Sementsverksmiðja ríkisins

150. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 16:36:01 (6725)

     Frsm. minni hluta iðnn. (Finnur Ingólfsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. minni hluta iðnn. um frv. til laga um stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins. Þeir sem að minnihlutaálitinu standa, auk þess sem hér stendur, eru hv. þm. Páll Pétursson, Svavar Gestsson og Þórhildur Þorleifsdóttir.

    Minni hluti nefndarinnar telur ekki tímabært að breyta Sementsverksmiðju ríkisins í hlutafélag. Vinna ríkisstjórnarinnar við breytingarnar er illa undirbúin og aðstæður í þjóðfélaginu til þessara breytinga eru slæmar. Því leggur minni hlutinn til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar til frekari skoðunar.
     Helstu rökin fyrir þessari tillögu minni hlutans eru eftirfarandi:
    1. Í 6. tölul. yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar í tengslum við gerð kjarasamninga á sl. ári segir: ,,Ríkisstjórnin staðfestir að á samningstímanum verði ekki gerðar breytingar á lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna eða reglugerðum sem settar eru með stoð í þeim lögum. Ekki verða gerðar breytingar á lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna á samningstímanum.`` --- Þetta segir í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá síðasta ári.
    Ef Alþingi samþykkir frv., sem hér liggur fyrir, um stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins er alveg ljóst að verið væri að brjóta þetta ákvæði í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem í 4. gr. frv. er gert ráð fyrir að ákvæði 14. gr. laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, skuli ekki eiga við um þá starfsmenn sem boðið verður sambærilegt starf hjá Sementsverksmiðju ríkisins eftir að hún er orðin að hlutafélagi. --- Inn á þetta kem ég örlítið frekar síðar í rökstuðningi minni hlutans fyrir því að vísa málinu til ríkisstjórnar.
    Nú má kannski segja að samningar við opinbera starfsmenn séu í raun sé útrunnir. Hins vegar hafa ekki verið gerður nýir samningar þannig að það er útilokað að líta á það öðruvísi en svo að það verði af hálfu ríksstjórnarinnar að standa við það ákvæði í samningnum sem gerður var við BSRB við gerð síðustu kjarasamninga þar til nýr kjarasamningur hefur verið gerður. Og að brjóta þetta ákvæði við þessar kringumstæður er ekki gott veganesti inn í nýja samningsgerð sem nú stendur fyrir dyrum. Þess vegna er ég hissa á því að þessi tími skuli valinn, bæði gagnvart Sementsverksmiðjunni og eins gagnvart Síldarverksmiðjum ríkisins, sem var verið að lögfesta í dag. Tímasetning ríkisstjórnarinnar er því að mörgu leyti alveg stórfurðuleg og er í raun og veru ekkert annað en stríðsyfirlýsing til Bandalags starfsmanna ríkis og bæja um að það sé ekkert að marka þá samninga sem fjöldasamtök opinberra starfsmanna gera við ríkisstjórnina og þess vegna ekki hægt að treysta þeim til þess að standa við slík loforð.
    Til fundar við iðnn. var Gestur Jónsson hæstaréttarlögmaður boðaður og það var sérstaklega vegna 4. gr. frv. Lögfræðingurinn sendi frá sér álit sem um leið var það álit sem Starfsmannafélag ríkisstofnana sendi til iðnn. sem álit sitt á frv. Það kemur alveg skýrt fram í áliti Gests Jónssonar hæstaréttarlögmanns að verði þessar breytingar gerðar, þ.e. biðlaunarétturinn afnuminn og skerðing á lífeyrisréttindunum sem gæti hlotist af því --- sem er verið að gera því það er staðfest af Hæstarétti að það er ekkert til sem heitir sambærilegt starf í nýju hlutafélagi því starfsmenn í hinu nýja hlutafélagi njóta ekki sömu réttinda og sömu kjara og þeir höfðu meðan þeir voru starfsmenn ríkisins --- þá séu þær breytingar andstæðar 67. gr. stjórnarskrárinnar.
