Vátryggingarstarfsemi

151. fundur
Föstudaginn 02. apríl 1993, kl. 11:56:14 (6778)

     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Eins og fram kom í ræðu hæstv. heilbr.- og trmrh. og máli hv. 9. þm. Reykv., þá er hér um gríðarlega yfirgripsmikið og flókið mál að ræða og því eðlileg krafa í sjálfu sér að málið sé tekið til mjög rækilegrar umfjöllunar í heilbr.- og trn. Aðdragandi málsins er langur. Fyrrv. heilbrrh., Guðmundur Bjarnason, skipaði nefnd til þess að endurskoða þess lög. Nú liggur sú niðurstaða fyrir. Hún gerir ráð fyrir algerum grundvallarbreytingum á vátryggingarstarfseminni í landinu eða a.m.k. tekið til svo margra þátta að um grundvallarbreytingu á þessari starfsemi er að ræða. Margt af því sem fram kemur í þessu frv. tel ég til mikilla bóta og væri fengur í að yrði lögfest sem allra fyrst. Hins vegar er ýmislegt annað sem ber að skoða alveg sérstaklega og ígrunda mjög vel áður en menn ákveða að festa það lög.
    Það er einkum þrennt sem ég held að hafa verði í huga þegar menn velta því fyrir sér hvað átt er við þegar um vátryggingarstarfsemi er að ræða. Í fyrsta lagi það hversu víðtæk sú vernd er sem gert er ráð fyrir að vátryggingarfélag taki að sér í raun og veru. 1. gr. þessa frv. gerir ráð fyrir því að lögin gildi um vátryggingarstarfsemi í víðasta samhengi ef ég skil frv. rétt. Síðan er í 2. gr. frv. gert ráð fyrir því hvað vátryggingarverndin í raun og veru takmarki, þ.e. um hvað lögin gildi ekki. Það er um eftirlaunasjóði, lífeyrissjóði, sjúkrasjóði einstakra atvinnustétta starfshópa og fyrirtækja eða um Tryggingastofnun ríkisins. Þarna finnst mér að menn séu að nokkru leyti að rugla saman tveimur nokkuð óskyldum hlutum, annars vegar starfsemi Tryggingastofnunar ríkisins og hins vegar því hvort lögin geti hugsanlega gilt um starfsemi eftirlaunasjóða, lífeyrissjóða og sjúkrasjóða og geri þá nokkurn greinarmun á því hvað Tryggingastofnun ríkisins annars vegar gerir og svo hver er starfsemi þeirra stofnana sem þarna eru taldar upp eins og eftirlaunasjóðir, lífeyrissjóðir og sjúkrasjóðir, en geri mér þó alveg grein fyrir því að það skiptir náttúrlega höfuðmáli hvert yrði rekstrarform viðkomandi eftirlaunasjóða, lífeyrissjóða eða sjúkrasjóða. Ég geri mér grein fyrir því að það gæti ekki gilt í dag eða vátryggingarfélag gæti ekki rekið og getur ekki rekið lífeyristryggingar eða starfsemi lífeyrissjóða nema slíkur aðili væri alveg séraðili að lögum þannig að færi illa fyrir viðkomandi vátryggingarfélag, þá í raun og veru stæði sjóðmyndunin eftir sem áður til staðar til að tryggja verndina, en starfsemin gæti engu að síður verið í höndum vátryggingarfélagsins.
    Í öðru lagi finnst mér rétt að menn hafi það í huga þegar talað er um vátryggingarstarfsemi hvernig þau fyrirtæki sem starfandi eru á sviði vátrygginga séu í raun og veru í stakk búin til þess að standa undir þeirri vernd sem þau í tryggingaskilmálum sínum taka að sér. Og þá kem ég að því sem mér finnst vera mikilvægt í þessu frv. og sé á margan hátt mjög til bóta að það er verið að tryggja réttarstöðu einstaklingsins gagnvart þeim fyrirtækjum sem taka að sér þessa starfsemi og kem kannski inn á það aðeins síðar.
