Staða sjávarútvegsins

151. fundur
Föstudaginn 02. apríl 1993, kl. 14:35:56 (6795)


     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. 1. þm. Austurl. fyrir að óska eftir þessari umræðu. Það er auðvitað tímabært að ræða ástandið í sjávarútveginum, ekki síst núna eins og hefur hallað á ógæfuhlið til viðbótar að undanförnu. En auðvitað hefur þetta verið samfelld hörmungarsaga sem við höfum verið að fylgjast með og má rekja alveg aftur til ársins 1991 en síðan hefur stöðugt hallað á ógæfuhliðina fyrir þessum aðalatvinnuvegi þjóðarinnar. Það eru margir sem hafa beðið og hafa talið sig bíða allt of lengi eftir því að sú ríkisstjórn sem núna situr tæki myndarlega á þeim vandamálum sem sjávarútvegurinn hefur við að glíma og reyndar þjóðin öll í beinum tengslum við þessa aðalatvinnugrein hennar.
    Ástandið núna er auðvitað orðið verra heldur en það var þegar ríkisstjórnin tók við og ég get ekki séð að þær hugmyndir um lagfæringar sem hafa litið dagsins ljós muni valda neinum straumhvörfum í ástandi sjávarútvegsins. Það hefur komið fram að menn telja að skuldir sjávarútvegsins umfram getu til að greiða þær séu kannski 35--40 milljarðar. Ég hef ekki orðið var við að menn væru að ræða neinar hugmyndir í þá átt að taka á því vandamáli.
    Stjórnunarvandi sjávarútvegsins er enn þá óleystur. Ríkisstjórnin og þeir sem hún hefur falið að fjalla um þau mál hafa velkst með það í höndunum núna í tvö ár og lögin um stjórn fiskveiða þar sem kveðið er á um það að aðrir aðilar eigi þar að koma að eins og sjútvn. þingsins og fleiri hafa auðvitað verið þverbrotin. Þessari endurskoðun átti að vera lokið um áramótin og nú talar hæstv. sjútvrh. um það eins og hann hafi um það einhverja von að það sé hægt að láta þetta samráð við þessa aðila sem nefndir eru í lögunum fara fram á þremur vikum þannig að það sé hægt að renna einhverjum málum í gegnum þingið í tenglum við það. Mér finnst að það sé til ansi mikils ætlast af þeim aðilum sem eiga um þetta að fjalla ef þeir eiga að fá einungis þrjár vikur til þess að ræða málin og fara yfir þau eftir að ríkisstjórnin hefur velkst með þau í tvö ár og er loksins að skila af sér til þessara aðila einhverju til þess að skoða. Auðvitað getur maður ekki skilið þessi orð öðruvísi en þannig að ríkisstjórnin eða ríkisstjórnarflokkarnir ætli sér ekki að hafa neitt samráð, þ.e. þó svo að einhverjir fundir verði haldnir, þá sé það ekki meiningin að koma til móts við nein sjónarmið sem munu koma fram hjá þeim aðilum sem eiga þarna hlut að máli. Og það er sannarlega illa farið því að þau mál sem hér eru á ferðinni eru það stórkostleg og það mikil hagsmunamál byggðanna allt í kringum landið, sjávarútvegsins og fólksins, fiskvinnslufólksins, útgerðarmannanna og íbúanna í öllum þeim dreifðu byggðum allt í kringum landið, að svona skuli eiga að fara að, það er alveg forkastanlegt.
