Sementsverksmiðja ríkisins

150. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 16:33:17 (6722)

     Frsm. meiri hluta iðnn. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er mér ekkert sáluhjálparatriði að fá upprifjanir á ummælum manna um þetta. Ég hef mínar eigin skoðanir. Það er alveg ljóst að í þessu frv. er ekki óskað heimildar til þess að selja hluta úr Sementsverksmiðjunni. Það segir í 8. gr., með leyfi forseta: ,,Ríkissjóður getur ekki boðið hlutabréf í Sementsverksmiðjunni til sölu nema hafa til þess samþykki Alþingis.``
    Hv. þm. Ingibjörg Pálmadóttir spyr um mína afstöðu og hún á rétt til að heyra hana. Ég er þeirrar skoðunar, eins og kom reyndar fram í máli mínu áðan, að Sementsverksmiðja ríkisins eigi að hafa kost á að afla aukins eigin fjár með hlutafjárútboði. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar, og tel rétt að það komi fram, að afstaða formanns iðnn. er sú að vegna eðlis þessarar verksmiðju þá eigi ríkið áfram að hafa á hendi meiri hluta í henni. Það er mín afstaða. ( SvG: Þú ræður engu.) Það kom í ljós í gær, hv. þm. Svavar Gestsson, að ég réð þó nokkru.