Sementsverksmiðja ríkisins

150. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 17:41:11 (6738)

     Frsm. meiri hluta iðnn. (Össur Skarphéðinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég er þakklátur hv. þm. Svavari Gestssyni þegar hann fer jákvæðum orðum um stuðning minn við verkalýðshreyfinguna. Ekki veitir af þessa dagana.
    Það liggur eigi að síður fyrir, virðulegi forseti, að hvað sem varðar starfsmannamál í Gutenberg, þá var hv. þm. Svavar Gestsson og þáv. ráðherra sömu skoðunar 1989 þegar frv. um Gutenberg var lagt fram og ég er núna, þ.e. að hér sé ekki um lögbrot að ræða. Það er hins vegar ljóst að lögfræðinga greinir á um þetta mál og ég hef sagt það áður og get þess vegna endurtekið það að úr þessu verður ekki skorið nema fyrir dómstólum. Ég vil hins vegar vekja athygli á að þau lög sem hér er deilt um og varða opinbera starfsmenn kveða á um að ef staða er lögð niður, þá eigi starfsmaður kost á biðlaunum.
    Nú er það svo að í lögunum kemur það skýrt fram að ef starfsmaður kýs við þessa formbreytingu á fyrirtækinu að hætta störfum, þá á hann kost á biðlaunum. Við skulum ekki gleyma því.