Ráðstafanir til að efla fiskeldi

150. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 16:10:57 (6716)


     Össur Skarphéðinsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er alltaf ánægjulegt að hlusta á hv. þm. Eyjólf Konráð Jónsson ræða hugðarefni sín sem tengjast fiskeldi í þessu þingi og menn geta margt af honum lært. Hann sagði áðan að við hefðum á sínum tíma sótt verulegt fjármagn til Norðmanna og það er rétt og hann orðaði það líka svo að þeir hafi komið með sitt besta lið. Það kann vel að vera en staðreyndin er sú að fiskeldi í Noregi hefur verið með allt öðrum hætti en á Íslandi. Þeir hafa byggt upp sína sérþekkingu á sviði kvíaeldis. Reynslan hefur hins vegar sýnt að kvíaeldi gengur ekki mjög vel á Íslandi nema á tilteknum stöðum. Mér er kunnugt um að hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson átti á sínum tíma gott samstarf við Norðmenn einmitt um þá tegund eldis. En því miður þá féllum við líka í þá gryfju að fá Norðmenn til þess að aðstoða okkur við fiskeldi sem var annarrar gerðar. Við fengum Norðmenn hingað til þess að hanna stórar og mjög dýrar strandeldisstöðvar. Það kom í ljós að þeir höfðu ekkert vit á þessari tegund eldis enda voru þá engar slíkar eldisstöðvar í Noregi. Þetta leiddi til verulegra hönnunarmistaka sem hafa háð starfrækslu eldis í þessum stöðvum. Ég á þá sérstaklega við Íslandslax sáluga. Þetta sýnir, virðulegi forseti, að fiskeldi á Íslandi verður einungis byggt upp á séríslenskri þekkingu og sem betur fer hefur hún orðið til á síðustu árum. Það hefur safnast sjóður þekkingar og reynslu og það er einungis í krafti þess sjóðs sem okkur mun takast á komandi árum að reisa þessa ungu grein úr þeim rústum sem hún er í dag. Til þess að það sé hægt þá þurfa menn að taka höndum saman, menn innan greinarinnar og líka stjórnmálamenn. Á það ber að leggja mikla áherslu. Þess vegna segi ég að þegar þessi ágæta tillaga sem hér er fram komin verður rædd í nefnd þá held ég að menn ættu að taka inn í hana ýmsa aðra hluti. Menn eiga ekkert að hika við að setja fram kröfur á framkvæmdarvaldið um tilteknar aðgerðir í þessum efnum því það er satt að segja nóg komið af linku þess í þessu máli.