Staða sjávarútvegsins

151. fundur
Föstudaginn 02. apríl 1993, kl. 13:30:55 (6791)

     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir að orðið er við þeirri beiðni að umræða er leyfð utan dagskrár um þetta mikilvæga mál. Ég sé að hæstv. sjútvrh. er genginn í salinn.
    Eins og öllum er kunnugt er íslenskur sjávarútvegur mikilvægasta útflutningsgrein okkar. Útflutningur sjávarafurða var um 70 milljarðar á sl. ári, ál og kísiljárn voru um 10 milljarðar og annar útflutningsiðnaður er tæpir 8 milljarðar. Því ætti öllum að vera ljóst að íslenskur sjávarútvegur er mikilvægasti þátturinn í íslensku efnahagslífi og ekki getur gengið til lengdar að sú atvinnugrein sé rekin með tapi. Nú er sjávarútvegurinn rekinn með 8,3% tapi að mati Þjóðhagsstofnunar. Stundum mætti halda á umræðunni að það sé íslensku þjóðarbúi til hagsældar að sjávarútvegurinn sé rekinn með tapi. Oft mætti halda á umræðunni að það lagi stöðu íslensks þjóðfélags að þarna sé tap og menn neyðist til að hagræða eins og það er kallað og draga saman. Ég geri mér vel grein fyrir því að hér um mjög alvarlegt mál er að ræða og það er allt of margslungið til að draga þar einhvern einn til ábyrgðar. Margt hefur gerst, það hefur orðið aflasamdráttur, verðfall hefur orðið, skuldir eru miklar og svo mætti lengi telja. En aðalatriðið er hins vegar það þegar horft er fram á veg að atvinnugreinin er rekin með miklu tapi og ef svo heldur áfram þá mun hún smátt og smátt kyrkjast eða allstór hluti af henni og framleiðslan stöðvast og verðmætasköpunin þar með.
    Á tímum sem þessum er mikilvægt að ríkisstjórn landsins hafi forustu í málefnum mikilvægasta atvinnuvegar landsins. En því miður verður að segjast að á það hefur skort og menn gera sér ekki ljóst hvað hún ætlast fyrir. Það kemur m.a. fram í viðtali við formann samtaka atvinnurekenda í sjávarútvegi í einu dagblaðanna í dag að hann óttist að um 35--40 milljarðar kr. muni tapast í sjávarútveginum. Hann er

þeirrar skoðunar að efnahagslíf landsins muni ekki þola slíkt áfall. Ég er þessu sammála því að ef það gerðist þá stöðvaðist um einn þriðji hluti fyrirtækjanna og ég er þess fullviss að lánastofnanir og ýmsar þjónustustofnanir þyldu ekki slíkt áfall. Það yrði því mikil upplausn í íslensku samfélagi. Þetta er hin svokallaða gjaldþrotaleið sem þarna blasir við og það hlýtur að vera aðalspurningin til hæstv. ríkisstjórnar: Er hún enn þá þeirrar skoðunar að þessi leið skuli valin?
    Nú vil ég taka það fram að hæstv. sjútvrh. hefur lýst því yfir að hann telji þetta ekki vera leið í þeim vanda sem við stöndum nú frammi fyrir. En ekki verður séð að aðrir hæstv. ráðherrar séu sömu skoðunar. Því hlýt ég að spyrja hæstv. sjútvrh. um þessi ummæli og þær skoðanir, sem þarna koma fram og ég er sammála, og hvað ríkisstjórnin vilji gera til að koma í veg fyrir að þetta gerist.
