Sementsverksmiðja ríkisins

150. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 18:18:57 (6745)

     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Það er ógæfa Sementsverksmiðjunnar, ógæfa starfsmanna Sementsverksmiðjunnar, ógæfa viðskiptamanna Sementsverkmsiðjunnar og Akraneskaupstaðar að verksmiðjan hefur orðið fórnarlamb í trúarbragðakrossferð einkavæðingarmanna. Á síðustu vikum varð hún þar á ofan að verslunarvöru stjórnarflokkanna þar sem morguninn eftir að hæstv. iðnrh. og viðskrh. var kveðinn í kútinn með það að einkavæða Búnaðarbankann gerði þingflokksformaður hans það fyrir hann til ofurlítillar huggunar að keyra frv. til laga um Sementsverksiðju ríkisins út úr iðnn. á algerlega óeðlilegan hátt, Sementsverksmiðjuna hf.     Nú er ég ekki að lá hv. formanni iðnn. þó að hann vildi gera það fyrir leiðtoga sinn, iðnrh., að afgreiða frv. úr nefndinni en hann gat sem hægast og hafði nægan tíma til að gefa nefndini tækifæri til þess að ræða málið eðlilega. Frv. var tekið fyrir á 10. fundi iðnn. á 116. löggjafarþingi og svona er bókað um það: ,,Menn ræddu um vinnubrögð vegna þessa máls. Ákveðið var að senda til umsagnar bæjarstjórn Akraness og Starfsmannfélags ríkisins. Þegar við fengum niðurstöður frá bæjarstjórn Akraness þá brá okkur nokkuð í brún því að hún var nokkur önnur heldur en við höfðum búist við og segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Á fundi bæjarstjórnar Akraness 12. jan. sl. var m.a. fjallað um frv. til laga um að gera Sementsverksmiðju ríkisins að hlutafélagi. Bæjarstjórn Akraness samþykkti eftirfarandi umsögn um frv.`` Síðan kemur umsögnin: ,,Á fundi bæjarstjórnar Akraness þriðjudaginn 19. jan. 1991 var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum umsögn um frv. til laga um stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins. Þar kemur m.a. eftirfarandi fram:
    ,,Bæjarstjórn Akraness vill taka það skýrt fram að ef ákvæði frv. um aðstöðugjald eða eignarhald á hlutafé verður breytt þá lýsir bæjarstjórn yfir eindreginni andstöðu við frv. Umrætt frv. var ekki afgreitt á síðasta þingi en er nú aftur til umfjöllunar Alþingis. Hins vegar virðast báðar þær forsendur sem taldar eru upp í ályktun bæjarstjórnar Akraness hafa brostið. Í ræðum áhrifamikilla stjórnmálamanna hefur komið skýrt fram að þeir líti á breytingu Sementsverksmiðju ríkisins í hlutafélags sem fyrsta skref til sölu verksmiðjunnar. Einnig hefur aðstöðugjald hjá fyrirtækjum verið fellt niður. Að báðu þessu athuguðu mælist því bæjarstjórn Akraness til þess að frv. verði ekki samþykkt.````
    Nú er mér kunnugt um að ályktunin fékk engin mótatkvæði í bæjarstjórn Akraness og mér er líka kunnugt um að fulltrúi Alþfl. í bæjarstjórninni greiddi tillögunni atkvæði sitt. Á 14. fundi iðnn., sem var haldinn fimmtudaginn 11. mars, var frv. um Sementsverksmiðjuna tekið til umræðu í annað sinn á þessum vetri og var bókað, með leyfi forseta:
    ,,Meiri hluti nefndarinnar ákvað að afgreiða málið úr nefndinni, þ.e. Össur Skarphéðinsson, Sigríður Anna Þórðardóttir, Tómas Ingi Olrich, Pálmi Jónsson og Einar K. Guðfinnsson. Minni hluti nefndarinnar, Páll Pétursson, Svavar Gestsson og Finnur Ingólfsson, lýstu sig andvíga því að afgreiða málið á þessum fundi og áskildu sér rétt til að leggja fram bókun um afgreiðslu málsins. Meiri hluti og minni hluti skila báðir sérstökum álitum.``
    Síðan er bókun Páls Péturssonar: ,,Ég tel sementsverksmiðjufrv. ekki fullrætt í nefndinni. Ég tel rangt af formanni að verða ekki við óskum nefndarmanna um að leggja fram gögn í nefndinni varðandi málið og að neita að kveðja lögfræðing BSRB og lögfræðing fjmrn. til fundar við nefndina. Ég mótmæli þessum vinnubrögðum formanns og afgreiðslu málsins á þessum fundi. Svavar Gestsson og Finnur Ingólfsson lýstu sig sammála bókun Páls.``
    Þá bókaði formaður nefndarinnar Össur Skarphéðinsson: ,,Í tilefni af bókun stjórnarandstöðunnar bendi ég á eftirfarandi:
