Réttindi þeirra sem ekki hafa atvinnu

150. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 19:38:57 (6766)

     Flm. (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 728 flyt ég ásamt öðrum þingmönnum Alþb. frv. til laga um réttindi þeirra sem hafa ekki atvinnu. Segja má að frv. eigi sér langan aðdraganda og felst aðdragandinn fyrst og fremst í því að við búum við mjög verulegt atvinnuleysi í landinu um þessar mundir. Auk þess hafa menn um langt árabil velt því fyrir sér hvort rétt væri að breyta lögunum um atvinnuleysistryggingar þannig að þær næðu til fleiri aðila en nú er samkvæmt gildandi lögum. M.a. flutti hv. þm. Geir H. Haarde fyrir nokkrum árum frv. um breytingar á lögum um Atvinnuleysistryggingasjóð þar sem hann gerði ráð fyrir því að ýmsir aðilar eins og einyrkjar yrðu teknir inn í skyldusvið sjóðsins jafnvel þó að þeir væru ekki aðilar að stéttarfélögum.
    Á undanförnum mánuðum hefur verið rætt mikið um nokkur atriði sem væri í raun og veru sjálfsagt að leiðrétta frá því sem er í gildandi kerfi. Þau atriði sem einkum hafa verið rædd tel ég vera þrjú:
    Í fyrsta lagi að sextán vikna biðtíminn verði felldur niður. Í öðru lagi að aðrir en þeir sem eru í stéttarfélögum þeir geti notið atvinnuleysisbóta eða geti átt rétt á þeim. Í þriðja lagi að kerfið væri sjálft

allt of flókið.
    Það frv. sem hér er flutt gerir tillögur um breytingar á þessum atriðum og raunar mörgum fleiri því frv. felur í sér breytingar á þrennum lögum, þ.e. lögum um atvinnuleysistryggingar, lögum um vinnumálaskrifstofu félmrn., nr. 13/1979, og lögum um vinnumiðlun. Ég mun nú, virðulegur forseti, fara hér yfir frv. og helstu greinar þess.
    Í 1. gr. frv. felst sú breyting að það er breytt 4. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 96/1990, með því að slá því föstu að þeir sem hafa verið atvinnulausir í fjórar vikur og ekki eru í stéttarfélögum og ekki uppfylla vinnuskilyrði laganna að öðru leyti geti fengið atvinnuleysisbætur. Hér er með öðrum orðum ekki verið að lengja biðtíma þeirra sem hafa haft vinnu og eru í stéttarfélögum heldur er hér fyrst og fremst verið að fjalla um þá sem eru utan þess kerfis og fjögurra vikna biðtíminn nær til þeirra einna.
    Í 1. gr. frv. er einnig gert ráð fyrir því að þessi mál og hvernig bótaréttur þeirra sem hér um ræðir er metinn verði ákveðið af stjórn sjóðsins að fengnu samþykki félmrh. en í frv. er gert ráð fyrir því að málaflokkurinn atvinnuleysistryggingar flytjist til félmrn. og verði þar eins og vinnumiðlunin og vinnumálaskrifstofan.
    Í samræmi við það er svo 2. gr. frv. þar sem gert er ráð fyrir því að Atvinnuleysistryggingasjóður verði sjálfstæð stofnun, verði ekki inni í Tryggingastofnun ríkisins eins og nú er, og að sjóðsvarsla og meðferð á handbæru fé á hverjum tíma verði á vegum þessarar stofnuna en ekki í Tryggingastofnun ríkisins.
    Í 3. gr. er gert ráð fyrir því að sá kostnaður sem þetta frv. kann að hafa í för með sér verði greiddur sérstaklega umfram önnur tekjuákvæði laganna um atvinnuleysistryggingar. Það segir hér: ,,Auk framlags samkvæmt 1. mgr. greiðir ríkissjóður sérstakt framlag til þeirra atvinnuleysisbóta og réttinda sem kveðið er á um í þessum lögum.``
    Í 4. gr. er fjallað sérstaklega um þann þátt þessara breytinga sem snýr að þeim sem koma nýir inn í sjóðinn eða nýir inn í atvinnuleysisbæturnar eða eins og segir þar að menn verði að sanna með fullnægjandi hætti að mati stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs að viðkomandi uppfylli ákvæði 4. gr. og hafi verið atvinnulaus í fjórar vikur. Sjóðstjórninni er ætlað að setja reglur um það hvernig með þessi mál verður farið.
