Staða sjávarútvegsins

151. fundur
Föstudaginn 02. apríl 1993, kl. 16:09:31 (6801)


     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Sjávarútvegurinn stendur undir 75% af útflutningstekjum Íslendinga og atvinnu fjölda manna, ekki aðeins í greininni sjálfri heldur í ótalmörgum hliðargreinum. Hann er sá atvinnuvegur sem veitir okkur Íslendingum sérstöðu. Hann er undirstaðan. Ástandið er þannig hjá okkur núna í þjóðfélaginu að það er sýnilegt að við munum verja 4.000 millj. kr. í atvinnuleysisbætur á þessu ári en allt eins líklegt að það verði 5.000--6.000 millj.
    Við erum að ræða stöðu þessarar atvinnugreinar í dag á hv. Alþingi. Það verður ekki hjá því komist að álykta að hæstv. ríkisstjórn sé nokkuð veruleikafirrt. Aðeins einn ráðherra hefur séð ástæðu til að sitja undir þessari umræðu, hæstv. sjútvrh. Enginn annar ráðherra hefur látið sjá sig í þessum sal í dag nema hæstv. utanrrh. sem birtist hér í mýflugumynd einhvern tímann rétt eftir hádegið. Þetta er svo sannarlega til minnkunar og sýnir hvaða augum hæstv. ríkisstjórn lítur þennan undirstöðuatvinnuveg landsmanna. Við þessa umræðu er ræðutími takmarkaður við þrjá tíma. Það eru ekki leyfð andsvör, ráðherrar eru ekki viðstaddir, það er haldinn fundur á handahlaupum í hádeginu á þingtíma í sjútvn. til að kynna tillögur tvíhöfða nefndar sem stjórnarflokkarnir hafa verið að kasta á milli sín í allan vetur.
    Þessi atburðarás er svoleiðis með eindæmum að því verður varla lýst. Ríkisstjórn sem svona heldur á málum er auðvitað ekki hæf til að stjórna landinu. Það ætti mönnum fyrir löngu að vera orðið ljóst. Hún lagði reyndar upp með það og það er grundvöllur þessa máls að stjórnvöld ættu ekki að koma nálægt neinu í atvinnulífinu hvað sem á gengi. Þetta var í anda frjálshyggju og þetta er ein grundvallarástæðan fyrir því að svona er komið.
    Það er ástæða til að rifja upp atburðarásina varðandi sjávarútvegsmál síðustu tvö ár og verja örlitlu af þessum stutta tíma sem mér er skammtaður til þess. Ég gríp hér niður í viðtal við hæstv. forsrh. og hæstv. sjútvrh. sem var tekið 26. nóv. 1991. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Þorsteinn Pálsson sjútvrh. segir brýnt að taka á rekstrarvanda sjávarútvegsfyrirtækja þegar í stað. Tillögum hans var dreift í ríkisstjórn í dag en þær komust ekki á dagskrá ríkisstjórnarfundar. Davíð Oddsson forsrh. segir að ekkert sérstakt knýi á um skjóta lausn þessa vanda.``
    Síðan segir hæstv. forsrh., Davíð Oddsson: ,,Málið er það að við höfum tíma og við tökum okkur þann tíma sem við þurfum fremur en að stökkva á einhverjar aðgerðir sem kannski verða svo verri en engar. Við höfum jafnvel einhverjar vikur en ég hugsa að það verði nú ekki svo lengi.``
    Síðan segir fréttamaðurinn svo, með leyfi forseta:
    ,,Þorsteinn Pálsson hefur lagt mikla áherslu á að aðgerða sé þörf strax. Hann skýrir það að tillögur hans koma ekki á dagskrá ríkisstjórnarfundar með því að þar hefur margt legið fyrir. En telur hann sig standa einan?`` Þá segir hæstv. sjútvrh., með leyfi forseta: ,,Því vil ég ekki trúa. Ég hef ekki orðið var við annað en menn vilji taka á þessum vanda. Það er gífurlegur vandi sem nú blasir við í sjávarútveginum. Þær ráðstafanir sem hér er verið að tala um létta nokkuð undir en leysa engan veginn allan vandann. Hann verður mjög mikill og erfiðleikarnir mjög miklir hvað sem menn gera í þessu efni en það má ekki skjóta nauðsynlegustu úrlausnum á frest.``

