Staða sjávarútvegsins

151. fundur
Föstudaginn 02. apríl 1993, kl. 16:49:35 (6804)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Ég vil byrja á því að taka undir þakkir til þeirra hv. þm. sem tekið hafa þátt í þessari umræðu sem um margt hefur verið gagnleg og málefnaleg. Ég get hins vegar tekið undir að það vekur athygli hvað þessi umræða hefur vakið áhuga tiltölulega fárra þingmanna í dag með hliðsjón af því hversu stórt og mikið mál hér er til umfjöllunar.
    Nokkrir hv. þm., sem hér hafa talað, hafa vikið að því ákvæði í 6. gr. draga að frv. um þróunarsjóðinn þar sem segir að gjald á aflaheimildir skuli nema a.m.k. 1.000 kr. fyrir hverja þorskígildislest. Það er svo sem eðlilegt að menn inni eftir þessu. Það er ekki algengt í lagasetningu að taka til orða með þessum hætti en breytir ekki því að okkar stjórnarskrá kveður skýrt á um það að ráðherra ákveður ekki hærri skatt en lögin sjálf heimila og á vissan hátt má þess vegna segja að þessi tala sé bæði hámark og lágmark. Það verður hvorki farið upp fyrir þessa fjárhæð sem þarna er tilgreind né niður fyrir hana meðan hún stendur óbreytt í lögum.
    Í minnisatriði sem ég lagði fyrir ríkisstjórnina í morgun þegar ég kynnti niðurstöður tvíhöfða nefndarinnar og það samkomulag sem orðið hefur um frv. að þróunarsjóðnum segir um þetta með þessum orðum:
    ,,Í þessari breytingu felst ekki heimild til sjútvrh. til að ákvarða gjald á aflaheimildir hærra en 1.000 kr. á hverja þorskígildislest. Það sem felst í ákvæðinu er hins vegar það að ef til þess kemur að taka þurfi ákvörðun gjaldsins til endurskoðunar á grundvelli ákvæða 19. gr., þá verði tillögugerð ráðherra við það miðuð að gjaldið verði ekki lækkað niður fyrir 1.000 kr. á hverja þorskígildislest.``
    Með væntanlegum athugasemdum með frv. verður þessi skýring. Það er gert ráð fyrir því í 19. gr. að Ríkisendurskoðun fylgist með fjármálum sjóðsins. Það er skýrt kveðið á um að gjaldið eigi að standa undir skuldbindingum hans og ég þykist vita að menn greini ekki á um það sem á annað borð eru þeirrar skoðunar að eðlilegt sé að koma slíkum sjóði á. Ef Ríkisendurskoðun kemst að þeirri niðurstöðu að það sé misvísun á milli skuldbindinga og gjaldtöku, þá ber sjútvrh. að gera tillögu til lagabreytinga sem Alþingi þarf að taka afstöðu til. En hér er til þess vísað að ekki er gert ráð fyrir því að hann flytji tillögu til lækkunar á gjaldinu. Ég hygg því að það sé alveg skýrt og þurfi ekki að fara í neinar grafgötur um hvað hér er átt við og ekkert óljóst um þessi lagaákvæði. Þau gefa heldur ekki tilefni til neinnar misvísunar í túlkun.
    Hér er um það að ræða að verið er að fella niður gjaldtöku sem á sér stað í dag með sölu á aflaheimildum Hagræðingarsjóðs. Hún fellur með öllu niður í þrjú ár en er svo tekin upp í þessu breytta formi. Í stað þess að renna til Hafrannsóknastofnunar í gegnum ríkissjóð, þá fer hún til þessara tilgreindu verkefna. Ég hygg að hv. þm. hljóti að vera sammála því mati hv. 1. þm. Austurl. að gjaldtaka sem ákveðin er með þeim hætti telst ekki auðlindaskattur, enda löng saga að lögð voru á ýmiss konar gjöld innan sjávarútvegsins til hvers konar millifærslu. Það voru lögð gjöld á útflutning og notuð til millifærslu. Menn greiddu aflauppbætur sem atvinnugreinin sjálf borgaði og þessi gjaldtaka er í eðli sínu nákvæmlega sama eðlis og á því ekkert skylt við auðlindaskatt. En sannarlega er ánægjuefni að í heild sinni skuli milli ríkisstjórnarflokkanna hafa náðst samstaða um grundvallaratriði fiskveiðistefnunnar og í tengslum við þessa sjóðsstofnun.