    Í 5. gr. er nýmæli sem gerir ráð fyrir því að þeir sem eru við nám eða í starfsþjálfum með sérstökum hætti geti fengið atvinnuleysisbætur á meðan þeir eru í þessari starfsþjálfun og í þessu námi í allt að sex mánuði en tíminn er nú sex vikur. Og þurfi menn áfram að vera í starfsþjálfun samkvæmt þessu lagaákvæði eða frumvarpsákvæði þá geti menn hugsanlega fengið stuðning úr sjóðnum lengur enda sé þar um lán að ræða og gildi um það sömu reglur og samkvæmt lögum um Lánasjóð ísl. námsmanna. Reglur um lánveitingar verði settar af stjórn sjóðsins á grundvelli fjárveitinga hverju sinni sem ákveðnar eru í fjárlögum í hvert skipti og þau bætast þá við framlög samkvæmt 15. gr.
    Í 6. gr. er tekið á ákvæðum sem lúta að veikindum þeirra atvinnulausu. Þannig er nú að maður sem veikist missir atvinnuleysisbætur. Hér er byggt á þeirri hugsun að ef umsækjandi veikist þá haldi hann bótarétti sínum rétt eins og menn halda vinnulaunum í veikindum með tilteknum hætti samkvæmt kjarasamningum.
    Í 7. gr. er hér bætt við orðunum ,,þar á meðal vinnutími`` í sambandi við það þegar viðkomandi neitar vinnu. Þá gerist það stundum að það á erfitt með að taka vinnu, t.d. einstæðar mæður, þegar um er að ræða vinnu á mjög afbrigðilegum vinnutíma. Segjum að þær hafi einungis kost á að stunda vinnu að degi til en fái tilboð um kvöld- eða næturvinnu. Ef þær neita þeirri vinnu þá missa þær bætur ef strangt er farið í túlkun gildandi laga og hér er vinnutímaákvæðið tekið inn þannig að það verði að taka tillit til þess líka.
    Í 8. gr. er sextán vikna biðtíminn felldur út.
    Í 9. gr. er gert ráð fyrir að bætur vegna barna verði hækkaðar frá því sem nú er en sá atvinnulausi fær vegna barns á framfæri 83 kr. vegna hvers barns, það eru 4% af þeim taxta sem miðað er við á hverjum tíma. Hér er gert ráð fyrir að það verði 12% og þá fengi hinn atvinnulausi bætur vegna hvers barns á framfæri sem er í kringum 250 kr. á dag.
    Í síðari málsl., b-lið, þessarar greinar eru settar sérstakar reglur um það á hve löngum tíma viðkomandi getur fengið fullar bætur þó svo hann hafi ekki verið í stéttarfélagi og ekki verið á vinnumarkaði. Það er með öðrum orðum gert ráð fyrir að viðkomandi bíði í fyrsta lagi í fjórar vikur og í öðru lagi þá fái menn ekki strax fullar bætur eftir fjórar vikur heldur eftir tiltekinn lengri tíma eins og nánar er greint frá í 9. gr. frv.
    Í 10. gr. þess er eitt mikilvægasta ákvæðið þar sem gert er ráð fyrir því að heimilt verði stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs að einfalda úthlutunarkerfið. Einn meginvandi þessara mála í dag er sá að úthlutunarkerfið er flókið. Menn þurfa í raun og veru að leita til þriggja aðila oft og tíðum áður en þeir fá bætur úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Hér er gert ráð fyrir að það verði heimilt að fela einum aðila, verkalýðsfélagi, samtökum verkalýðsfélaga, sveitarfélagi eða samtökum þeirra, alla framkvæmd málsins, þ.e. skráningu atvinnuleysis, úthlutun og útborgun.