    Mikill hringlandaháttur hefur verið í störfum ríkisstjórnarinnar í þessum málum á undanförnu ári. Það var mikilvæg ákvörðun sem ríkisstjórnin tók um samdrátt í afla sem ég gagnrýni ekki og ef eitthvað er þá er ljóst að þar voru of miklar veiðar leyfðar heldur en hitt eins og komið hefur fram hjá hæstv. sjútvrh. En því var þá lýst yfir að gripið yrði til aðgerða til að jafna það áfall þannig að þorskveiðiflotinn fengi sérstakar bætur. Á það var bent að það væri rétt að gera það með aflaheimildum svokallaðs Hagræðingarsjóðs og hæstv. forsrh. lofaði í ágúst sl. að það yrði gert með öðrum hætti. Þau orð hafa ekki staðið og hafa í reynd verið svikin. Það er mjög alvarlegt mál þegar stjórnvöld koma þannig fram að ekki er hikað við að standa ekki við orð sem hafa verið sett fram í alvarlegu máli. Ég held að það sé mat margra í sjávarútveginum að sjaldan hafi verið talað fyrir jafndaufum eyrum og þegar rætt er við hæstv. ríkisstjórn um þessi alvarlegu mál. Stærsta atriðið er að sjálfsögðu að stöðva hallareksturinn. Ég geri mér fulla grein fyrir því að stórt atriði í því máli er að breyta skuldum sjávarútvegsins til lengri tíma og sætta sig við það að hann geti ekki greitt af skuldum sínum á næstu árum, a.m.k. í einhverjum mæli. Þetta er vissulega vandasamt verk og það er ekki einhlítt hvernig það skuli gert. En það verður ekki gert nema í góðri samvinnu við lánastofnanir og ríkisstjórn og í samvinnu við atvinnugreinina og verkalýðshreyfinguna jafnframt. Menn þurfa að fá svör um það nú hvort fyrir því sé vilji að reyna slíka leið.
    Nú hefur hæstv. ríkisstjórn lagt fram drög að frv. til laga um þróunarsjóð sjávarútvegsins. Ég vil taka fram að það eru vissulega jákvæðir þættir í því máli eins og það hefur verið kynnt. Það er jákvætt að sjávarútvegurinn reyni sameiginlega að úrelda framleiðslutæki sín, skip og hús og til þess þarf ákveðið fjármagn. Ég hef litið svo á að ef sjávarútvegurinn greiddi í sameiginlegan sjóð, sem væri notaður til hagsbóta fyrir sjávarútveginn sjálfan, væri ekki um auðlindaskatt að ræða. Hins vegar ef verið væri að taka skatt af sjávarútveginum til að greiða almenn ríkisútgjöld eins og hafrannsóknir og annað sem greitt hefur verið af fjárlögum þá sé þar um auðlindaskatt að ræða. Þetta er afar óljóst í þeim frumvarpsdrögum sem hafa verið lögð fram því þar er sagt að gjaldið skuli vera að minnsta kosti 1.000 kr. fyrir hverja þorskígildislest og fyrir það opnað að hægt sé að hækka gjaldið að vild eftir því sem ákveðið er síðar. Þetta er allt of opið en mér finnst fyllilega koma til greina að taka fjármagn á þennan hátt ef það getur orðið til þess að hagræða í greininni og laga stöðu hennar. Ég spyr því hæstv. sjútvrh. hvort ætlunin sé með þessum sjóði að nýta hann m.a. í samvinnu við lánastofnanir til að hagræða í greininni og skuldbreyta í leiðinni. Ég spyr hann einnig um það hvaða samráð hafi verið haft um þetta mál við sjávarútveginn sjálfan og hvort eingöngu standi til að verja peningunum til úreldingar á fiskiskipum og fiskvinnslustöðvum.
    Mér er alveg ljóst að afkastagetan bæði í vinnslunni og flotanum er allt of mikil og ein helsta aðferðin til að bæta afkomuna er að nýta framleiðslutækin betur og úrelda það versta sem til er, verstu byggingarnar og óhagkvæmustu og óhagkvæmasta hluta flotans.
