Sementsverksmiðja ríkisins

150. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 16:30:37 (6721)

     Ingibjörg Pálmadóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Vegna orða hv. formanns iðnn. um að það séu engin áform um að selja Sementsverksmiðju ríkisins við þessa breytingu, þá vil ég lesa upp fyrir hann svör sem ég fékk við þessari spurningu 20. febr. 1992. Þar segir hæstv. iðnrh. orðrétt:
    ,,Svar mitt við þeirri spurningu er: Eins og vel er kunnugt hefur ríkisstjórnin á sinni stefnuskrá að selja ríkisfyrirtæki eins og hér er um að ræða. Því hlýtur sala bréfa í verksmiðjunni að koma til greina á kjörtímabilinu. Þar kemur bæði til álita sala hlutabréfa til að afla fyrirtækinu aukins eigin fjár og einnig sala á hlut ríkisins í félaginu.``
    Ég spurði einnig að því hvort hann ætli að selja fyrirtækið í bitum eða í einu lagi og hann taldi jafnvel að bæði komi til greina.
    Svo ég víki að fleiri svörum við þessari fsp. þá taldi hæstv. umhvrh. Eiður Guðnason það gamaldags hugsunarhátt að ríkið væri í fyrirtækjarekstri og taldi, með leyfi forseta svo ég vitni orðrétt í hans orð:
    ,,En það er furðulegt, einkennileg tímaskekkja, að þegar ríkisrekstur kommúnismans um gjörvalla Austur-Evrópu er hruninn þá skuli talsmenn þessa sjónarmiðs koma í ræðustól og predika á hinu háa Alþingi að það sé sáluhjálparatriði að ríkið standi í stórkostlegum fyrirtækjarekstri.``
    Mér fannst nauðsynlegt að þetta kæmi hér fram. Hv. formaður iðnn. er kannski eini þingmaður Alþfl. sem ekki er þeirrar skoðunar að það eigi að selja þetta fyrirtæki. Ég vildi gjarnan fá að heyra það hér hver er skoðun hv. þm. og formanns iðnn. á því hvort rétt sé að selja fyrirtækið.