Ráðstafanir til að efla fiskeldi

150. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 15:44:34 (6710)

     Árni M. Mathiesen :
    Frú forseti. Ég vil þakka hv. flm. fyrir að hreyfa þessu máli á Alþingi. Ég held að það sé að mestu leyti skynsamlegar tillögur sem þeir hafa fram að færa. Ég er sannfærður um það sjálfur að fiskeldi á framtíð fyrir sér og þótt það hafi verið erfiðleikar á undanförnum árum þá muni þeir með tíð og tíma leysast.
    Þessir erfiðleikar hafa kannski verið af þrennum toga. Í fyrsta lagi vegna þess hversu áhættusamur rekstur fiskeldið er, sérstaklega vegna þess hversu mikið rekstrarfé þarf og hversu lengi það er bundið áður en fyrstu afurðir komast í verð. Í öðru lagi vegna þess skorts, sem óneitanlega var, á rannsóknum þegar mesta fjárfestingin átti sér stað og þá sérstaklega með tilliti til þess að við vorum að þróa hér nýja tegund af eldi, svokallað strandeldi, sem nánast hvergi annars staðar hafði verið reynt. Í þriðja lagi tel ég að það fjárfestingarkerfi sem við bjuggum við á síðasta áratug hafi á sinn hátt ýtt undir offjárfestingu í þessari grein umfram það sem rannsóknir gáfu tilefni til á hverjum tíma. Þetta kemur beinlínis í ljós þar sem hv. 1. flm. vitnaði til þess að eigið fé í fjárfestingum í fiskeldi væri 1--1,5 milljarðar en það er oft talað um að 10 milljarðar hafi tapast í þessari grein fram til þessa.
    Ég er algerlega sammála flm. um það sem þeir leggja til í 1. og 2. lið í tillögu sinni. En 3. liður, þar sem talað er um að markaðar verði sérstakar leiðir til að auðvelda innflutning á erfðaefni, þá veit ég ekki betur en þær mörkuðu leiðir séu nú þegar fyrir hendi og að erfðaefni hafi verið flutt til landsins af tveimur aðilum og að það hafi verið gert ein fjögur ár í röð og tekist alveg sérstaklega vel. Það hafa ekki verið uppi neinar raddir um að með flutningi á því erfðaefni hafi borist hingað til lands neinir sjúkdómar. En skömmu eftir að þessi innflutningur átti sér stað þá komu fram margir nýir sjúkdómar í því landi sem við höfðum fengið erfðaefnið frá og því landi sem fremst stendur í eldi á laxfiskum, í Noregi, sem gera það að verkum að innflutningur á erfðaefnum væri í dag mun áhættusamari en hann var þegar við fluttum inn norsku stofnana og svo vel tókst til. Því held ég að það væri meiri ástæða til að efla kynbætur á þeim stofnum sem þegar eru fyrir í landinu og reyna á þann hátt að ná fram erfðaframförinni og halda í við þá erfðaframför sem verður í nágrannalöndum okkar og samkeppnislöndum okkar.
    Í 4. lið er talað um að gerðar verði sérstakar ráðstafanir til að létta skuldbindingar vegna stofnkostnaðar af fiskeldisstöðum. Þetta er afar viðkvæmt og erfitt mál. En ég held að það ætti að vera hægt að finna lausn á þessu því þeir sem lána til fjárfestingar í greinum eins og fiskeldi taka auðvitað á sig ábyrgð í þessari grein ekki síður en þeir sem í rekstrinum standa sjálfir og þeim ber að styðja við bakið á greininni og hlaupa ekki frá þegar stefnir í erfiðleika heldur reyna að leysa vandann þannig að fjárfestingin megi nýtast sem allra best. Ef það þýðir að þessir aðilar verði að ganga inn í reksturinn og leggja jafnvel það fé sem þeir hafa lánað sem eigið fé þá tel ég að það eigi að athuga mjög alvarlega hvort það væri ekki bæði hægt og réttlætanlegt.
    Í 5. lið er talað um að gera ráðstafanir til þess að fiskeldisfyrirtæki njóti ekki lakari möguleika og kjara til rekstrarfjármögnunar en aðrar útflutningsatvinnugreinar. Þar minntist hv. flm. á ábyrgðadeild fiskeldislána en hún ábyrgist rekstrarfjárlán frá bönkum til fiskeldisfyrirtækja. Þ.e. ábyrgðadeildin veitir ríkisábyrgð á rekstrarlánum til fiskeldis.
    Ég efast stórlega um að það sé hægt að gera betur heldur en veita ríkisábyrgð á rekstrarlán og það er meira að segja vafasamt hvort ríkið eigi að gera slíka hluti. Þetta varð hins vegar niðurstaðan eftir ítarlega athugun fyrir einum þremur árum síðan að þetta var gert. Það var í tíð síðustu ríkisstjórnar og ég var skipaður í stjórn þessarar ábyrgðadeildar sem fulltrúi fjmrh. sem þá var hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson. Þetta kemur kannski einhverjum á óvart að hann skyldi skipa mig, en alla vega var mér tjáð að þetta væri gert á faglegum grundvelli þar sem ég hefði sérþekkingu í þessu máli. Hæstv. þáv. ráðherra kallaði mig sérstaklega á sinn fund þar sem hann lagði mér línurnar um það hvernig ætti að starfa í þessari deild og þarna skyldi starfað fullkomlega á faglegan hátt og það hef ég gert alla tíð síðan og reyndar stundum fengið gagnrýni fyrir. En hvað um það, maður þolir það.
    Það er í greinargerð minnst á að stytta þurfi afgreiðslutíma deildarinnar. Það er rétt að afgreiðslutíminn hefur stundum verið langur en það hefur ekki verið vegna þess að deildin hafi ekki unnið sín verk bæði fljótt og vonandi vel, heldur hefur það aðallega verið vegna vandkvæða á því að fá gögn frá umsóknaraðilum og hugsanlega vegna þess að umsóknaraðilar hafa átt í erfiðleikum með að fá gögn og niðurstöður í sín mál hjá öðrum fjármálastofnunum.
    Ég tek hins vegar undir það að það þarf að efla eftirlitsþáttinn, en það er hins vegar afar vandasamt verk eins og dæmin sanna og hafa fleiri en ábyrgðadeildin rekið sig á það eins og t.d. tryggingafyrirtækin en tryggingafyrirgreiðslan er síðan annar kapítuli sem þarf að skoða mjög vel. Frú forseti. Ef ég má bæta því aðeins við að það er skilyrt í lögum um ábyrgðadeildina að fyrirtækin hafi tryggingar á þeim eldisstofni sem þau eru með í eldi og því verður ekki undan því vikist að fyrirtækin séu tryggð, en ég tek undir það sem kemur fram í greinargerð að iðgjöld eru há og tryggingaverndin oft og tíðum afar takmörkuð.