    Jafnframt er ljóst að margir kostnaðarþættir eru of háir. Lengi hefur verið mikil umræða um að vextir yrðu að lækka og þeir hafa vissulega lækkað lítillega en í reynd var nafnvaxtalækkunin nú síðast álíka mikil og hækkunin var í janúar og febrúar. Raunvaxtalækkun hefur verið lítil sem engin en ákveðin merki má sjá fram undan að það geti orðið um raunvaxtalækkun að ræða. Ég spyr því hæstv. sjútvrh. hvort ríkisstjórnin ætli sér að beita öllum ráðum til að keyra vextina niður. Þá er ekki nóg að lækka nafnvextina, það verður að lækka raunvextina. Forsvarsmenn sjávarútvegsins hafa bent á að það ætti að vera hægt að lækka raunvextina um 2% en til þess þarf samræmdar aðgerðir og aðgerðir stjórnvalda til að slíkt geti tekist. Það er að mínu mati jafnframt nauðsynlegt að reyna að lækka sem mest ýmsar álögur á sjávarútveginn eins og ýmis opinber gjöld sem eru á hann lögð og lengi hefur verið um það talað að það stæði til að lækka orkukostnað sjávarútvegsins en lítið sem ekkert gerst í þeim efnum. Það er að mínu mati mikilvægt að fá fram skoðanir hæstv. sjútvrh. í þessum efnum og hvers greinin megi vænta. En aðalatriðið hlýtur að vera það að menn séu tilbúnir til að setjast niður af hálfu ríkisstjórnar, lánastofnana og atvinnugreinarinnar í heild og ég vil lýsa því yfir fyrir hönd míns flokks, að við höfum fullan skilning á þeim erfiðleikum sem þarna eru og erum reiðubúnir að taka þátt í því eftir því sem við getum. En því miður hefur allt of mikið verið talað í þessum málum en lítið verið gert.
    Hagræðingarsjóðurinn var t.d. mikilvægt tæki til þess að hefja úreldingu með sameiginlegum hætti í sjávarútvegi. Núverandi ríkisstjórn kaus að eyðileggja það tæki í upphafi síns valdaferils. Nú vill ríkisstjórnin taka upp eitthvert slíkt tæki á nýjan leik en það er alveg ljóst að á þeim tíma sem er liðinn hefur mikill skaði verið unninn. Það hefur ríkt hin mesta óvissa um framtíð fiskveiðanna og málið verið sett í nefnd sem hefur verið að deila innbyrðis síðan hún tók til starfa. Þetta hefur skapað mikla óvissu sem verður að eyða og jafnvel þótt nefndin hafi skilað áliti geta menn ekki gengið út frá því að þar með sé

óvissunni eytt. Ég vil því spyrja hæstv. sjútvrh. um það hvort það sé hans mat að álitið eyði óvissu í þessum efnum og sé trygging fyrir því að meiri hluti sé fyrir því innan stjórnarflokkanna að styðja breytingu á lögum um stjórn fiskveiða í þeim anda sem þar kemur fram. Og ég hlýt jafnframt að spyrja hann um það hvað sé átt við með því í frv. til laga um þróunarsjóð sjávarútvegsins að það eigi að leggja a.m.k. 1.000 kr. á hvert þorskígildistonn í þennan sjóð. Er verið að opna fyrir það að hér sé verið að taka upp auðlindaskatt eða er eingöngu verið að tala um gjaldtöku sem verður nýtt til hagsbóta fyrir sjávarútveginn sjálfan?
    Virðulegur forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að nýta allan tíma minn í upphafi. Ég tel mikilvægast að fá skýr svör frá hæstv. ríkisstjórn, hvort hún ætli sér að stuðla að því að meginhluti sjávarútvegsins geti lifað af þá kreppu sem nú blasir við eða hvort ríkisstjórnin ætlar að láta þetta allt saman afskiptalaust og horfa á það þegjandi að jafnvel 1 / 3 hluti sjávarútvegsins verði gjaldþrota eins og formaður Samtaka atvinnurekenda í sjávarútvegi er að ræða um í einu dagblaðanna í dag. Ég geri mér grein fyrir því að það eru ekki neinar auðveldar lausnir til í þessu máli og ég ætlast ekki til þess að hæstv. sjútvrh. komi með þær allar í þessari umræðu. Til þess er málið allt of flókið. En aðalatriðið er að það sé fyrir því vilji og sá vilji sé ekki eingöngu hjá hæstv. sjútvrh. heldur ríkisstjórninni í heild.
    Auðvitað skipta önnur atriði miklu máli til frambúðar eins og rannsóknir, eins og markaðsmál og margt annað sem skiptir sjávarútveginn miklu máli. En í dag brenna skuldirnar fyrst og fremst á sjávarútveginum, skuldir sem menn vilja borga ef menn fá tækifæri til þess að hagræða í sínum rekstri og geyma að borga eitthvað af því þar til betur árar. Hér vantar forustu, forustu sem ríkisstjórn hlýtur að þurfa að gefa og veita í þessu máli. Ég vildi því spyrja hæstv. sjútvrh. hvað hann ætlast fyrir á næstunni í málinu.