Réttindi þeirra sem ekki hafa atvinnu

150. fundur
Fimmtudaginn 01. apríl 1993, kl. 20:16:58 (6771)

     Flm. (Svavar Gestsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Til að fyrirbyggja allan misskilning, þá erum við alþýðubandalagsmenn að sjálfsögðu reiðubúnir til þess að fallast á ýmsar þær breytingar og ábendingar sem hæstv. heilbrrh. var með við okkar frv. og erum tilbúnir til að stuðla að því að það verði afgreitt hið snarasta á þingi að teknu tilliti til þeirra breytinga m.a. sem hæstv. ráðherra benti á að æskilegt væri að gera á frv. Ég geri ekki ráð fyrir að um það sé mikill ágreiningur vegna þess að þó kunna að vera þarna viss tæknileg atriði sem hæstv. ráðherra benti á eins og varðandi fjórar vikurnar sem ég hygg að séu lítt framkvæmanlegar eins og hann ræddi um þær. Ég sé því ekki betur en við höfum í þessari umræðu fundið bæði deigið og rúsínurnar og aðferðin við að leysa málið er síðan að baka það eins og kunnugt er og þá verður niðurstaðan vonandi góð þegar allir leggja gjörva hönd á þann plóg.