Sementsverksmiðja ríkisins

150. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 17:42:46 (6740)

     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Það frv. sem hér er komið til 2. umr. er ekki nýtt af nálinni þótt það hafi tekið breytingum á þeim sex árum sem það hefur verið meira og minna til umfjöllunar. Í upphafi þegar rætt var um að breyta Sementsverksmiðjunni í hlutafélagsform, þá var verið að ræða um að það þyrfti að breyta því formi að Sementsverksmiðjan greiddi aðstöðugjald eins og önnur svipuð fyrirtæki. Nú er aðstöðugjald ekki lengur við lýði eins og menn vita, en fyrirtækið Sementsverksmiðjan greiðir landsútsvar.
    Ef við horfum á það hversu fá fyrirtæki greiða landsútsvar í dag, þá hlýtur það að verða krafa þeirra fyrirtækja innan tíðar að hætta að greiða landsútsvar þar sem aðstöðugjaldið er fallið niður vegna þess að samkeppnisstaða þessara fyrirtækja er ekki í jafnvægi, ef svo má segja. Ég tel það eitt að fyrirtækið greiði í dag landsútsvar ekki vera rök fyrir því að breyta Sementsverksmiðju í hlutafélag heldur er þetta krafa olíufélaganna og fleiri fyrirtækja sem í dag greiða landsútsvar að það verði fellt niður.
    Það voru önnur rök fyrir því að fyrirtæki verði breytt í hlutafélag. Eins og hér hefur komið fram þá átti að auka sveigjanleika í rekstri fyrirtækisins. Þegar menn eru að tala um sveigjanleika í rekstri fyrirtækisins eru menn að tala um það að fyrirtækið geti tekið þátt í annarri atvinnustarfsemi. En það hefur skeð í ríkum mæli á undanförnum árum og enginn hefur stoppað það af sem betur fer, enda er Sementsverksmiðja ríkisins hluthafi í Sérsteypunni sf., sem hefur framleitt ný efni í varanlega gatnagerð, og einnig í Múrhúðun.
    Sementsverksmiðjan er með samvinnu við Grundartangaverksmiðjuna og eins og hér hefur komið fram er kísilryki sem fellur til frá Járnblendiverksmiðjunni blandað í sementið. Í dag er verið að skoða það hvernig sementsverksmiðjan getur komið inn í væntanleg Hvalfjarðargöng. Sem sagt, mér sýnist að Sementsverksmiðja ríkisins hafi þennan sveigjanleika í dag og það er hægt að auka hann enn þótt fyrirtækinu sé ekki breytt í hlutafélag. Þegar menn eru að breyta fyrirtæki í hlutafélag, þá hljóta menn að vera með sterk rök fyrir því og hv. formaður iðnn. taldi hér nokkur rök áðan og m.a. um þennan sveigjanleika sem ég hef verið að tala um. Ég tel að þessi sveigjanleiki sé fyrir hendi og sé hægt að auka hann án þess að breyta í hlutafélag.
    Hann taldi líka að þetta mundi auka möguleika fyrirtækisins á ýmsum sviðum og það væri gaman að heyra það aðeins skýrar hvað hv. þm. er að meina í þeim efnum. Hann taldi líka að þetta mundi bæta eiginfjárstöðu fyrirtækisins en það kemur hvergi fram að þetta geti bætt eiginfjárstöðu fyrirtækisins þar sem ríkið ætlar að nota sjálft það fé sem kemur fyrir sölu hlutabréfa.
    Hv. þm. sagði líka að það ætt að auka aga í atvinnurekstri þessa fyrirtækis, hann orðaði það þannig, og þá væri forvitnilegt að vita hvað það er í rekstri fyrirtækisins sem hann telur vera agalaust því að ég tel að fyrirtækið sé mjög vel rekið og þykist þekkja nokkuð vel til og einmitt hvernig það hefur tekið á þeim mikla samdrætti sem er núna í rekstri fyrirtækisins. Ég held að það sé til fyrirmyndar hvernig fyrirtækið hefur tekið á því og ég sé ekki að þó að svo fyrirtækinu verði breytt í hlutafélag, þá sé hægt að taka öllu myndarlegar á því en hefur verið gert. Hann talaði um það að skattalega séð hefði verið eðlilegra að þetta væri hlutafélag og það þótti mönnum á meðan aðstöðugjaldið var við lýði en nú er búið að leggja það niður.