    Þetta kemur einnig fram í áliti Almennu lögfræðistofunnar sem Hróbjartur Jónatansson hæstaréttarlögmaður skrifar undir. Það var reyndar álit lögmannsins á sambærilegu ákvæði í frv. um Síldarverksmiðjur ríkisins, en þar segir lögmaðurinn á einum stað, með leyfi forseta:
    ,,Mín skoðun er sú að 7. gr. frv.`` --- þ.e. 7. gr. frv. um Síldarverksmiðjurnar sem er sambærilegt ákvæði og 4. gr. þessa frv. sem við erum hér með til umfjöllunar --- ,,feli í sér óhæfilega skerðingu á lögbundnum starfskjörum þeirra umræddu starfsmanna og af þeim ástæðum andstæð ákvæðum 67. gr. stjórnarskrárinnar.``
    Þrátt fyrir þessar viðvaranir tveggja lögfræðinga, hæstaréttarlögmanna er þetta mál keyrt fram. Jafnvel þó að um stjórnarskrárbrot sé að ræða. Til fundar við iðnn. komu einnig lögfræðingar sem höfðu efasemdir í þessum efnum en þeir treystu sér hins vegar ekki til að láta frá sér fara neitt skriflegt er væri rökstuðningur væri fyrir því að óhætt væri að gera þessar breytingar.
    Í þriðja lagi sem rökstuðningur fyrir þessu nál. minni hlutans um að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar, var það svo að starfsmenn Sementsverksmiðju ríkisins höfðu á sínum tíma lýst yfir stuðningi við breytingar á rekstrarformi Sementsverksmiðjunnar. Nú er þessi afstaða gjörbreytt. Eftir að minni hlutinn hafði þurft, ég vil kannski ekki beint segja að þvinga meiri hluta iðnn. til þess að fá að senda málið til umsagnar í starfsmannafélagi Sementsverksmiðju ríkisins en a.m.k. þurfti að beita meiri hlutann verulegum þrýsting í þeim efnum. ( Gripið fram í: Það er rangt.) ( ÖS: Það var strax orðið við þessari ósk.) Það er kannski smekksatriði hvaða orð menn nota nákvæmlega í þessum efnum, en formaður iðnn. má þó eiga það að hann lét undan þessum þrýstingi minni hlutans um að vísa málinu til umsagnar starfsmannafélagsins. ( ÖS: Ég var beittur fortölum.) Hann var beittur fortölum, já.
    Með leyfi forseta ætla ég að lesa álit starfsmannafélags Sementsverksmiðjunnar sem sent var til iðnn. og er dags. 14. jan. 1993:
    ,,Vísað er til bréfs iðnn. frá desember sl. þar sem óskað er eftir umsögn um frv. Alþingis að gera Sementsverksmiðjur ríkisins að hlutafélagi. Stjórn starfsmannafélagsins ákvað að hafa atkvæðagreiðslu um hvort starfsmennirnir væru hlynntir eða andvígir frv. því sem lagt hefur verið fram um stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins. Niðurstöður atkvæðagreiðslunnar voru sem hér segir:
    Hlynntir frv. 21. Andvígir frv. 78. Auðir og ógildir 4. Á kjörskrá voru 124. Atkvæði greiddu 103, eða u.þ.b. 83%.``

    Undir þetta ritar fyrir hönd stjórnar starfsmannafélags Sementsverksmiðju ríkisins, Lilja Högnadóttir formaður.
    Með öðrum orðum hafnar mikill meiri hluti starfsmanna Sementsverksmiðju ríkisins því að breyta rekstrarformi verksmiðjunnar. Þetta er breyting á afstöðu hjá starfsmönnum fyrirtækisins sem áður höfðu lýst því yfir að það væri allt í lagi þeirra vegna að breyta rekstrarforminu.
    Í fjórða lagi sem rökstuðningur við tillögu minni hlutans um að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar þá hafði bæjarstjórn Akraness lýst yfir stuðningi við frv. á fyrri þingum er það hafði komið þar til umsagnar. Það gilti það sama að það varð að beita formann iðnn. fortölum og meiri hlutann í nefndinni til þess að fá frv. aftur sent til umsagnar bæjarstjórnar Akraness. Formaðurinn lét hins vegar undan og og ég ætla, með leyfi forseta, að vitna í bréf sem iðnn. er ritað frá 18. jan. 1993:
    ,,Á fundi bæjarstjórnar Akraness 12. janúar sl. var m.a. fjallað um frumvarp til laga um að gera Sementsverksmiðju ríkisins að hlutafélagi.`` --- Það er rétt að taka það fram að álit bæjarstjórnarinnar fylgir með áliti minni hlutans sem fylgiskjal.
