Sementsverksmiðja ríkisins

150. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 19:00:45 (6750)

     Sturla Böðvarsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég tel að það sé ekki út af fyrir sig mikill munur á því hvort fyrirtæki er í þeirri aðstöðu sem Sementsverksmiðjan er eða hvort það fyrirtæki sem rekið er eins og t.d. í almennum iðnaði eða þjónustu. Mér sýnist og það fer ekkert milli mála að Sementsverksmiðjan verður og er í rauninni í samkeppni á stórum markaði hér í Evrópu og getur orðið það í æ ríkari mæli. Ég held að við þurfum að gera okkur grein fyrir því að það eiga að gilda alveg sömu lögmál í rekstri fyrirtækis eins og Sementsverksmiðjunnar og allra annarra fyrirtækja. Þess vegna held ég að hlutafélagaformið sé ákjósanlegt form og geti átt mjög vel við um rekstur Sementsverksmiðjunnar. Það má kannski minna á að það er annað stórt fyrirtæki sem er Íslenska járnblendifélagið sem hefur verið rekið oft og tíðum með bærilegum hætti og starfsmenn á Akranesi þekkja stjórnfyrirkomulag þess fyrirtækis þó það hafi skipst á skin og skýrir í rekstri

fyrirtækisins af markaðsástæðum. En innra skipulagið og stjórn fyrirtækisins hefur verið byggt upp með þeim hætti sem hér er verið að leggja til.