Útboð opinberra aðila

151. fundur
Föstudaginn 02. apríl 1993, kl. 13:08:19 (6783)

     Iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Hæstv. forseti. Mér finnst það til íhugunar hvort ekki væri heppilegra að ræða mál af því tagi sem hér er hreyft með þeim hætti að það sé tekið upp í fyrirspurnatíma eða að fram kæmi þáltill. um það hvaða skipan menn vilja hafa á þeim málum sem hér eru rædd. Að mínu áliti ættu utandagskrárumræður fyrst og fremst að snúast um mál sem koma skyndilega upp og krefjast skyndilegrar umræður. Fsp. í hnitmiðuðu formi í síðustu viku hefði t.d. án efa verið tekin fyrir í fyrirspurnatímanum í gær. Þáltill. gæfi svo betra svigrúm til umræðu.
    En svo að ég snúi mér að efni málsins, þá er það svo að aðstöðumunur milli fyrirtækja er á ýmsa vegu milli ríkja. Það er rétt hjá málshefjanda að íslensk fyrirtæki hafa um sumt haft lakari samkeppnisaðstöðu en helstu keppinautar þeirra en einmitt nú í tengslum við fyrirhugaða þátttöku okkar í hinu Evrópska efnahagssvæði erum við að bæta samkeppnisstöðu okkar fyrirtækja með afnámi aðstöðugjalds, með lækkun tekjuskatts og með niðurfellingu vörugjalds af nokkrum mikilvægum vörum. Ég nefni þetta sem dæmi um breytingar sem huga þarf að. Þá erum við með styrktaraðgerðir við vöruþróunar- og markaðsstarf á vegum Iðnlána- og Iðnþróunarsjóðs, Iðntæknistofnunar, Útflutningsráðs og fleiri aðila. Auðvitað þyrfti og mætti gera betur í þessum efnum en það er reynt að nýta það fé sem til ráðstöfunar er þannig að það skili sem bestum árangri.
    Nú er unnið að því að sameina Iðnlána- og Iðnþróunarsjóð í því skyni að efla þá enn frekar til stuðnings við vöruþróun og markaðsstarf á erlendum vettvangi. Ég bendi á að á fjárlögum þessa árs er sérstök fjárveiting að fjárhæð 50 millj. kr. til markaðsátaks á Evrópusvæðinu.
    Varðandi útboð á vöru og þjónustu er frá því að segja að það eru ekki í gildi neinar reglur sem skylda kaupendur að kaupa íslenskt. Hins vegar hafa menn reynt að ná árangri í þessum efnum með því

að vekja athygli á kostum þess að kaupa íslenskar vörur. Það er talið bæði af hálfu iðnrekenda og Landssambands iðnaðarmanna að slíkar aðgerðir hafi skilað umtalsverðum árangri. Það meginsjónarmið á að ríkja hjá opinberum innkaupaaðilum að þeir velji frekar íslenska vöru að öðru jöfnu. Ég hef líka gert um það formleg tilmæli til allra ráðuneyta að þau kaupi fyrst og fremst íslenskar vörur þegar jafnræði er með því sem boðið er.
    Það er rétt hjá málshefjanda að stundum virðast menn hafa sótt vatnið yfir lækinn og valið vöru frá fjarlægum löndum þótt sambærileg vara hafi verið hér til, framleidd af íslenskum fyrirtækjum á svipuðu verði. Við í iðnrn. höfum haft afskipti af slíkum málum og reyndar náð nokkrum árangri, þótt ég vilji hér ekki rekja dæmi þess. Fullyrðingar um að ófullnægjandi gæði erlendrar byggingarvöru sem hér er boðin get ég ekki staðfest. Ég vil aðeins geta þess að nú er verið að undirbúa aukið markaðseftirlit með slíkum varningi um leið og samræmt gæðavottunarkerfi tekur gildi með EES-samningunum.
    Ég get heldur ekki tekið undir fullyrðingar um að vara sé seld ódýrar hingað en í heimalandinu. En ég get þess að í okkar útflutningi er einnig algengt að mismunandi verð gildi á mismunandi markaðssvæðum.
    Ég þekki ekki þau einstöku dæmi sem málshefjandi hefur gert hér að umtalsefni þar sem gerð sé krafa um sérstaka erlenda vöru í útboðum enda þótt samsvarandi hlutir séu framleiddir á Íslandi. Ég tel það vítavert ef þannig er að verki staðið og tel að viðkomandi stofnanir verði að gera grein fyrir ástæðum þessa. En ég tek það fram að mér hefur ekki gefist kostur á að kanna þessi dæmi nánar. Ég hygg þó að hér muni einkum um að kenna að viðkomandi ráðgjafar hafi ekki þekkt það almenna verklag sem á að gilda í útboðum vegna opinberra innkaupa. En ég vil taka það fram að um þessar mundir er einmitt verið að setja formlegar reglur á vegum Innkaupastofnunar ríkisins, sem að sjálfsögðu stafar í umboði fjmrh., til þess að útiloka dæmi af því tagi sem málshefjandi nefndi. Það er sannarlega þakkarvert að benda á framkvæmd sem er gagnrýni verð.
    Þá spurði málshefjandi hvaða aðgerðir væru fyrirhugaðar af hálfu iðnrn. til að jafna aðstöðumun íslenskra og erlendra fyrirtækja. Ég hef þegar svarað því að einmitt núna er verið að gera sérstakt átak til þess að bæta samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja gagnvart fyrirtækjum í öðrum ríkjum EES. Við munum halda því starfi áfram eftir því sem fjármunir fást til þess.
    Ég vil líka taka það fram, vegna þess sem hér er hreyft um útboðin, að nýlega flutti ég á þingi frv. til laga um framkvæmd útboða, m.a. í framhaldi af þáltill. sem m.a. hv. 4. þm. Norðurl. v. stóð fyrir í fyrravor. Útboðsmál sem oft hafa verið rædd á þinginu hafa nú fengið að mínu áliti heppilegan farveg. Þar verða settar skýrar reglur um margt sem tengist opinberum útboðum.
    Þá spurði málshefjandi um lánveitingar Iðnlánasjóðs. Ég vil í því sambandi, virðulegi forseti, leyfa mér að benda á að yfirlit um þær fylgir ársskýrslu sjóðsins. Hún verður send öllum þingmönnum á mánudag.