    Ef ég vík þá að einstökum atriðum sem hér hafa komið fram, þá gat hv. 3. þm. Vesturl. þess að ástandið í sjávarútvegi hefði verið miklu betra þegar núv. ríkisstjórn tók við en það er í dag og hv. 4. þm. Norðurl. v. sagði réttilega að á árinu 1990 og fram á árið 1991 hafi sjávarútvegurinn getað greitt af skuldum sínum. Allt er þetta rétt. En þessar staðhæfingar segja þó ekki nema hálfa söguna. Ástæðan fyrir því

að betur stóð á í sjávarútvegi á þessum árum en gerir núna er sú að þá vorum við að veiða meira og við seldum þann afla við hærra verði. Þetta er kjarnaatriði. Nú veiðum við minna og seljum afurðirnar við lægra verði og þess vegna stöndum við frammi fyrir þessum vanda.
    Bankarnir munu halda áfram að tapa ef sjávarútvegurinn tapar, sagði hv. 4. þm. Norðurl. v. og það er auðvitað alveg kórrétt. Ef sjávarútvegurinn er rekinn með tapi, þá þurfa menn að taka lán til að mæta því útlánatapi. Ef fyrirtækin rekur svo upp á sker, þá þurfa bankarnir að greiða það fyrst í stað en síðan flyst það yfir á skattborgarana eins og nýleg dæmi eru um með aðgerðum til þess að bjarga Landsbankanum. Á endanum ber þjóðin þessa byrðar, alveg sama hvaða leið við veljum í þessu efni. Undan því verður aldrei vikist. Það er kjarni þessa máls og var einmitt mjög ánægjulegt að hlusta hér á hv. 4. þm. Norðurl. e. sem sagði að það þýddi ekkert annað en að koma skuldum fyrir. Ég skildi hann á þann veg að það yrði að létta skuldunum af sjávarútveginum. Hann nefndi að það þyrfti að ganga svo langt að létta skuldabyrði upp á 30 milljarða kr. af sjávarútveginum og þegar spurt var með frammíkalli hver ætti að borga það þá sagði hann hreinskilnislega: Þjóðin á að borga það. Það á að leggja það á þjóðina í nýjum sköttum. Og þetta er alveg kórrétt hjá hv. þm. Ef þessa leið á að fara verður það ekki gert með öðrum hætti en að leggja skatta á þjóðina til þess að borga. Svo geta menn deilt um það með hvaða hætti menn leggja skatta á fólkið í landinu en öðruvísi verður þessi leið ekki farin.
    Menn geta deilt um það hvort eðlilegt sé að ganga svo langt í skattlagningu og björgunaraðgerðum að það nemi 30 milljörðum kr. En hv. þm. benti réttilega á hverjir það eru sem þurfa að borga brúsann.
    Hann ræddi einnig um niðurstöður tvíhöfða nefndarinnar svokölluðu og sagði að að hans mati, ef ég hef skilið hann rétt, vantaði á samstöðuna við stjórnarandstöðuna og hætta væri á því að hér skapaðist ekki sú festa sem þyrfti að vera fyrir hendi því að hugsanlegt væri að stjórnarandstaðan mundi reka kosningabaráttu með yfirlýsingum um að hún ætlaði að breyta grundvallaratriðum fiskveiðistefnunnar. Það má vel vera að Alþb. ætli að gera það. Þeir hafa lagt hér fram tillögu um að sjútvn. þingsins eigi að móta stefnuna og þeir prentuðu sem fskj. með frv. frá hv. 3. þm. Vesturl. Þetta bendir til þess að þingflokkur Alþb. hafi ekki getað komið sér saman um að styðja frv. hv. þm. en orðið ásáttir um að prenta það sem fskj. ef sjútvn. þingsins kæmi sér svo saman um stefnu í sjávarútvegsmálum að öðru leyti. En það er auðvitað ástæða til þess að stjórnarandstöðuflokkarnir geri grein fyrir því. Ætla þeir að ganga til næstu kosninga með yfirlýsingar um að þeir ætli að breyta fiskveiðistefnunni í grundvallaratriðum? Eru þeir sammála um það, til að mynda Alþb. og Framsfl., að ganga til kosninga næst með yfirlýsingar um að að þeim loknum eigi að breyta í grundvallaratriðum frá þeirri fiskveiðistefnu sem við höfum verið að byggja upp og með áliti tvíhöfða nefndarinnar er verið að leggja til að verði fest í sessi? Ætla þeir að ganga til kosninga með yfirlýsingar um það? Ná þeir samkomlagi um það? Halda þeir að þeir nái trúnaði fólksins í landinu með yfirlýsingar af því tagi? Ég efast um það og ég efast um að það verði samkomulag á milli Alþb. og Framsfl. í því efni ef eitthvað er að marka yfirlýsingar talsmanna þessara flokka í þessum málum.
