Ráðstafanir til að efla fiskeldi

150. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 15:53:09 (6711)

     Össur Skarphéðinsson :
    Frú forseti. Það sér á að hinir ungu lautinantar í Framsfl. fylgja mjög dyggilega í fótspor hershöfðingjans, hv. þm. Steingríms Hermannssonar, sem hefur sýnt lofsverðan áhuga á fiskeldi og beitt sér fyrir margvíslegum aðgerðum á meðan hann var forsrh. til þess að efla hag greinarinnar og það er vel. Ég fagna þessum áhuga og lýsi því nú yfir að reiðubúinn er ég til þess að taka höndum saman með þessum ágætu mönnum og reyna að treysta undirstöður greinarinnar.
    Það er nú svo að fiskeldi er í dag enn á barnsfótum en staðreyndin er sú að því hefur vaxið verulega fiskur um hrygg á síðustu árum og ég er sannfærður um að næsta öld verður öld fiskeldisins. Ég held að það sé ljóst að það verður ekki mikið meiri afli dreginn úr djúpum hafsins og til þess að mæta þörfum mannkynsins fyrir fisk munu menn fara leið eldisins.
    Það er hins vegar sorglegt að núna þegar er svona bjartara yfir fiskeldi í heiminum, þá hefur fiskeldi á Ísland hrunið í rústir þó við vonum auðvitað öll að það muni eins og fuglinn Fönix rísa úr rústum á ný. Staðreyndin er sú að það hefur mikilvæg þekking orðið til í fiskeldi á Íslandi. Við vorum ýmsir sem um miðjan síðasta áratug héldum því fram að það ætti e.t.v. að fara aðrar leiðir heldur en menn voru að fara þá. Eftir að Noregsmarkaðurinn fyrir seiði lokaðist og menn helltu sér af miklum krafti og með miklum fjárfestingum út í strandeldið, þá voru margir sem vöruðu við því. Margir héldu því fram að e.t.v. ætti að fara þá leið að nota þá strandeldisstöðvarnar í ríkari mæli til þess að búa til stór seiði sem farið væri með í sjóinn þar sem sumarhitinn, ódýr og góður, yrði notaður til þess að ala fiskinn upp í sláturstærð. Til þess að það yrði kleift, þá þurfti, virðulegi forseti, að ráða bót á tveimur vandamálum. Annars vegar að finna leiðir til þess að nýta varmaorku landsmanna til þess að búa til stór seiði og hins vegar líka finna leiðir til þess að ráða bót á kynþroskavanda laxfiskanna en eins og þeir vita sem þekkja til fiskeldis, þá veldur kynþroski því að vöxturinn stöðvast, mikill dauði fylgir stundum í kjölfarið og fiskurinn verður sem verslunarvara lítils virði.
    Undir lok áratugarins tókst mönnum hér á landi að ráða bót á kynþroskavandanum eftir tilraunir sem hið opinbera kostaði. Þá var hægt að þróa upp tækni sem gerði það að verkum að þetta var mögulegt og núna þegar því miður flestar fiskeldisstöðvar eru drepnar í dróma, eru líka að koma fram niðurstöður úr eldi sem sýna það að hraðeldi seiðanna hefur tekist. Með öðrum orðum, nú búum við yfir tækninni sem við höfðum ekki undir lok síðasta áratugar, þ.e. við getum búið til stór seiði og við getum farið með þau í sjóinn og við getum stöðvað kynþroska. Þetta er það sem ég hygg að framtíðin eigi að byggjast á.
    Það má líka benda á það að engin þjóð stendur Íslendingum jafnfætis á sviði hafbeitar. Það er engin þjóð sem nær svipuðum árangri og við í hafbeit á Atlantshafslaxi og hingað hafa erlendar þjóðir leitað eftir þekkingu og reynslu á því. Þess vegna segi ég að það er mjög nauðsynlegt að leita leiða til að nýta þekkinguna og líka fjárfestinguna sem liggur í greininni í dag og ég get út af fyrir sig tekið undir flest af því sem felst í tillögu hv. þm. Guðmundar Stefánssonar o.fl. Það er kannski eitt sem í hana vantar. Í dag er það svo að hið opinbera hefur í eigu sinni fjölmargar fiskeldisstöðvar. Þær liggja og grotna. Á að láta þessa fjárfestingu verða að engu? Ég held að það sé nauðsynlegt í þeirri stefnu sem verður að móta til framtíðar að ríkið taki ákvörðun um það með