.
    Annað mál er orkumálin. Orkunotkun er stór þáttur í rekstri strandeldisstöðva, sjálfsagt á milli 10 og 15% af rekstrarkostnaði. Þetta er einfaldlega of mikill kostnaður fyrir þessar stöðvar. Þær skipa sér svo sem ekkert á annan bekk í þeim efnum en ýmsar greinar atvinnulífsins en þetta þarf að bæta. Þar að auki gildir sérstakur samningur sem hefur verið gerður við matfiskeldisstöðvar aðeins til næstu áramóta, til 31. des. n.k. og það er auðvitað allt of stuttur tími og skapar ekki það öryggi sem þarf til að hægt sé að stunda atvinnurekstur með eðlilegum hætti. Ég held þess vegna að það sé verðugt verkefni fyrir stjórnvöld að skoða þessi mál, bæta kjörin og lækka orkukostnað og stuðla þannig að því að þessi atvinnugrein geti byggst upp og geti þá orðið í framtíðinni stærri og vonandi öflugri orkukaupandi en hún er núna.
    Hér er minnst á innflutning erfðaefnis. Það eru auðvitað margir þröskuldar á þeirri leið. Ég tel ekki að það eigi að opna upp á gátt hvorki fyrir innflutning á hrognum né öðru erfðaefni en það þarf að marka ákveðnar leiðir. Ef það þarf að flytja slíka hluti inn þá verður að gera það vegna þess að eldisgreinin hér á landi mun falla og standa með því að hún hafi erfðaefni og hafi eldisefni sem er sambærilegt því sem aðrar þjóðir hafa. Gildir þá einu hvort um er að ræða þær tegundir sem nú eru í eldi eða þær tegundir sem í framtíðinni munu verða aldar hér á landi.
    Varðandi stofnkostnaðinn er það svo að fiskeldisstöðvarnar --- þetta er auðvitað ekki án undantekninga en það á við um þær mjög margar --- munu ekki geta greitt upp þann stofnkostnað sem á þeim

hvílir. Það er auðvitað mögulegt að fara svokallaða gjaldþrotaleið en ég tel það ekki heppilegt einfaldlega vegna þess að þeir sem reka fiskeldið núna eru þeir sem kunna það. Meginhluta ófaranna sem við höfum orðið fyrir í fiskeldinu má rekja til þess að það var ekki nægileg þekking og reynsla í greininni og þannig er okkur mjög nauðsynsleg og það er mjög mikilvægt að við höldum þessu fólki í eldinu en skiptum ekki um áhöfn, eins og sumir hafa orðað það. Ég held að ekkert sé unnið með því heldur beinlínis skaðlegt. Það verður að hafa í huga að það er ekki svo að fiskeldismenn hafi gengið í sjóði og það hafi verið ausið í þá peningum. Það er bara hluti af málinu. Eigendur fiskeldisstöðva hér á landi hafa lagt verulega fjármuni sjálfir í þessar stöðvar og samkvæmt skýrslu Rannsóknaráðs þar sem vitnað er í skýrslu talnakönnunar má reikna með að þessi kostnaður sé á núverandi verðlagi einhvers staðar á bilinu 1--1,5 milljarðar. Þó er hann auðvitað mjög vanmetin vegna þess að það kemur margt fleira til í þeim efnum en bara bein hlutafjárframlög.
    Hér er um að ræða frumkvöðlastarf. Þetta eru þeir menn sem riðu á vaðið. Þeir hafa, leyfi ég mér að fullyrða, fæstir hlaupið frá þessu máli með allt sitt í góðu lagi. Margir þeirra hafa misst allt sitt og í rauninni fórnað öllu til þess að freista þess að byggja upp þessa atvinnugrein. Ég held að það verði að koma til móts við þá sem eftir eru og reyna að losa sig einhvern veginn frá fortíðinni og byggja upp á nýjan leik. Það verður að leysa þetta stofnkostnaðarvandamál því eins og skuldastaða þessara fyrirtækja er núna er útilokað að ná nýju fé inn í fyrirtækin. Það hefur einfaldlega enga þýðingu vegna þess að það þarf svo gífurlega mikið fé til að koma þeim fyrir vind eða fyrir horn eftir því hvernig menn vilja orða það. Það er því mjög mikilvægt að þetta verði gert og auðvitað margar leiðir að fara í því. Ég treysti því að ríkisstjórnin láti fara fram vinnu þar sem hægt er að benda á þær leiðir sem heppilegastar eru og affarasælastar.
