Sementsverksmiðja ríkisins

150. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 18:17:03 (6744)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hef venjulega skilið það þannig að sé settur er múll á mann verði það til þess að hann geti ekkert sagt en það er nú frekar að hv. þingflokksformaður minn hafi losað af mér múlinn.
    Virðulegi forseti. Greinina í Morgunblaðinu las ég upp vegna þess að mér sýndist að hv. stjórnarþingmönnum veitti ekki af því að hlusta á þetta. Síðasta atriðið sem hv. þm. ræddi skildi hann annaðhvort ekki sjálfur hvað hann var að segja eða hann opinberaði vanþekkingu sína á uppbyggingu fyrirtækja og eðli eigin fjár. Ef ríkið selur hluta af fyrirtæki, sem það hefur breytt í hlutafé, notar þá peninga til að fjármagna ríkisreksturinn, kemur ekkert nýtt eigið fé inn, ekki króna. Við sjáum í fjárlögum að ríkið ætlar sér meiri tekjur af sölu ríkisfyrirtækja en nokkur sem einhverja þekkingu hefur á viðskiptalífinu veit að hægt er að ná inn. Því er alveg ljóst að hverja einustu krónu, sem fært er í sölu fyrirtækja í eigu ríkisins, á að nota til að fjármagna ríkissjóð. Þá kemur einmitt það sem Keswick sagði í sinni grein að það eitt að selja fyrirtæki, það eitt að það breyti um eigendur, skapar ekki nýtt eigið fé upp á eina einustu krónu.