Vátryggingarstarfsemi

151. fundur
Föstudaginn 02. apríl 1993, kl. 12:23:02 (6780)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. heilbrrh. fyrir svörin. Mér fannst þau skýr og mikilvægt sem hann sagði að hann væri ekki að gera tillögur um að þetta mál yrði lagt fyrir til þess að verða afgreitt á þessu þingi heldur væri málið fyrst og fremst lagt þannig fram að hv. heilbr.- og trn. gæti byrjað skoðun á því með hliðsjón af því að jafnvel tækist að ljúka því fyrir næstu áramót. Ég verð að segja að mér finnst skynsamlegt að standa þannig að málum ef samkomulag getur tekist um þá vinnu í nefndinni sem óhjákvæmileg er í þessu viðamikla frv.
    Ég tel að einnig hafi komið fram mikilvægar upplýsingar í máli hæstv. heilbr.- og trmrh. að því er varðar áhrifin á tryggingamarkaðinn hér. Auðvitað er ljóst eins og hæstv. ráðherra nefndi að nokkur tryggingafélög eða ábyrgðarfélög munu ekki standast þær kröfur sem verið er að gera. Það á við bátaábyrgðarfélögin og það á við einhver líftryggingafélög. Ég tel líka mjög mikilvægt að frv. er einmitt lagt fram með hliðsjón af því að ég geri ráð fyrir að vilji Alþingis standi til þess að öll þessi félög öll séu þannig að þau séu örugg fyrir viðskiptamenn sína og þess vegna hljóti forráðamenn þeirra nú á næstu mánuðum að búa sig undir að nýtt frv. um þetta efni verði að lögum þannig að þessi líftryggingafélög og bátatryggingarfélög lagi sig að þeim veruleika sem er bersýnilega fram undan að því er varðar löggjöf og hefði örugglega orðið veruleikinn hvort sem Ísland hefði orðið aðili að hinu Evrópska efnahagsfélagi eða ekki. Það er auðvitað mikilvægt almennt hagsmunamál þjóðarinnar að tryggingastarfsemi sé örugg, tryggingafélögin séu örugg og að ekki sé verið að selja þar tryggingar sem tryggingafélögin standa ekki undir.
    Samkvæmt upplýsingum hæstv. ráðherra gerir hann ekki ráð fyrir því að tryggingaeftirlitsgjaldið hækki. Þvert á móti segir hann að sú hækkun sem hugsanlega þyrfti vegna aukinnar starfsemi eftirlitsins muni ekki koma fram gagnvart neytendum fyrst og fremst vegna þess að ekki verði gert ráð fyrir að Tryggingaeftirlitið greiði peninga í ríkissjóð. En eins og þetta er núna í fjárlagafrv., ég geri ráð fyrir að það sé eins í fjárlögum, tekur eftirlitsgjaldið inn um 26--27 millj. kr. og af því fara 5 millj. í ríkissjóð. Það er auðvitað greinilegt að miðað við þessi ákvæði frv. ætti tæplega að koma til þess að aukin starfsemi Tryggingaeftirlitsins, sem er örugglega alveg óhjákvæmileg í framhaldi af samþykkt þessa frv., ætti ekki að þýða hækkun iðgjalda ein út af fyrir sig. Hins vegar eru auðvitað vissar kröfur varðandi önnur fjármál tryggingafélaganna sem gætu leitt til þess í einstökum tryggingaflokkum að félögin teldu óhjákvæmilegt að hækka hjá sér iðgjöldin. Út af fyrir sig er erfitt að spá um það á þessu stigi málsins en það er auðvitað eitt af því sem hv. heilbr.- og trn. þyrfti að skoða hvort einhver af þessum þáttum verður til þess að hækka gjöldin.
