Staða sjávarútvegsins

151. fundur
Föstudaginn 02. apríl 1993, kl. 14:51:17 (6796)

     Stefán Guðmundsson :
    Virðulegi forseti. Ég held að við sem hér erum í salnum velflest getum nú ekki tekið undir það sem hæstv. sjútvrh. sagði að við værum á réttri leið. Ég held að það sé ómögulegt að við getum sæst á að við séum á réttri leið. Og ég trúi því ekki heldur að þetta sé sú leið sem sjálfstæðismenn og alþýðuflokksmenn settu upp þegar þeir sögðu við stjórnarmyndunina að þeir ætluðu að fara að feta sig eftir velferð á varanlegum grunni í þessu þjóðfélagi og það var þaðan sem ríkisstjórnin ætlaði að fara að byggja upp eitthvert velsældarþjóðfélag. Ógæfuspor þessarar ríkisstjórnar eru mikil og ekki síst á fyrstu dögum hennar.
    Árið 1990 og þar fyrr hafði undirstöðuatvinnugreinin sem hér er til umræðu mátt þola erfiðar aðstæður og var rekin við hin bágbornustu skilyrði svo ekki sé meira sagt. En upp úr því var það fyrrv. ríkisstjórn sem lagði í það þrotlaust starf að reyna að koma rekstrargrundvelli undir sjávarútveginn og sem betur fer tókst það og svo var komið að árið 1990 gat sjávarútvegurinn borgað af skuldum sínum. Sjávarútvegurinn var sem sé rekinn með hagnaði árið 1990 og svo var einnig árið 1991. Þá gat sjávarútvegurinn meira en borgað af lánum sínum. Hann borgaði einnig í sjóði sem áttu að geymast til erfiðari tíma og til frekari hagræðingar í greininni. Við munum hvað núv. ríkisstjórn kallaði þessa sjóði og sá sem fór fremstur í flokki var forsrh. sjálfur. Hann kallaði þessa sjóði aumingjasjóðina og fyrirgreiðslusjóðina og sukksjóði og þar sætu menn sem væru á kafi í fyrirgreiðslupólitíkinni. Hvar skyldu þessir sjóðir vera í dag? Þeir eru allir búnir. Núv. ríkisstjórn er búin að þurrausa alla þessa sjóði sem var búið að setja í fé og samt sem áður stöndum við frammi fyrir því í dag að sjávarútvegurinn á Íslandi er rekinn með 8--10% tapi.
    Ríkisstjórninni varð það á að hækka vexti á sínum fyrstu starfsdögum sem voru þessari atvinnugrein nánast alveg óbærilegir og því til viðbótar voru lagðir á ýmsir nýir skattar sem námu hundruðum milljóna króna. Ég væri ekki hissa á því í dag þó að vaxtagreiðslan ein sem sjávarútvegurinn á Íslandi þyrfti að greiða væri á bilinu 8--10 milljarðar kr., ég væri ekki hissa á því. Og það sjá það náttúrlega allir að við slíkt er ómögulegt að búa.
    Við vorum ekki fyrir löngu síðan að fjalla um ákveðið mál sem var gert að stóru máli, vandamál Landsbankans. Við vorum að færa til hans nokkra milljarða króna til þess að létta honum gönguna. Ég verð að segja það og mín afstaða í því máli var sú að hér væri aðeins verið að beita deyfilyfi við þennan banka, hvort sem það væri Landsbankinn eða einhver annar banki eða sjóðir. Allar slíkar aðgerðir eins og þar var gerð er ekkert annað en deyfilyf. Meðan undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar er rekin með svo miklu tapi, þá munu þessir sjóðir, hvort sem það eru bankar eða sjóðir, endalaust halda áfram að tapa. Og ef við ætlum ekki að koma rekstrargrundvelli í þessa grein, þá munum við enn þá þurfa að flytja hér tillögur um að borga milljarða til banka og sjóða. Þess vegna er það aðalverkefnið nr. eitt, tvö og þrjú að koma rekstrargrundvelli í sjávarútveginum þannig að hann geti haft hagnað, geti borgað mannsæmandi laun til fiskvinnslufólksins og sjómannanna. Það er höfuðmál. Það verður þess vegna að stöðva þennan hallarekstur og ef við gerum það ekki, þá þurfum við ekkert að spyrja hvernig fer fyrir okkur Íslendingum. Því vil ég segja það, hæstv. sjútvrh., sem ég verð nú að viðurkenna að mér finnst á margan hátt hafa reynt að duga í þessum málum, en ég veit að hann á við erfiða aðila að fást innan ríkisstjórnarinnar sem mér finnst að ekki hafi sama skilning á þessari grein eins og hann. En það er óásættanlegt og við erum ekki, hæstv. sjútvrh., á réttri leið meðan sjávarútvegurinn er rekinn með jafnmiklu tapi og nú er, 8--10% tapi. Það er óásættanlegt, algerlega óásættanlegt.