    ,,Bæjarstjórn Akraness samþykkti eftirfarandi umsögn um frumvarpið:
    ,,Á fundi bæjarstjórnar Akraness þriðjudaginn 15. janúar 1991 var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum umsögn um frumvarp til laga um stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins. Þar kemur m.a. eftirfarandi fram:
    ,,Bæjarstjórn Akraness vill taka það skýrt fram að ef ákvæðum frumvarpsins um aðstöðugjald eða eignarhald á hlutafé verður breytt, þá lýsir bæjarstjórn yfir eindreginni andstöðu við frumvarpið.``
    Umrætt frumvarp var ekki afgreitt á síðasta þingi en er nú aftur til umfjöllunar Alþingis. Hins vegar virðast báðar þær forsendur, sem taldar eru upp í ályktun bæjarstjórnar Akraness, hafa brostið.`` --- Þ.e. með aðstöðugjaldið og með eignarhaldið. --- ,,Í ræðum`` --- og taktu nú eftir, hv. 17. þm. Reykv., formaður þingflokks Alþfl.: ,,áhrifamikilla stjórnmálamanna hefur komið skýrt fram að þeir líti á breytingu Sementsverksmiðju ríkisins í hlutafélag sem fyrsta skref til sölu verksmiðjunnar. Einnig hefur aðstöðugjald af fyrirtækjum verið fellt niður.
    Að báðu þessu athuguðu mælist því bæjarstjórn Akraness til þess að frumvarpið verði ekki samþykkt.``
    Það er einnig breyting á afstöðu bæjarstjórnar Akraness til þessa frv. ( Gripið fram í: Eru kratarnir þar líka með?) Kratarnir eru með og sjálfstæðismennirnir eru með og framsóknarmennirnir eru með. Það er einróma. Þess vegna og því merkilegra er það álit fulltrúa Sjálfstfl. í bæjarstjórn, en þeir lögðu fram bókun á sama fundi eftir að hafa samþykkt að forsendurnar um aðstöðugjaldið og eignarhaldið væru brostnar og þess vegna væru þeir ekki lengur stuðningsaðilar þess að málið yrði samþykkt á Alþingi.
    Ég ætla, með leyfi forseta, að vitna í bókun fulltrúa Sjálfstfl. í bæjarstjórn Akraness. Hún er reyndar í anda Sjálfstfl. vegna þess að þegar maður er búinn að lesa hana yfir þá áttar maður sig alls ekki á því hvað snýr upp eða niður á þessu máli. (Gripið fram í.) Nei, mér finnst rétt að það sé gert heyrum kunnugt hversu ótrúleg sú afstaða er. Eftir að fulltrúarnir eru búnir að samþykkja að ekki sé hægt að standa að frv. segir í bókun sjálfstæðismanna, með leyfi forseta:
    ,,Á fundi bæjarstjórnar Akraness þriðjudaginn 15. janúar 1991 var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum umsögn um frv. til laga um stofnun hlutafélagsins Sementsverksmiðju ríkisins. Þar kemur m.a. eftirfarandi fram:
    ,,Bæjarstjórn Akraness vill taka það skýrt fram að ef ákvæðum frv. um aðstöðugjald eða eignarhald á hlutafé verði breytt þá lýsir bæjarstjórn yfir eindreginni andstöðu við frumvarpið.``
    Síðan segir: ,,Vegna þess samdráttar sem nú er á vinnumarkaðinum er það eindregin von fulltrúa Sjálfstfl. í bæjarstjórn Akraness að frelsi Sementsverksmiðjunnar til þátttöku í þróunarverkefnum, rannsóknum og öðrum hlutafélögum verði til þess að verksmiðjan verði mun virkari þátttakandi í eflingu atvinnulífs á Akranesi.