    Í þriðja lagi þurfa menn auðvitað að velta því fyrir sér hver er réttarstaða einstaklingsins gagnvart vátryggingarfélagi og gagnvart því félagi sem það hefur falið sína vátryggingu. Við þekkjum mjög mörg dæmi, mjög margar sögur um það að einstaklingur sem lendir eða verður fyrir tjóni þarf að sækja

sér rétt gagnvart vátryggingarfélaginu er í engri stöðu til þess að sækja sinn rétt eða a.m.k. í mjög mörgum tilfellum. Þó svo að skilmálarnir séu skýrir, þá er það svo að váryggingarfélagið getur undir mjög mörgum kringumstæðum boðist til þess að semja um hlutina eða, sé ágreiningur um málið, hversu viðtæk verndin sé, þá sé málinu vísað til dómstóla sem tekur mjög langan tíma og viðkomandi einstaklingur getur í fyrsta lagi kannski alls ekki staðið undir kostnaði við málflutninginn og í öðru lagi getur ekki skaða síns vegna sem hann hefur orðið fyrir beðið eftir því að niðurstaða af dómsmálinu liggi fyrir þannig að hann hafi ekki getað fullkomlega sótt sinn rétt. Því spyr ég hæstv. heilbr.- og trmrh. hvað það sé í þessu frv. sem tryggir réttarstöðu einstaklingsins betur til að sækja sinn rétt gagnvart vátryggingarfélagi. Ég geri mér grein fyrir að það eru gerðar auknar kröfur til starfsemi félaganna hvað gjaldþol og greiðsluþol snertir. En það er snýr að vátryggingarverndinni sem slíkri, þ.e. að réttarstaða einstaklings sé bætt til að sækja sinn rétt, ég kem ekki auga á það í frv. nema ef vera kynni að það væri sú neytendamáladeild sem gert er ráð fyrir að starfi við Tryggingaeftirlitið, hún eigi að aðstoða í þessum efnum. Það kann vel að vera en við verðum að hafa það í huga og ég held að það sé rétt munað hjá mér að það hefur verið starfandi í mjög langan tíma á vegum Tryggingaeftirlits ríkisins sérstök neytendamáladeild sem hefur liðsinnt einstaklingunum í þessum efnum en það er enginn úrskurðaraðili til í þessum efnu. Það er einstaklingsins að sækja sinn rétt gagnvart tryggingafélaginu og eins og ég segi, hann er oft og tíðum í mjög erfiðari aðstöðu til þess arna.
    Það er margt athyglisvert í séráliti Erlendar Lárussonar um skipun vátryggingareftirlitsins. Ég ætla ekki að fara sérstaklega ofan í það mál hér. Hv. 9. þm. Reykv. gerði glögga grein fyrir því. Ég held að það sé full ástæða til að taka fullt tillit til margs sem þar er lagt fram. Það sem mér þykir þó vera mjög mikilvægt í þessum efnum er það að um leið og verið er að opna fyrir aukna starfsemi vátryggingarfélaga, t.d. með því að taka í auknum mæli þátt í atvinnulífinu sem mér finnst að mörgu leyti vera mjög gott, það er mikilvægt að geta fengið tryggingafélögin sem oft og tíðum eru ágætlega stæð til þess að taka þátt í og efla atvinnulífið í landinu, þá er auðvitað mjög mikilvægt að Tryggingaeftirlitið sem slíkt geti haft þau tæki og þann aðgang að upplýsingum, ekki bara móðurfélagsins, vátryggingarfélagsins sem slíks, heldur allra þeirra fyrirtækja. Eins og ég skildi hæstv. ráðherra hér áðan, þá er verið að opna með frv. --- ég les það a.m.k. sjálfur út úr því --- fyrir þann möguleika að vátryggingarfélagið sem slíkt geti í raun og veru haft aðgang að öllum þessum fyrirtækjum til þess að leita upplýsinga hver staða þeirra sé vegna þess að það eru engin takmörk a.m.k. í frv. sem gera ráð fyrir því, eða ég kom a.m.k. ekki auga á það, að viðkomandi vátryggingarfélag reyni ekki að eignast meira en ákveðinn hluta í viðkomandi félagi sem hugsanlega gæti farið í gjaldþrot og um leið gæti það orðið til þess að þeir sjóðir sem viðkomandi vátryggingarfélag telur sig eiga í viðkomandi fyrirtæki séu ekki þessi virði sem þeir eru taldir í reikningum vátryggingarfélagsins vegna þess að fyrirtækin séu gjaldþrota. Þetta finnst mér vera mikilvægt atriði að þarna sé leið opnuð fyrir Tryggingaeftirlitið að hafa eftirlitið með fyrirtækjunum sem vátryggingarfélögin eiga líka í. Kröfur um gjaldþol og greiðsluþol, ég skildi hæstv. ráðherra með þeim hætti hér í sinni framsögu að það yrðu gerðar auknar kröfur í þeim efnum. Það kom ég ekki auga á að væru neinar sérstakar kvaðir settar í frv. sérstaklega, þ.e. hvar þetta skyldi vera.