    Hv. 2. þm. Suðurl. lýsti því yfir að stjórnarandstaðan væri tilbúin til samstarfs við ríkisstjórnina og innti eftir því hversu lengi ég teldi rétt að bíða eftir samstöðu innan ríkisstjórnarflokkanna. Innan ríkisstjórnarinnar er fullt samkomulag um þær tillögur um fiskveiðistefnu og þróunarsjóð sem hér liggja fyrir og nú standa yfir viðræður á milli ríkisvaldsins og aðila vinnumarkaðarins, launamanna og atvinnurekenda, um gerð kjarasamninga og efnahagslegar forsendur fyrir atvinnulífið til þess að búa við. Vonandi leiða þessar viðræður til ásættanlegrar niðurstöðu. Ég fagna því að stjórnarandstaðan skuli vera fús til að taka þátt í slíkum umræðum og styðja vonandi farsæla niðurstöðu á þeim grunni.
    Menn segja sem svo: Það hefur dregist úr hömlu að gripið væri til aðgerða. Ég vil minna menn á að það var gripið til aðgerða í nóvember með gengisbreytingu og lækkun skatta til þess að bæta stöðu atvinnugreinanna. Síðan hefur sigið á ógæfuhliðina vegna lækkandi afurðaverðs. Nú fara þær viðræður fram sem ég hef áður nefnt og forustumenn atvinnulífsins, og þar á meðal sjávarútvegsins, leggja í þeim viðræðum fram þau sjónarmið af sinni hálfu sem þeir telja að tryggi forsendur fyrir rekstri atvinnufyrirtækjanna. Ég geri tæplega ráð fyrir því að hv. þm. komi fram með ríkari kröfur um rekstrargrundvöll og efnahagslegar forsendur fyrir rekstri sjávarútvegsins en talsmenn hans gera í þessum þríhliða viðræðum. Og það sem þeir fallast á sem efnahagslegar forsendur til þess að ljúka samningum um kaup og kjör í þessu samhengi hlýtur að vera sá ásættanlegi grundvöllur sem greinin sjálf vill keppa að.
    Hv. 1. þm. Austurl. sagði að það hefði fátt verið skýrt í yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar í þessum umræðum. Það er að því leyti rétt að viðræður um þessi efni standa nú yfir. Þeim er ekki lokið og meðan þeim er ekki lokið eru þau öll óvissu undirorpin. Á hinn bóginn hlýt ég að draga þá ályktun af þessari umræðu að fátt skýrt hefur komið fram í umræðunni af hálfu stjórnarandstöðunnar um lausnir nema ef vera skyldi tillaga hv. 4. þm. Norðurl. e. um að yfirtaka 30 milljarða í skuldum og leggja skatta á í staðinn. Annað hefur ekki komið beint skýrt fram í þessum umræðum. Það er auðvitað ekki von. Ég er ekki að ásaka talsmenn stjórnarandstöðuflokkanna fyrir það. Aðstæður eru einfaldlega þannig að hvorki þeir né aðrir geta talað með skýrari hætti en þetta.
    Hv. 1. þm. Austurl. sagði réttilega að menn þyrftu ekki að liggja lengi yfir þeim tillögum sem liggja fyrir af hálfu tvíhöfða nefndarinnar og um þróunarsjóðinn. Flest atriði væru þar mjög skýr og menn gætu tekið afstöðu til þeirra á stuttum tíma. Ég er honum hjartanlega sammála um þau atriði og er sannfærður um að hv. þm. munu leggja sig fram um að fjalla um þessar hugmyndir. Það er auðvitað ekki hægt að ætlast til þess að allir verði sammála um hvert einasta atriði en mikilvægt samráð og mikilvæg samtöl eiga eftir að fara fram á milli lögboðinna samráðsaðila. Að því búnu verður vonandi unnt að leggja málið fyrir þingið og afgreiða það eins fljótt og kostur er.
    Frú forseti. Ég vil að lokum ítreka þakklæti mitt til hv. þm. fyrir ágæta umræðu um þessi mikilvægu efni hér í dag.