    Fulltrúar Sjálfstfl. í bæjarstjórn Akraness lýsa yfir stuðningi við frv. þrátt fyrir niðurfellingu aðstöðugjalds á fyrirtækið en leggja til að tekjulækkun sem af þeirri niðurfellingu hlýst verði að stærstum hluta bætt af ríkissjóði. Ofangreint tilkynnist hér með.``
    Þetta er náttúrlega alveg ótrúlegt rugl og maður botnar ekkert í þessu. Eftir að mennirnir hafa staðið í því í bæjarstjórninni að hafna frv. þá koma þeir í sama máli og örugglega undir sama dagskrárliðnum á sama bæjarstjórnarfundinum með bókun um það að nú séu þeir orðnir með. ( Gripið fram í: Hvaða flokkur var þetta?) Þetta var Sjálfstfl. á Akranesi sem þannig hegðaði sér. En það er reyndar bara eftir öðru sem í hugarheimi þeirra manna er að gerst um þessar mundir og hefur verið að gerast að undanförnu.
    Í fimmta lagi sem rökstuðningur fyrir því að minni hlutinn leggur til að frv. verði vísað til ríkisstjórnar er að Sementsverksmiðja ríkisins býr við þær markaðsaðstæður að vera einokunarfyrirtæki. Ekki eru uppi hugmyndir um að koma upp samkeppni í þessari atvinnugrein og því óeðlilegt að afhenda einkaaðilum slíkt einokunarfyrirtæki. Þegar fyrirtækið er komið í hendur einkaaðila geta opinberir aðilar engin áhrif haft á verð á þeim afurðum sem fyrirtækið selur. Inn á þetta kom áðan hv. formaður iðnn., Össur Skarphéðinsson. Það væri hins vegar fróðlegt að skoða þá breytingu sem ríkisstjórnin er að leggja til í ljósi þess hvernig þetta kemur heim og saman við nýsamþykkt samkeppnislög. Hvort þessi breyting, þar sem ríkisvaldið er að ætlast til að Alþingi hafi frumkvæði að því að breyta rekstrarformi þessa einokunarfyrirtækis og ýta því út á markaðinn með einokunaraðstöðu, brjóti ekki í bága við nýju samkeppnislögin. Þó svo samkeppnisráð geti gripið til einhverra sérstakra ráðstafana þegar að þessu er komið, þá held ég að það hljóti að teljast óeðlilegt að ríkisvaldið sé að beita sér fyrir slíkum breytingum.
    Í sjötta lagi sem rökstuðningur fyrir því að málið eigi að fara aftur til ríkisstjórnar, þá er gert ráð fyrir því í 8. gr. frv. að ríkissjóður geti ekki boðið hlutabréf Sementsverksmiðjunnar til sölu nema hafa til þess samþykki Alþingis en það hefur komið fram, eins og hv. þm. Ingibjörg Pálmadóttir benti á áðan í svari iðnrh. við fsp. á Alþingi um það hvort það standi til að selja fyrirtækið eða ekki, að það á að selja fyrirtækið, hvort sem það verður selt í heilu lagi eða í smærri einingum. Ég hygg að bæjarstjórn Akraness sé í sinni umsögn að vitna til svars iðnrh. við fsp. hv. þm. Ingibjargar Pálmadóttur á síðasta ári þegar hún segir á einum stað að í ræðum áhrifamikilla stjórnmálamanna hafi það komið fram að það standi til að selja fyrirtækið. Því vil ég spyrja formann iðnn., hv. þm. Össur Skarphéðinsson, hvort það geti verið að bæjarstjórnin eigi þarna við hæstv. iðnrh. sem áhrifamikinn stjórnmálamann eða kannski einhvern annan af hv. þm. Alþfl.
    Fyrir utan það sem tilgreint eru hér sem rök fyrir því að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar, þá held ég að allir séu sammála um að þær aðstæður séu núna í okkar þjóðfélagi í atvinnumálum, atvinnulífið á í vök að verjast, það er stórkostlegt tap í sjávarútveginum og það er skortur á miklu eigin fé í fyrirtækjum. Að ýta Sementsverksmiðju ríkisins út á markaðinn við þessar aðstæður held ég að sé í raun og veru ,,feilspekúlasjón`` hjá áhrifamiklum stjórnmálamanni og að detta til hugar við ríkjandi kringumstæður að ýta Sementsverksmiðjunni út á markaðinn og fá þá aðila sem hafa takmarkaða peninga til þess að kaupa hlut í slíku fyrirtæki. Fyrir utan þau rök sem hér hefur verið minnst á er tímasetningin röng og því ítreka ég þá tillögu okkar sem stöndum að áliti minni hlutans að við leggjum til að frv. verði vísað til ríkisstjórnarinnar til frekari skoðunar.