    Varðandi það sem ég minntist á um 2. gr. frv., um lög er þetta frv. nær ekki til, t.d. um starfsemi eftirlaunasjóða, þá spyr ég hæstv. ráðherra. Vátryggingarfélag gæti ekki rétt átt hlut í eftirlaunasjóður launafólks, sem rekinn væri sem sjálfstætt hlutafélag, sjálfstæður lögaðili, eða tekið að sér þá vátryggingu sem viðkomandi eftirlaunasjóður ætti að kaupa gagnvart sínum umbjóðendum. Ég trúi ekki öðru en það sé með þeim hætti. Líftryggingafélögin sem eru alveg sérrekstrareiningar oft og tíðum við hlið vátryggingarfélags geta rekið eftirlaunasjóði, þau geta rekið lífeyristryggingar og þar fram eftir götunum.
    Ég minntist á það í upphafi að það væri mikilvægt að gera sér grein fyrir því hversu víðtæk sú vernd væri sem menn ætluðust til að vátryggingarfélögin tækju að sér. Mér sýnist með þessu frv. að ekki sé á neinn hátt verið að auka eða víkka út vátryggingarverndina sem slíka og því spyr ég hæstv. ráðherra hvort hann telur að það væri í samræmi við þetta frv. ef vátryggingarfélag t.d. færi að bjóða vátryggingu á gjaldþroti einstaklinga eða greiðslufalli einstaklinga sem vegna atvinnumissis, það yrði örugglega mjög hátt iðgjald og ekki nú síst hér á landi sem atvinnuástand er mjög ótryggt, þá yrði iðgjald slíkrar tryggingar að vera gríðarlega hátt en gæti vátryggingarfélag samkvæmt þessu frv. boðið slíka vernd, þ.e. vernd gagnvart gjaldþroti einstaklinga eða greiðslufalli á lánum einstaklingsins gagnvart bönkum, gagnvart Húsnæðisstofnun ríkisins og þar fram eftir götunum? Þá á ég við það að ef viðkomandi aðili mundi missa atvinnuna, mundi missa heilsu, verða fyrir slysi, verða varanlegur öryrki. Samrýmist það þessu frv. verði það að lögum að vátryggingarfélag geti boðið slíka vernd?
    Ég minntist á það og tel það vera mikilvægt og vera kost þessa frv. að það er gert ráð fyrir því að vátryggingarfélögin geti tekið að sér umfangsmeiri starfsemi og þátt í umfangsmeiri starfsemi heldur en þau hafa gert hingað til, orðið virkari þátttakendur í atvinnulífinu. Það er kostur. Við þurfum að fá fleiri aðila þar að til þess að styrkja eiginfjárstöðu atvinnulífsins en áhættan er auðvitað nokkuð mikil og þá kem ég að því sem ég taldi kannski langstærsta kost frv. í þessu samhengi en það er að Tryggingaeftirlitið hafi þá betri aðgang.
    Málið er flókið. Það þarf víðtækar skoðanir nefnd án þess að það séu nokkrar hugsanir uppi í þeim efnum að tefja fyrir málinu. Eins og ég segi, það er margt í þessu frv. sem er mikilvægt og margt af því

væri nauðsynlegt að fá nú þegar inn í lög. Aðrir hlutir orka tvímælis og ber sérstaklega að skoða.