hverjum hætti á að ráðstafa þessum eignum. Þarna liggja kannski 5--7 milljarðar. Þeir sem þekkja til stöðvanna vita það að á ótrúlega skömmum tíma glatast fjárfestingin, stöðvarnar rýrna, grotna niður og það er nauðsynlegt að halda þeim í notkun. Og ég segi að það er mín skoðun og ég tel að ef ríkisstjórnin tekur ekki á málinu, þá eiga þingmenn að gera það. Ég tel sem sagt að það eigi að fara þá leið að bjóða mönnum sem eru í eldi afnot af þessum stöðvum endurgjaldslaust, láta þá fá þær stöðvar sem ríkið hefur nú í eigu sinni og nýtast að engu leyti, leyfa þeim að nýta þær. Þá held ég að það væri mögulegt í fyrsta skipti um margra ára skeið að draga í stöðvarnar erlent fjármagn. Hvers vegna? Vegna þess að þá liggja fyrir starfshæfar stöðvar sem menn þurfa ekki að festa fé í og það liggur líka fyrir að markaðurinn er á uppleið, er miklu betri. Og það er líka ljóst að við höfum mun betri þekkingu en áður. Ég mælist til þess, virðulegi forseti, að þegar þessi tillaga er rædd í nefnd þá tækju menn mið af þessu. Ef ríkisstjórnin vill ekki gera það sjálf, þá eiga þingmenn sem fylgja þá meiri skynsemi heldur en ríkisstjórnin í þessum málum að taka fram fyrir hendurnar á henni.
    Ég verð að segja að ég er ekki jafnsannfærður og hv. þm. stjórnarandstöðunnar sem sagði: Ég treysti ríkisstjórninni til þess að taka á þessum málum. Ég treysti henni ekki til þess þó að ég sé formaður þingflokks annars stjórnarliðsins. Ég er búinn að bíða lengi eftir því að ríkisstjórnin taki á ýmsum vandamálum fiskeldis. Ég skal bara nefna eitt. Það er sá liður sem tekið er á með tillögunni og er merktur 2. Við höfum verið að nöldra um það og nudda árum saman um að raforkuverð til fiskeldisstöðva verði lækkað. Það hefur gengið illa. Það var að vísu gerður samningur sem leiddi til svolítillar lækkunar. Hann rennur út um næstu áramót. Það liggur ekkert fyrir hvað þá á að gera. Og á þeim tímum þegar við búum við ofgnótt raforku í landinu, þá finnst mér það fráleitt að hún skuli ekki vera nýtt með þessum hætti. Þetta er nú sá þáttur tillögu hv. flm. sem mér þykir hvað vænst um.
    Ég vil að öðru leyti segja það að tillagan er að flestu leyti góð. Hér hafa spunnist svolitlar umræður um ábyrgðadeild fiskeldislána. Sú deild hefur starfað mjög vel, þykir mér. Hún hefur sýnt mikla varfærni og ég tel að það sé ekki við hana að sakast þó að stundum þyki mönnum dragast úr hömlu afgreiðsla þar vegna þess eins og hv. þm. Guðmundur Stefánsson veit, þá eru það fleiri þættir sem valda því heldur en einungis vilji þeirra manna sem sitja þar í stjórn. En hins vegar vil ég vekja athygli á því að með síðustu breytingum sem voru gerðar á lögum um þá deild, þá var henni gert kleift að veita 100% tryggingu eða ábyrgð á bankalánum. (Gripið fram í.) Jú, jú, svo er það nú hv. stjórnarmaður. Nei, nei, það er

alveg klárt að það er heimild fyrir deildina til þess að veita 100% lán í gegnum banka og það þarf enginn að segja mér neitt um það. Það eru hins vegar bankarnir sem hafa í rauninni hafnað þessari leið. Þeir eiga þó ekkert á hættu ef þessi leið er farin. Samt liggja fyrir dæmi um það að þeir hafa hafnað henni. Og það sýnir kannski hversu gersamlega þeir hafa misst trúna á greininni.
    Það er annað sem ég vil líka minnast á í þessu sambandi. Menn hafa verið að tala hér um vanda einstakra banka og tala eins og það sé sérstaklega fiskeldi að kenna. Ég held að það sé kominn tími til að það sé gerð úttekt á því og menn leggi fram gögn sem sýni það svart á hvítu hversu mikið bankarnir hafa tapað á fiskeldinu. Ég held að greinin sé þar að ósekju gerð að blóraböggli og mig tekur það sárt, og tel að það sé nauðsynlegt að þessum kurlum sé safnað til grafar.