    Hvað skeður svo? Menn tóku á þessum vanda um áramótin 1991/1992 með því að leggja nýjar álögur á sjávarútveginn sem voru taldar yfir 1 milljarð kr. Þann 23. febr. 1992 var einmitt þáttur í útvarpi um sjávarútvegsmál þar sem stöðunni er lýst þannig af fréttamanni, með leyfi forseta: ,,Og svo við höldum áfram að rýna aðeins í tölur hér í upphafi, þá sýna meðaltalsútreikningar að sjávarútvegurinn í heild hafi verið rekinn með 4% tapi í byrjun árs og fiskvinnslan rekin með um 8% tapi. Einn forsvarsmaður í sjávarútvegi hefur haldið því fram að 40% gengisfelling dugi ekki til að rétta við í sjávarútvegi.`` Svo segir einn forsvarsmaður sjávarútvegsins, Kristján Ragnarsson, sem tók þátt í þessum þætti, með leyfi forseta:
    ,,En það er svona kaldhæðnislegt að á sama tíma og þessar upplýsingar berast leggur ríkisstjórnin á ný gjöld á þessa sömu atvinnugrein upp á 650 millj. kr.``
    Það eina sem var gert á þessu ári var að fara í sjóð sem var til frá tíma fyrri ríkisstjórnar og hét Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins og greiða út úr honum. Það verður ekki gert aftur. Síðan var farið í aðgerðir í árslok og einn þátturinn í þeim aðferðum var að stofna svokallaðan þróunarsjóð. Meðferð hans og vinnan við að koma þessum þróunarsjóði í frv. er búin að standa í allan vetur og frv. var að birtast á borðinu hjá okkur núna rétt áðan. Ég fletti á aðra síðu og sá að þar er m.a. reiknað með því að leggja gjald á fiskvinnslustöðvar til þess að standa undir úreldingu. Það er áreiðanlega mjög gott og auðvelt fyrir þessa grein að borga það núna í því ástandi sem er í atvinnugreininni. Það verður ábyggilega og áreiðanlega mjög auðvelt að bæta því við og ég veit hvert viðkvæðið verður. Það verður sagt við fiskvinnsluna: Hagræðið þið bara í greininni. Sameinið þið fiskvinnslufyrirtæki og hagræðið. Það verða áreiðanlega einhverjar fiskvinnslustöðvar tómar þegar sú hagræðing er búin til þess að borga þessi gjöld af til hagræðingar í greininni.
    Ég reikna með að það muni þvælast fyrir þinginu að afgreiða þessa löggjöf og þann doðrant sem tvíhöfða nefndin er loksins búin að koma frá sér á hálfum mánuði. Það sem er búið að veltast fyrir stjórnarliðum að koma sér saman um í allan vetur. Það er náttúrlega alveg með eindæmum hvernig hefur verið staðið að endurskoðun sjávarútvegsstefnunnar, að stjórnarandstaðan skuli ekki vera kölluð til í þá vinnu. Ég segi þetta að gefnu tilefni því að ég hef reynslu af því. Ég er nýbúinn að ljúka vinnu á vegum félmrn. og hæstv. félmrh. og veit ekki betur en þeir fulltrúar þingflokka stjórnarandstöðunnar sem voru í þeirri nefnd hafi náð samkomulagi. En engin ástæða er talin til að hafa fulltrúa stjórnarandstöðunnar þegar fjallað er um undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar.
    Þetta sýnir bara að ríkisstjórnin skilur ekki þennan vanda. Ég er orðinn sannfærður um það. Ég get kannski fallist á að sjútvrh. hafi á honum einhvern skilning. Þó efast ég um það því að hann væri búinn að segja af sér í mótmælaskyni við það hvernig þessi málaflokkur hefur verið leikinn. En ekki nokkur alþýðuflokksmaður hefur séð ástæðu til þess að taka til máls hér í dag og ekki einu sinni að koma í salinn. Ég veit ekki til þess að það hafi nokkur maður . . .  ( Gripið fram í: Þingflokksformaðurinn hefur talað hér eitthvað.) Hv. þingflokksformaðurinn var á mælendaskrá en ég hef ekki heyrt að hann hafi talað enn. Ég hygg að hann hafi tekið sig af mælendaskrá og enginn alþýðuflokksmaður hefur séð ástæðu til þess að taka þátt í þessari umræðu um stöðu sjávarútvegsins og segir það náttúrlega meira en mörg orð um afstöðu þess flokks til þessa undirstöðuatvinnuvegar okkar. Það hefur þó einn úr þingliði Sjálfstfl. séð ástæðu til þess að taka hér til máls og er það þakkarvert.
    Það er svo sannarlega ömurlegt hvernig þessi umræða hefur farið fram af hálfu stjórnarliðsins. Það sýnir að þessi ríkisstjórn og því miður þeir sem fylgja henni á Alþingi eru algerlega ófærir um að fást við vanda sjávarútvegsins. Ég tek undir með hv. 4. þm. Norðurl. e. Ég bara skil ekkert í því geðleysi stjórnarliða að láta bjóða sér þessar aðfarir varðandi undirstöðuatvinnuveginn.
    Ég sagði í upphafi að sjávarútvegurinn væri sá atvinnuvegur sem við Íslendingar stöndum fremst í og höfum sérstöðu í. Hann er sá atvinnuvegur þar sem við höfum mesta möguleika að láta til okkar taka og brjótast fram og bjóða upp á nýjungar. Það er alveg borin von að slíkt verði hægt við þá stöðu sem er í sjávarútveginum núna. En það er rétt að ef tóm gefst til og eins og hv. 3. þm. Vestf. sagði, ef forsvarsmenn í sjávarútvegi geta hugsað um eitthvað annað en hvernig þeir eigi að borga út launin, þá þarf ekki að kvíða. Þessi grein hefur alla burði til að sækja fram. Þar er mikil þekking og ef eins mikið þróunarstarf hefði verið unnið í öllum greinum og sjávarútveginum á undanförnum árum þá værum við sjálfsagt ekkert mjög illa á vegi staddir. Það er alveg undravert hvað þessi grein hefur lagað sig að erfiðum aðstæðum og haldið uppi þjóðartekjunum þrátt fyrir ytri áföll, farið inn á nýjar brautir og unnið mikið þróunarstarf. Það verður svo áfram ef þessari grein eru sköpuð skilyrði, ef menn hirða eitthvað um hana. En menn hirða bara ekkert um hana, ekki stjórnarliðið. Það sýnir þessi umræða í dag og fjarvera hv. stjórnarliða frá henni. Hún er þeim svo sannarlega ekki til sóma.