    Ástandið er sem sagt þannig að nú er útgerðin rekin með að meðaltali yfir 8% halla. Hún skuldar langt fram yfir þá möguleika sem hún hefur til að borga af sínum skuldum og getur auðvitað ekki borgað af neinum skuldum meðan hún er rekin af slíkum halla sem hér er um að ræða. Svo er stjórnkerfi fiskveiðanna að grafa undan byggðarlögunum allt í kringum landið og ég get ekki séð að hér séu menn með neinar hugmyndir sem koma í veg fyrir það. Allar þær hugmyndir sem hafa verið lagðar fram frá hendi þessarar svokölluðu tvíhöfða nefndar og hafa verið að líta dagsins ljós í dag stefna í þá átt að enn þá muni aukast hraðinn á því eyðileggingarstarfi sem fiskveiðistefnan hefur verið að vinna allt í kring í hinum dreifðu byggðum landsins. Og það síðasta sem hægt er að benda á er að koma enn þá betur í ljós, það er að eignarrétturinn á veiðiheimildunum veldur því með vaxandi hraða flytjast til störfin í landinu. Þau fyrirtæki sem eiga veiðiheimildirnar láta fiska fyrir sig einhvers staðar annars staðar á landinu þannig að fiskur sem gengur á miðin í Breiðafirði eða Faxaflóa er fluttur norður í land eða suður á land og ekki bara sá fiskur sem er þá fenginn út á veiðiheimildir viðkomandi fyrirtækis, heldur annað eins af veiðiheimildum á sama svæði þannig að allur afli frá sumum byggðarlögum fer nú til vinnslu annars staðar út á svona samninga. Það sem gerist í tengslum við þetta er að sjómennirnir og útgerðarmennirnir sem eiga hlut að máli og þurfa vegna neyðar sinnar af kvótaleysi að sætta sig við þessa samninga, eru þeir sem borga brúsann. Það eru þeir sem taka á sig það fiskverð sem þannig verður til því að þessi fyrirtæki sem hér um ræðir eru farin að vinna á mun lægri hráefnisverðum heldur en önnur fyrirtæki. Þannig munu þau í skjóli gróða af þessu fá tækifæri til þess að komast yfir meiri veiðiheimildir og auka þá starfsemi sem svona fer fram. Þetta er það sem menn eru að tala um að festa í sessi og það er reyndar undarlegt að sjómenn við Íslandsstrendur skuli ekki vera farnir að átta sig á því hvernig þetta muni fara með kjör þeirra þegar fram í sækir og er reyndar farið að hafa veruleg áhrif á kjör sjómanna nú þegar þar sem þessir samningar eru í gangi vegna þess að þessi fyrirtæki eru að kaupa fisk á mun lægra verði eins og ég sagði áðan. Og ég get tekið tölur frá því í sumar. Þá voru fyrirtæki að kaupa samkvæmt svona samningum fisk á 65 kr. á sama tíma og markaðsverð á fiski var 90--110 kr. Og auðvitað er aflahlutur sjómanna í samræmi við þetta og það sem útgerðin fær í sinn hlut vitanlega mjög rýrt og miklu rýrara en það fiskverð sem markaðirnir hafa boðið upp á á sama tíma gæfi tilefni til.
    En það er fleira sem hefur gerst og er að gerast. Það hefur gerst að ekki er nokkur möguleiki að stofna til nýrrar útgerðar. Er verið að taka á því í tillögunum sem hæstv. sjútvrh. var að kynna áðan? Ekki aldeilis. Það er hægt að benda á það og það eru nýlegar tölur sem menn geta séð og hafa heyrt í fjölmiðlum undanfarið að það eru tvö skip á Vestfjörðum til sölu í Bolungarvík. Það hefur komið fram að bæjarstjórnin þar hefur gengist fyrir því að stofna félag til þess að kaupa þessi skip. Hún er búin að bjóða 660 millj. í þessi skip. En hvaða verðmæti skyldu nú geta borist að landi vegna þess kvóta sem þessi skip hafa? Jú, það er talað um að þessi skip hafi 3.400 þorskígildistonn og aflaverðmæti ef þetta er lagt á land til vinnslu í fiskvinnslustöð muni vera sem svarar einhvers staðar á bilinu 260--280 millj. á ári. Og fyrirtæki í sjávarútvegi sem hefur slíka veltu getur staðið undir 440 millj. eða svo í fjárfestingu þannig að bæjarstjórnin í Bolungarvík er að bjóðast til að kaupa fyrirtæki og ætlar að leggja því til a.m.k. 200 millj. í tannfé sem hún mun aldrei fá borgað vegna þess að það eru einungis til peningar sem þarf til þess að koma fyrirtækinu á núllið. En ekki er víst að skiptaráðendur sem eru með þetta fyrirtæki í sínum höndum og þurfa að selja, gangi að þessu tilboði þó að það sé svona vegna þess að kvótinn er meira virði samkvæmt þeim markaði sem er á þessum veiðiheimildum heldur en sem svarar þeim upphæðum sem þarna eru á ferðinni. Og þær upphæðir sem voru kynntar í upphafi voru að skipin og kvótinn væru 820 millj. kr. virði miðað við markað og þá sjá menn hvers konar aðstæður þetta eru sem við erum hér að tala um og hversu fáránleikinn er orðinn mikill að það er gersamlega vonlaust á Íslandi þar sem menn lifa á fiskveiðum að stofna nýja útgerð á landinu vegna þess að verðið á aflaheimildum verður jaðarverð sem engin ný útgerð getur staðið undir. Þetta er verið að festa í sessi með þessum nýju tillögum ef þær ná fram að ganga.