    1. Lögmaður BSRB og lögfræðingur fjmrn. hafa komið til fundar við iðnn. og svarað öllum spurningum nefndarinnar.

    2. Jafnframt liggja fyrir skriflegar umsagnir beggja aðila málsins. Þar af leiðandi vísa ég fullyrðingum í bókun stjórnarandstöðunnar algerlega á bug.`` Lýkur hér bókun Össurar.
    Páll Pétursson óskaði eftirfarandi viðbótarbókunar: ,,Síðan áðurnefndir lögfræðingar komu á fund nefndarinnar á 115. þingi hafa runnið mörg tungl. Afstaða þeirra til málsins kann að vera breytt. Umsagnir starfsmanna Sementverksmiðjunnar og bæjarstjórnar Akraness breyttust frá því í fyrravetur. Æðibunugangur formannsins er ástæðulaus.``
    Svona hljóðuðu þessar bókanir og því rek ég þær hér að ég er enn sömu skoðunar og ég var á þessum fundi að eðlilegt sé að ræða þetta mál nánar í hv. iðnn. Ég tek undir þær óskir sem hafa komið fram í umræðunni um að málið verði tekið fyrir í nefndinni milli 2. og 3. umr. og fer formlega fram á það.
    Hver eru svo rökin fyrir því að einkavæða þessa blessaða Sementsverksmiðju? Að vísu verður að játa það að framtíð hennar er nokkuð óviss. Ef við verðum aðilar að Evrópsku efnahagssvæði þá kann að verða þungt fyrir fæti fyrir verksmiðjuna en núna stendur fyrirtækið sig, það hefur þurft að leita á náðir eigenda sinna, þ.e. ríkissjóðs og hefur verið byggt upp af miklum dugnaði og framsýni. Ég sé ekki betur en þeir sem hafa stjórnað verksmiðjunni, stjórn verksmiðjunnar, framkvæmdastjóri og starfsmenn eigi allt gott skilið. Mér finnst óhæfa að vera með eitthvert skítkast í stjórn verksmiðjunnar og fyrrverandi stjórnir fyrir það að þeir hafi verið einhverjir aumingjar og ekki stjórnað fyrirtækinu eðlilega. Því er haldið fram að stjórnarformið verði eitthvað betra með því að breyta fyrirtækinu í hlutafélag. Ég tel að verið sé að ráðast á menn eins og vin okkar Friðjón Þórðarson, fyrrv. þingmann, sem sat lengi í stjórn fyrirtækisins. Ég tel að verið sé að ráðast á fyrrv. stjórnarmenn og reyndar núverandi stjórnarmenn fyrirtækisins og draga hæfileika þeirra í efa.
