Útboð opinberra aðila

151. fundur
Föstudaginn 02. apríl 1993, kl. 13:13:41 (6784)


     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég þakka þeim sem hóf þessa umræðu vegna þess að hún kemur inn á það ástand sem er hér á landi og sem við ætlum raunar að ræða í dag um sjávarútvegsmál. Það er atvinnuástandið í landinu. Þegar, eins og málshefjandi upplýsti áðan, það gerist ítrekað að erlend vara er tekin fram yfir innlenda vöru sem er bæði sambærileg að gæðum og verði þá er það náttúrlega mjög alvarlegt mál. En ég vil einnig benda á að það virðist vera að þróunin sé einmitt í þá átt að erlenda varan, sem verið er að flytja inn, sé jafnvel ódýrari en það sem við getum fengið hér á landi. Það er svo sem hægt að nefna ýmis dæmi um það þó að það sé ekki eins og þau dæmi sem hann var að nefna. Nýjustu fréttir sem ég hef heyrt t.d. um kók er það að það sé farið að flytja það inn blandað og það sé ekki lengur blandað hér á landi. Nú heyrði ég þetta aðeins í gær þannig að ég hef ekki náð að kanna það en það er alvarlegt mál ef ekki er einu sinni hægt lengur að nota okkar íslenska vatn til framleiðslu vegna þess að þá er varan orðin dýrari hér á landi. E.t.v. veit hæstv. iðnrh. um þetta mál.
    Þetta kemur einnig inn á það að við erum sífellt að auka frelsi fólks til þess að velja. Það er enginn sem skyldar aðila til þess að taka frekar innlent þó að það sé sífellt verið að hvetja til þess. Frelsið er nefnilega orðið þannig og verður áfram þannig, það eykst með EES, að það má alveg eins búast við því að menn kaupi hluti erlendis frá ef þeim sýnist svo. Það er ekkert sem skyldar þá til þess að kaupa þá frekar á Íslandi, því miður. Skýrsla sem Landssamband iðnaðarmanna gaf út um iðnaðarhorfur sýnir að störfum í iðnaði hefur farið fækkandi á síðustu árum. Það er hér súlurit sem sýnir fækkunina frá árinu 1992 og áætlaða fækkun 1993 og menn geta séð hvað síðasta súlan sýnir: Fækkun um 2 / 3 í störfum.