Sementsverksmiðja ríkisins

151. fundur
Föstudaginn 02. apríl 1993, kl. 10:39:53 (6773)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Við fulltrúar stjórnarandstöðunnar í iðnn. leggjum til að þessu máli verði vísað frá þar sem við teljum það vanbúið til afgreiðslu í þessari virðulegu stofnun.
    Ég legg þar sjálfur sérstaklega áherslu á þann þátt sem snýr að starfsmönnunum og því ákvæði sem mótmælt hefur verið hvað ákafast af Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, m.a. með skírskotun til þess að í 4. gr. frv. felist brot á 67. gr. stjórnarskrárinnar og verði frv. samþykkt í þeim búningi sem það liggur nú fyrir þá verði óðara efnt til málaferla af hálfu opinberra starfsmanna vegna þess að um lögleysu sé að ræða.
    Af þeim ástæðum teljum við rétt að leggja til að frv. verði vísað til ríkisstjórnarinnar. Verði þeirri beiðni okkar hafnað mun ég greiða atkvæði gegn 1. gr. frv. og að öðru leyti taka málið sérstaklega til meðferðar milli 2. og 3. umr. þar sem hv. formaður iðnn. hefur lýst því yfir að hann muni beita sér fyrir því að haldinn verði sérstakur fundur í iðnn. til að ræða þann þátt málsins sem felst í 4. gr. þess.