    Varðandi síðasta liðinn, um afurðalánin, þá er það því miður svo að bankar virtust vera tiltölulega viljugir, það er kannski ofsagt, en þeir fengust til að lána afurðalán til fiskeldisstöðva á sínum tíma þegar það var kannski ekki eins skynsamlegt að gera það og nú er. En því miður eftir að bjartsýniskastinu lauk bæði hjá bönkum og öðrum tóku bankarnir þá ákvörðun, kannski ekki án undantekninga en sumir af stærstu bönkunum þar á meðal, að loka alveg á fiskeldið. Það er ekki lengur um það að ræða að skoða stöðu einstakra fyrirtækja. Ef það heitir fiskeldi er lokað á það. Þetta gengur náttúrlega ekki. Það tekur tvö til þrjú ár að koma fiski til manns, ef svo má að orði komast, gera hann að söluvöru. Það er langur tími og kostnaðarsamt. Einstaklingar sem standa í þessari atvinnugrein eru ekkert öðruvísi en þeir sem stunda annan atvinnurekstur og hafa ekki það fjármagn sem þarf til að gera þetta. Menn eru háðir því að fá rekstrarfjárfyrirgreiðslu í fiskeldi rétt eins og öðrum atvinnugreinum og þess vegna verður að gera ráðstafanir til að þetta breytist.
    Hér hefur verið starfandi svokölluð ábyrgðadeild fiskeldislána og hún hefur unnið að mörgu leyti mjög gott starf og nauðsynlegt og hjálpað upp á sakirnar í mörgum tilvikum og í rauninni gert fyrirtækjunum mögulegt að starfa. Ég held að það eigi að skoða þessa hluti betur. Ég held að það eigi að efla þessa ábyrgðadeild meðan svona stendur á og freista þess í gegnum hana fyrst um sinn að halda þessum hlutum gangandi og í góðu horfi. En það verður að finna aðgengilegar leiðir til að fjármagna reksturinn því án þess gengur þetta ekki upp.
    Ég er ekki með þessari þáltill. að leggja til að ríkið haldi uppi fiskeldinu. Þvert á móti er ég að leggja til að ríkið komi til hjálpar þannig að hægt sé að leysa úr þeim hnút sem þetta mál allt saman er komið í og til að hægt sé að nýta þá möguleika sem flestir virðast vera sammála um að liggi í framtíðinni. En ef við ekki getum slitið okkur frá fortíðinni og komist af stað í nútíðinni þá verður heldur engin framtíð í þessari grein. Þó ríkið leggi til einhverja fjármuni í þessu skyni tel ég það enga frágangssök. Ég minni á að atvinnuleysi er nú um 5% á Íslandi og ef maður tekur kostnað vegna atvinnuleysisbóta og leggur við þau samdráttaráhrif sem verða í ríkisbúskapnum vegna þessa má reikna út að það sé upphæð sem nemur um 4 milljörðum. Það eru líka peningar. Við erum ekki að tala um neina 4 milljarða í þessu máli. Við erum að tala um miklu lægri upphæðir og þess vegna er ekkert óeðlilegt við það að hið opinbera aðstoði greinina og komi henni upp úr því fari sem hún hjakkar í núna. Það er því miður svo að ég held að það sé enginn annar sem gerir það og þetta verður að gerast og ábyrgðin er þess vegna mikil hjá hinu opinbera og það verður að standa undir henni.
    Það er líka ástæða til að ætla að árangurinn í eldi hér á landi eigi eftir að batna enn þó hann hafi batnað mikið að undanförnu. Því veldur fyrst og fremst að kunnátta eldismanna og reynsla er núna mun meiri enn nokkru sinni fyrr. Stofnar í eldi hafa verið bættir verulega og þekking á starfrækslu strandeldisstöðva er nú til staðar. Þótt verulegur árangur hafi náðst á þessum sviðum og mörgum fleirum er enn mörgum spurningum enn ósvarað og má gera ráð fyrir að þau svör fáist í náinni framtíð og mun betri árangur náist. Fiskeldið er þrátt fyrir allt, eins og bent var á í umræðunum hér áðan, ung grein. Það hafa orðið ótrúlegar framfarir sl. einn til tvo áratugi, sem sagt á mjög stuttum tíma. Það eru allir sammála um að fiskeldi er bæði fortíðar- og framtíðargrein. En hér á norðurslóðum er ljóst að það er mjög mikil framtíð fólgin í fiskeldinu.