    Þá spyr maður sig að því, hvaða rök eru eftir önnur fyrir því að selja fyrirtækið? Mér sýnist að þau séu harla fá ef nokkur. Ég hef oft sagt það hér á hinu háa Alþingi að mér finnst rétt að breyta fyrirtæki í hlutafélagsform séu til þess einhver rök. Ég sé þau ekki hér. Mér finnst það sjálfsagt að fyrirtækjum sem eru í samkeppni t.d. sé breytt í hlutafélag og það séu seld hlutabréf úr þeim og ég er alveg viss um það að með lagni hefði verið hægt að ná samstöðu um það að breyta Síldarverksmiðju ríkisins í hlutafélag ef menn hefðu aðeins gefið sér betri tíma til þess að gaumgæfa þau mál og ekki fellt allar þær tillögur sem minni hlutinn var með í þeim málum. En nú erum við að tala um fyrirtæki sem er í vissri einokunarstöðu. Þrátt fyrir að það sé nokkur innflutningur á sementi síðan 1975, þá njótum við vissrar fjarlægðarverndar, það mælir því enginn á móti. Þannig að ég sé ekki af hverju við erum selja einokunarfyrirtæki til einstaklinga t.d. Og ég spyr enn þá: Hverra hagsmunir eru það að breyta fyrirtækinu í hlutafélag?
    Við höfum heyrt hérna hvað bæjarstjórn Akraness segir. Bæjarstjórn Akraness er á móti því að breyta fyrirtækinu í hlutafélag. Meiri hluti starfsmanna Sementsverksmiðjunnar er á móti því að breyta fyrirtækinu í hlutafélag og þau rök sem hingað til hafa komið fram sé ég ekki að séu neins virði satt að segja. Hér hefur verið talað um að það sé eðlilegt að fyrirtækið greiði arð, en ég ætla að fordæma það sem ríkið hefur gert á sl. ári. Það hefur gert þær kröfur til fyrirtækisins að það borgi arð og ég held að ég fari rétt með að það eru gerðar kröfur til 15 millj. kr. arðs á þessu ári sem ríkissjóður ætlar að nýta sér til eigin þarfa. Og ég ætla að minna á það að fyrirtækið Sementsverksmiðja ríkisins hefur aldrei þegið túskilding af ríkissjóði sem er eigandi fyrirtækisins. Það hefur alltaf staðið við allar sínar skuldbindingar og borgað sinn stofnkostnað sjálft. Þess vegna erum við ekki að tala um eitthvert fyrirtæki sem er byrði á ríkissjóði. Þvert á móti er þetta fyrirtæki sem ríkissjóður er jafnvel farinn að blóðmjólka. En aðalatriðið í þessu máli er atvinnuöryggi starfsmanna. Á þessum síðustu og verstu tímum þegar atvinna t.d. á Akranesi er með allra versta móti þá skapar það ekki beint góða öryggisstöðu starfsmanna ef menn eiga von á að það eigi að selja fyrirtækið sem þeir vinna hjá, annaðhvort í heilu lagi eða í pörtum. Ég las upp áðan ummæli hæstv. iðnrh. og hæstv. umhvrh. um það að þeim þætti sjálfsagt að selja þetta fyrirtæki. Ég tel að öryggi starfsmanna sé langt frá því að vera borgið með því. Enda mundi ég telja að ef fyrirtækið yrði selt þá yrði smátt og smátt dregið úr sementsframleiðslu og aukinn innflutningur kæmi í staðinn.
    Hér hefur líka verið rætt um að ekki komi greinilega fram hvort starfsmenn almennt fá það sem þeir eiga að fá í sambandi við uppsagnir við breytingu úr ríkisfyrirtæki í hlutafélag. Hv. þm. Svavar Gestsson kom inn á það áðan að hann vildi kalla á fulltrúa frá BSRB til viðræðna við iðnn. á milli 2. og 3. umr. Hann fékk ekki svör við því frá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni. Ég ætla að ítreka hvort hann muni kalla á fulltrúa frá BSRB á milli umræðna.
    Ég held að ég hafi farið í gegnum það að ég sé ekki nokkur rök fyrir því að breyta þessu ágæta fyrirtæki, Sementsverksmiðju ríkisins, í hlutafélag einungis til þess að selja hutabréf úr fyrirtækinu. Það kom skýrt fram hjá hv. þm. Svavari Gestssyni að það er mjög einfalt um leið og búið er að breyta þessu fyrirtæki í hlutafélag að selja hlutabréf. Það þarf ekki nema einfalda grein í fjárlögum til þess og þá er ég hrædd um að ráðalitlir almennir þingmenn fái lítið að segja um það í þingsölum.