    II. kafli frv. fjallar síðan um breytingu á lögum um vinnumiðlun en eins og kunnugt er eru vinnumiðlanir á vegum sveitarfélaganna. Hér er gert ráð fyrir því að sveitarfélögin reki í sameiningu Landsskrifstofu vinnumiðlana sem stuðli að samstarfi vinnumálaskrifstofa um allt land, hafi á reiðum höndum upplýsingar um atvinnutækifæri og atvinnutilboð, hafi frumkvæði að könnun á því hvaða atvinnutilboð kunna að vera væntanleg, fylgist með starfsemi vinnumálaskrifstofa og vinnumiðlana og hafi forustu um að fram fari reglulega rannsóknir á félagslegum og sálrænum afleiðingum atvinnuleysis fyrir einstaklinga, fjölskyldur og hópa.
    Jafnframt er gert ráð fyrir því í 12. gr. frv. að ráðgjafarnefnd vinnumiðlunar geti að eigin frumkvæði gert tillögu til aðila vinnumarkaðarins, t.d. í tengslum við kjarasamninga, með það að markmiði að fjölga atvinnutækifærum.
    Í 13. gr. er gert ráð fyrir því að til þess að reka einkaskrifstofu vinnumiðlunar eins og eru hér í gangi, það eru ýmsar ráðningarskrifstofur hér í gangi eins og menn þekkja, þurfi menn sérstakt leyfi frá félmrn.
    Í III. kafla er gert ráð fyrir breytingum á lögunum um stjórn efnahagsmála o.fl., þ.e. kaflanum sem lýtur að vinnumálaskrifstofu félmrn. Þar er lögð sú skylda á skrifstofuna að hún kveðji saman fulltrúa Atvinnuleysistryggingasjóðs og fulltrúa vinnumiðlana þannig að þessir aðilar geti í sameiningu fjallað um og samræmt störf sín. Þá er gert ráð fyrir því í 16. gr. frv. að sú skylda verði lögð á öll ríkisfyrirtæki og sveitarfélagafyrirtæki að ný atvinnutækifæri á þeirra vegum fari í gegnum vinnumiðlanirnar og að það verði reynt eins og kostur er að fá aðra atvinnurekendur til að gera slíkt hið sama.
    Hér hef ég, virðulegi forseti, farið yfir aðalatriði frv. en þau eru einnig rækilega rakin á bls. 5--7 í þskj. sjálfu. Með frv. eru birt ýmis fskj., m.a. um tillögur í efnahagsmálum og atvinnumálum frá Alþb. Það er birt samantekt um málefni atvinnulausra sem unnin var af þremur ungum einstaklingum sem eru atvinnulausir og þekkja þessi mál mjög vel. Það er birt yfirlit yfir þróun atvinnu og atvinnuleysis hér á undanförnum áratug og áratugum. Það eru birtar tillögur Norræna verkalýðssambandsins um atvinnumál og það eru einnig birtir nokkrir punktar um atvinnuleysisskráningu og vinnumiðlun frá Kópavogskaupstað, atvinnumáladeild, þar sem allvel er að þessum málum staðið. Ég kynnti mér það rækilega með viðtölum við ráðningarstofur og vinnumiðlanir í þremur kaupstöðum að þar er staðið að málum með afar mismunandi hætti.
    Virðulegur forseti. Út af fyrir sig mætti margt frekar um þetta mál segja. Ég tel að hér sé fyrst og fremst um að ræða almennt mannréttindamál og á þeirri forsendu er það flutt af þingflokki Alþb. Ég vænti þess að hv. nefnd sem fær nálið til meðferðar taki þeim tillögum sem hér liggja fyrir vel með hliðsjón af því sérstaklega að hér er um almennt mannréttindamál að ræða.
    Ég legg svo til, virðulegi forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.