    Ég tel að það sé mjög mikilvægt sem hafði farið fram hjá mér í framsöguræðu heilbr.- og trmrh. að hann tekur að mörgu leyti undir þau sjónarmið sem fram koma hjá Erlendi Lárussyni. Ég segi fyrir mig að ég er þeirrar skoðunar að skynsamlegt sé að eftirlit með þessum aðilum öllum sé á einum og sama staðnum. Það er auðvitað alveg rétt sem hæstv. ráðherra segir að forustumenn lífeyrissjóðanna hafa kannski ekki haft mjög mikinn áhuga á því að fá yfir sig einhverja eftirlitsstofnun. En ég held að það sé nú bara eitt af því sem þeir verða að sætta sig við. Slík stofnun þarf að vera til. Ég tel að það sé ekki gagnrýnivert að stjórnvöld hafa tekið tillit til þessara sjónarmiða lífeyrissjóðanna á undanförnum árum rétt eins og menn hafa t.d. gert í sambandi við Atvinnuleysistryggingasjóð, menn hafa tekið tillit til þessara sjónarmiða og þess vegna frestað því að framkvæma óhjákvæmilegar breytingar. Ég tel hins vegar að það sé stór spurning með hiðsjón af því að ekki er gert ráð fyrir að þetta frv. verði að lögum á þessu þingi hvort ekki þyrfti að fara í gang undirbúningur á vegum ríkisstjórnarinnar að frv. til laga um heildareftirlitsstofnun með fjármálastarfsemi bæði vátryggingum, lífeyrissjóðum og bönkum. Þetta segi ég m.a. vegna þess, virðulegi forseti, að auðvitað hlýtur staða bankaeftirlitsins að vera til sérstakrar skoðunar í þinginu, m.a. með hliðsjón af því að fyrir þinginu liggur frv. til nýrra seðlabankalaga. Þess vegna er auðvitað eðlilegt í framhaldi af því að ríkisstjórnin flytur frv. bæði um Seðlabanka og um vátryggingarstarfsemi að kannað væri hvort hefja ætti starf á vegum viðkomandi aðila lífeyrissjóðanna, tryggingafélaganna og bankanna að undirbúningi frv. um eftirlitsstofnun með allri fjármálastarfsemi í landinu sem hafi heildaryfirlit yfir það og þá óháða stofnun.
    Eins og kunnugt er hafa oft verið flutt á Alþingi frv. um sjálfstætt bankaeftirlit og mér sýnist að þau rök sem eru augljós, að draga vátryggingarstarfsemina og lífeyrissjóðina inn undir það eftirlit, bendi til þess að menn hljóti líka að fallast á það sem hafa t.d. verið sjónarmið okkar alþýðubandalagsmanna, mér liggur við að segja um áratuga skeið, að bankaeftirlitið á að vera sjálfstæð stofnun og ekki inni í Seðlabankanum eins og það er núna. Það kom kannski betur í ljós í Landsbankamálinu fyrir nokkrum dögum en nokkru sinni fyrr hvað það er brýnt að eiga sjálfstætt bankaeftirlit sem enginn segir fyrir verkum annar en bankaeftirlitið sjálft og fagleg sjónarmið þess.
     Þetta með sjúkrasjóðina þekki ég ekki. Það er auðvitað mál sem er nokkuð vandmeðfarið hvernig á að meðhöndla. Þetta eru sjálfstæðir sjóðir. Það er til fullt af svona sjóðum inni í verkalýðsfélögunum í landinu og öðrum félögum líka, óhemja af alls konar sjóðum, jafnvel sjúkrasjóðum, styrktarsjóðum, sem eru til inni hjá almennum áhugamönnum, klúbbum af ýmsu tagi. Auðvitað er stórkostleg spurning hvort Alþingi á ekki og hefði ekki og ætti ekki fyrir löngu átt að vera búið að setja almennar reglur um starfsemi slíkra sjóða. Þá er ég ekki bara að tala um sjúkrasjóðina hjá verkalýðsfélögunum heldur fjölda annarra sjóða því að það er mjög skrýtið hvernig þessir sjóðir hafa sprottið upp fyrir góðan vilja, áhuga og af almennum mannúðarsjónarmiðum viðkomandi aðila. Síðan hafa þessir sjóðir dagað uppi, týnst og horfið með einhverjum hætti og þeir sem eiga í þeim peninga hafa ekki einu sinni fengið upplýsingar um það hvað er af peningum í sjóðnum.
    Ég endurtek þakkir mínar til hæstv. ráðherra fyrir þau svör sem hann gaf.