Sementsverksmiðja ríkisins

150. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 19:03:33 (6752)

     Sturla Böðvarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hef nú heldur ekki orðið þess var að það stæði til að opna hlutabréfasölu gagnvart Járnblendifélaginu. En varðandi afstöðu mína til þess hvort það eigi að selja hlutabréf í Sementsverksmiðjunni þá sagði ég það og tók undir það sem hv. 17. þm. Reykv. sagði fyrr í umræðunni að ég tel að það sé eðlilegt að ríkið eigi meiri hluta í Sementsverksmiðjunni. Ég dreg þá skoðun ekkert við mig en ég tel á sama hátt ekkert óeðlilegt við það að það væri gefið færi á að selja einhvern tiltekinn hluta af bréfum í félaginu, t.d. til starfsmanna. Ég tel ekkert óeðlilegt við það og þannig væri hægt að fá inn í fyrirtækið þátttakendur sem væru áhugasamir og viljugir til þess að bæta sem best stjórn þessa fyrirtækis og vera þátttakendur í rekstri þess.