    Sú stefna ríkisstjórnarinnar er einnig óásættanleg sem upp hefur verð tekin að mönnum komi þessi mál nánast ekkert við og gjaldþrotin ein eigi að blíva og hagræðingin sem menn eru að tala um að ná í atvinnugreininni eigi að gerast í gegnum gjaldþrotin. Mér er spurn: Hvar eru allar þessar hagdeildir í dag? Hvar eru allar hagdeildir bankanna? Hvar eru allar hagdeildir sjóðanna? Hvernig má það vera að þessir aðilar sem eiga samkvæmt öllu eðlilegu að hafa aðgang að öllum reikningum þessara fyrirtækja, hvernig má það vera að það skuli koma svona flatt upp á þessa aðila í hvert skipti sem hriktir í og fyrirtæki fara á hausinn? Hvernig má það vera? Er ekki eitthvað að? Við hvað eru þessir menn að starfa? Mér er spurn.
    Auðvitað verðum við að reyna að ná saman, að ná upp einhverri heildstæðri stefnu í sjávarútveginum. Og ég vil nú trúa því að það sé meiri hluti fyrir því á Alþingi, ég veit ekki hvort hann er mikill, stundum dreg ég það í efa, að skilningur sé á því að koma viti í þessi mál.
    Menn eru að tala um það og það er það sem gengur í gegnum allt, söngurinn eilífi, hagræðing og hagræðing. Þið verðið að hagræða og þið verðið að hagræða hjá ykkur. Það er söngurinn. Ég fullyrði það að sjálfsagt hefur í fáum atvinnugreinum átt sér stað jafnmikil hagræðing og í sjávarútveginum. En menn verða að átta sig á því að þeir sem eru að reyna að verða við því að hagræða og sjá og skilja að það er nauðsynlegt og skynsamlegt að hagræða í greininni og skipuleggja upp á nýtt, þeir hljóta að gera þá sjálfsögðu kröfu að fá að vita hver eru þau starfsskilyrði sem greininni er ætlað að búa við. Þeir hljóta að spyrja um slíkt og þeir eiga rétt á að fá að vita það. Þeir verða að fá að vita það hver sá rammi er sem þeim er ætlað sjálfum að smíða inn í. En því miður hefur þetta skort. Menn vita ekki neitt hvað bíður sjávarútvegsins í dag. Og auðvitað er það ómöguleg stefna og það er reyndar engin stefna, alls engin stefna.
    Við þurfum einnig að gera það upp við okkur og þar verðum við að kalla á svör frá ríkisstjórninni, hvað ætlum við að verða? Hvað ætlum við Íslendingar að verða? Ætlum við að sætta okkur við það að verða aðeins veiðiþjóð í þessu landi? Erum við búnir að gera það upp við okkur? Ætlum við ekki fremur að reyna að verjast og verða vinnsluþjóð og selja sem mest af afurðum okkar sem næst fullunnum úr landi þannig að við sjálf, þjóðin sjálf geti notið margfeldisáhrifa vinnslunnar? Er það ekki það sem við ætlum að gera? Hefur ríkisstjórnin verið að labba þá braut? Hefur hún hvatt menn til þess?
    Hvað ætli Fiskveiðasjóður sé búinn að samþykkja marga nýsmíðasamninga á frystitogurum frá því að þessi ríkisstjórn kom til valda? Hvað ætli þeir séu margir? Það væri fróðlegt að fá svar við því. En ég tek undir það að auðvitað þurfum við að hagræða í greininni og það er okkur nauðsyn að auka arðsemina, en ég fullyrði það að þeir sem í greininni búa, sjá það og skilja að það þarf að gera það. En þeir gera þá kröfu til stjórnvalda að fá að vita hver starfsskilyrðin eiga að vera.