    Tvíhöfða nefndin leggur til meira frjálsræði. Hún leggur það til að fiskvinnslan fái að eiga kvótann. Hún leggur til að hann verði ekki lengur tengdur skipunum. Hún leggur til að tvöföldunin á línunni verði tekin af og hún leggur til að trillurnar verði settar á kvóta. Hún leggur til að kvóti verður settur á allar tegundir nánast sem hægt er að hugsa sér. Í hvaða augnamiði? Jú, nákvæmlega í því augnamiði að eignarhaldið verði látið ganga yfir þetta allt saman og það sé aðalatriði málsins að viðskiptin geti blómstrað. En viðskiptin með þessar aflaheimildir hafa valdið því sem ég var hér að lýsa að það er ekki hægt að stofna nýja útgerð og það er farið að gefa möguleika þeirra útgerða sem hafa miklar aflaheimildir að pína niður fiskverð. Nú er ekki lengur eitthvað sem menn kalla landssambandsverð, en það er til eitthvað sem menn gætu kallað kvótaeigendaverð en það er það verð sem kvótaeigendur bjóða mönnum upp á til þess að fiska fyrir þá og flytja síðan aflann þvert og endilangt um landið. Þetta er kallað hagræðing, en auðvitað er ekki í þessu fólgin nein hagræðing. Það er einungis verið að sjúga blóðið úr öðrum útgerðarmönnum og hafa af sjómönnum þeirra hlut. Þannig mun þetta kerfi halda áfram að grafa um sig og ef eitt af því sem tvíhöfða nefndin lagði til, þ.e. að það ætti að fara að leyfa útlendingum að eiga óbeina eignaraðild að þessum fyrirtækjum í sjávarútvegi, nær líka fram að ganga, þá sjá menn það fyrir sér að það getur gengið býsna hratt fyrir sig að erlendir aðilar fari að eignast hluti í útgerð á Íslandi. Og það verður ekkert erfiðara fyrir þá að eignast þannig ítök í gegnum óbeina eignaraðild heldur en virðist vera opin leið fyrir íslensk fyrirtæki sem komast í þá aðstöðu sem ég var að lýsa hér áðan að ná til sín með vaxandi hraða meira og meira af aflaheimildunum út á þessa aðstöðu sem þau komast í.
    Ég verð að segja það að ég varð fyrir miklum vonbrigðum með þau svör sem hæstv. sjútvrh. kom með við þeim spurningum sem hv. 1. þm. Austurl. var að bera fram um það hvað ætti að fara að gera til þess að rétta af hlut sjávarútvegsins í landinu. Mér fannst þau ekki vera þannig að það yki mönnum bjartsýni um að hér yrði farið að taka myndarlega á málunum. En hann talaði þó málefnalega um að það þyrfti að vinna að allsherjarsamkomulagi í landinu um það hvernig verður tekið á þessum málum og ég fagna þeim orðum hans vegna þess að ríkisstjórnin hljóp frá þeim möguleika í haust. Þá voru allir aðilar á vinnumarkaðinum búnir að lýsa því yfir að þeir væru tilbúnir til þess að setjast við samningaborð með ríkisstjórninni og með atvinnurekendum og stjórnarandstaðan samþykkti líka að koma að því samningaborði og vinna að því að ná allsherjarsamkomulagi um það hvernig yrði tekið á öllum stærstu málum. En ríkisstjórnin kaus að hlaupa frá því og það var auðvitað ákaflega heimskulegt. En nú kemur hæstv. sjútvrh. og bíður upp á sömu úrlausn og talað var um í haust og auðvitað verða menn að þiggja það boð. Hins vegar kom það auðvitað ekkert fram hvort hann hefur umboð til þess að bjóða það eða hvort hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. hafa sömu skoðun og í haust að það eigi ekkert að standa í slíku og muni slíta þeim viðræðum þegar þeim hentar eins og þeir gerðu í haust. En ég vona það satt að segja að menn hafi vitkast og þessi mál verði öll sömul tekin til umræðu því að það þarf virkilega á því að halda í þessu þjóðfélagi

núna að menn vinni saman að lausn málanna. Þau eru stór og það eru ekki þau vandamál sem við er að glíma. Þau eru stór, því verður ekki á móti mælt og þess vegna tel ég að það sé full ástæða til þess að taka undir með hæstv. sjútvrh. að það þarf að tryggja víðtæka umræðu um lausnir málsins.