    Einkavæðingarflipp ríkisstjórnarinnar gengur fyrst og fremst út á það að afhenda kolkrabbanum það sem fémætt er í eigu ríkisins eftir því sem menn geta komið því við fyrir lítið fé. Hér er um að ræða markaðsráðandi fyrirtæki sem má nánast kalla einokunarfyrirtæki og hefur skilað arði og hefur þjónað landsmönnum vel. Ég ansa því ekki að um sé að ræða einhverja skipulagsbreytingu til bóta að gera þetta fyrirtæki að hlutafélagi. Það eina sem gerist meðan hlutaféð er í eigu ríkisins er að það lýtur ekki þingkjörinni stjórn heldur verður ráðherra á hverjum tíma allsráðandi um hvernig stjórnin er skipuð. Ég geri ráð fyrir því að ef þetta frv. verður að lögum þá skipi hæstv. iðnrh. nýja stjórn, skipaða krötum og sjálfstæðismönnum. Ég reikna með því að hann taki einhverja sjálfstæðismenn í stjórnina en ég sé ekki að stjórnin batni við það, síður en svo. ( ÁMM: Hvernig er með stjórn Járnblendifélagsins?) Járnblendifélagið er nokkuð annars eðlis. Ég sé ekki að stjórnin batni með því að ráðherra skipa hana og ég treysti Alþingi prýðilega til þess að velja fyrirtækinu stjórn.
    Ég átti þess kost að sækja ákaflega minnisverðan fund fyrr í vetur sem BSRB efndi til vestur á Hótel Sögu og þar var fundafyrirlesari Breti nokkur sem ræddi einkavæðingu. Hann skipti einkavæðingu í það sem hann kallaði heiðarlega einkavæðingu og óheiðarlega einkavæðingu. Heiðarlega einkavæðingu taldi hann vera t.d. þá einkavæðingu sem Thatcher beitti sér fyrir, þ.e. að drífa fyrirtækin úr opinberi eigu í hendur einstaklinga, en það sem hann flokkaði undir óheiðarlega einkavæðingu væri það þegar verið var að dulabúa einkavæðinguna með því að búa til hlutafélög úr ríkisfyrirtækjunum til þess að eiga síðan skemmri leið að koma þeim úr eigu ríkisins. Þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið við Sementsverksmiðjuna eru nákvæmlega kennslubókardæmi um það sem hann taldi óheiðarlega einkavæðingu. Ef þetta frv. er samþykkt, þá er vitanlega eins og margoft hefur komið fram í umræðunum einfalt mál að setja inn litla klausu í heimildargrein fjárlaga, annaðhvort næsta haust eða haustið þar á eftir þar sem ráðherra sé heimilt að selja hlutabréfin og enginn fær rönd við reist. Einkavæðingarskrefið er nefnilega tekið við samþykkt þessa frv.
    Þessi fyrirlesari orðaði líka hvers lags óskapleg villukenning það væri þegar menn héldu því fram að sala ríkisfyrirtækja yrði til þess að laga halla ríkissjóðs. Það væri ekki svo. Þetta væri á sinn máta eins og farga mjólkurkú. Það kæmi væntanlega verð fyrir fyrirtækin þegar þau væru seld en það bætti ekkert rekstur ríkissjóðs vegna þess að ríkissjóðshalli yrði ekki lagaður nema með því að bæta reksturinn eða afla aukinna tekna.
    Ég hef enga trú á því að þetta stjórnarform sem hér er lagt til fyrir Sementsverksmiðjuna verði liprara. Ég vitna til þess að þorri starfsmanna Sementsverksmiðjunnar, eins og rifjað er upp í nál. á þskj. 869, er andvígur þessu frv. en þar var eins og þar segir í atkvæðagreiðslu sem fram fór meðal starfsmanna Sementsverksmiðjunnar:
    ,,Í atkvæðagreiðslum voru 124 á kjörskrá. Atkvæði greiddu 103 eða 83%. Atkvæði féllu þannig að hlynntir frv. voru 21, andvígir voru 78, auðir og ógildir voru 4.`` Þegar þetta bætist við að þessi lagasetning er í trássi við bæjarstjórn Akraness, þá tel ég mjög sterk rök fyrir því að afgreiða ekki þetta frv. og ég treysti því nú að sú verði gæfa ríkisstjórnarinnar að gera það ekki en ef þetta mál gengur til atkvæða þá mun ég, frú forseti, greiða atkvæði gegn því.