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að tala langt mál nú þó að auðvitað væri ástæða til þess vegna þess að mér skilst að tíminn sé mjög takmarkaður sem er til umræðunnar og fjöldi manna sé þegar á mælendaskrá. Ég ætla þess vegna ekki að taka of langan tíma. Ég skil það að menn vilja fá að tjá sig í máli eins og þessu og þess vegna skal ég stytta mál mitt og ef ég skil nú rétt og hlustaði á sjútvrh. rétt áðan segja, þá hyggst hann eða a.m.k. hefur vonir til þess að stjórnun fiskveiða komist á dagskrá þó ég leyfi mér nú að draga í efa hvernig það á að vera hægt vegna tímaleysis, en þá er það öruggt að við eigum eftir að eiga hér dag og nótt, kannski fleiri en eina og fleiri en tvær til þess að skiptast á skoðunum um það mál. En auðvitað er það grundvallarmálið í þessu öllu, það er fiskveiðistefnan. Það er eitt af því sem sjávarútvegurinn gerir kröfu til þess að fá að vita hver á að verða. En við verðum líka að átta okkur á því og því miður finnst mér það eftir að hafa hlýtt á menn í þessari tvíhöfða nefnd koma til okkar og skýra okkur frá því hvað þeir eru að gera og eftir að hafa aðeins gluggað í þau gögn sem við fengum í hádeginu, þá vil ég bara brýna það fyrir hæstv. sjútvrh. að hann geri sér grein fyrir því að fiskveiðistefnan er ekki bara stefna útgerðar og vinnslu. Hún er ekki síður stefna fiskvinnslufólksins og sjómannsins og um þessi mál, um fiskveiðistefnu í landinu, getur aldrei orðið sátt nema þessir aðilar fái að vera þar með. En ég segi það enn og aftur að eftir að hafa gluggað í þessi mál og hlustað á suma af talsmönnum þessarar stefnu, þá finnst mér skorta þar mikið á.
    Ég hlýt að segja það hér og nú, úr því að ég er farinn að tala um stefnuna, að auðvitað er það hreint með ólíkindum hvernig að þessu máli hefur verið unnið um mótun fiskveiðistefnu. Þar hefur ekkert samráð verið haft við hvorki hagsmunaaðila né sjútvn. eins og ákveðið var að skyldi gert. Hins vegar nú, ég veit ekki hvað margir vinnudagar eru eftir til þingloka en þeir eru svo sannarlega ekki margir samkvæmt starfsáætlun þingsins, ef ég veit rétt, þá er það um 6. maí sem meiningin er að þinglok verði, þannig að ég sé nú ekki hvernig menn ætla að sigla því máli þokkalega heilu í höfn.
    En ég get ómögulega farið svo úr þessum ræðustól án þess að minnast aðeins á þróunarsjóðinn sem hefur staðið hvað lengst í tvíhöfða nefndinni en sá dagsins ljós í gær. Ég varð auðvitað fyrir sárum vonbrigðum þegar ég sá þetta afkvæmi --- og nú sé ég að tíma mínum er lokið, virðulegi forseti, en ég er alveg að ljúka máli mínu --- en ég sá það að þessum sjóð er ætlað að taka við öllum skuldbindingum Hagræðingarsjóðs, atvinnutryggingardeildar Byggðastofnunar og eignum og skuldbindingum hlutafjárdeildar Byggðastofnunar. Síðan segir og nú les ég þetta upp úr málgagni forsrh., Morgunblaðinu, málgagni forsrh. og Jóns Baldvins Hannibalssonar þannig að ég ætlast til þess að það fari rétt með þessa hluti, en það segir svo:
    ,,Komi í ljós að lágmarksgjaldið sem hæstv. sjútvrh. var að tala hér um áðan standi ekki undir skuldbindingum sjóðsins ber sjútvrh. að leggja fyrir Alþingi tillögu um breytingar á tekjustofnum hans.``
    Hvað er verið að tala um? Auðvitað er verið að tala um það að sjútvrh. beri þá að leggja fram tillögur um auknar álögur á greinina.
    Að lokum, virðulegi forseti, ég skil að forseti ókyrrist og manni ber að virða tímamörkin hér, en að lokum þetta. Ég hefði aldrei trúað því að Sjálfstfl. ætti eftir að standa að því að leggja slíkar álögur á íslenskan sjávarútveg. Ég spyr: Af hverju má ekki búa sjávarútveginum eins og annarri atvinnustarfsemi í landinu þau starfsskilyrði að sjávarútvegurinn eins og önnur atvinnustarfsemi fá að borga skatta og skyldur samkvæmt því? Með hvaða peningum á sjávarútvegurinn að borga auðlindaskatt, atvinnugrein sem er rekin er með 8--10% tapi. Hvaða sendiherrar fjmrh. eiga að standa á hafnarbakkanum vestur á Snæfellsnesi og innheimta aflagjald af sjómönnunum þegar þeir koma að landi? Með hvaða peningum eiga sjómennirnir að borga? Það væri fróðlegt að sjálfstæðismennirnir svöruðu því.