Sementsverksmiðja ríkisins

152. fundur
Mánudaginn 05. apríl 1993, kl. 14:09:34 (6816)

     Guðjón Guðmundsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hv. þm. Svavar Gestsson vitnar í ræðu mína á föstudaginn með líkum hætti og hv. þm. Jóhann Ársælsson. Þeir fullyrða að ég hafi eitthvað verið að bollaleggja um hugsanlega sölu hlutabréfa í Sementsverksmiðjunni. Ég er búinn að lýsa því hér áður og get endurtekið það að ég minntist ekki einu einasta orði á það í minni ræðu. Þessir ágætu þingmenn virðast ekki trúa því, því miður. Ég neyðist því til að gefa þeim ljósrit af ræðu minni á eftir og mun stinga því í pósthólfið þeirra hér áður en ég fer af þessum fundi.
    Talandi um sölu hlutafjár hef ég hins vegar lýst skoðun minni til þeirra mála í blaðagrein þó ég hafi ekki gert það í þingræðu. Skoðun mín er sú að eðlilegast sé að ríkið eigi meiri hluta í fyrirtækinu og ekkert athugavert sé við það að selja eitthvert hlutafé í fyrirtækinu. Við skulum segja 25% eða eitthvað slíkt. (Gripið fram í.) Ég hef lýst því áður og ég er þar sammála formanni iðnn., það er rétt að það komi hér skýrt fram. Hins vegar kann ég því illa að menn vitni í ræðu mína og segi mig hafa sagt eitthvað sem ég alls ekki sagði.