Sementsverksmiðja ríkisins

152. fundur
Mánudaginn 05. apríl 1993, kl. 14:13:07 (6819)

     Frsm. minni hluta iðnn. (Finnur Ingólfsson) :
    Virðulegi forseti. Það er aðeins út af orðum hv. form. iðnn. Össurar Skarphéðinssonar hér áðan. Hann flutti reyndar sömu ræðu og við 2. umr. málsins er hann var að velta því fyrir sér hvað fyrri ríkisstjórn hefði gert í þessum efnum. Því hefur ekki verið mótmælt af minni hluta nefndarinnar, hvorki þeim

sem hér stendur né öðrum, að það er rétt að í tíð fyrri ríkisstjórnar voru sett lög um Jarðboranir ríkisins og um Ríkisprentsmiðjuna Gutenberg sem innihalda sama ákvæði og er í 4. gr. frv. um Sementsverksmiðju ríkisins. Munurinn er hins vegar sá á þeirri gerð, sem nú sendur fyrir dyrum, og því hvernig staðið var að hér áður, þá vissu menn ekki betur en að það ákvæði er þá var inni í frv. um Jarðboranir ríkisins og um Ríkisprentsmiðjuna Gutenberg stæðist lög og það stæðist stjórnarskrána. Engar athugasemdir voru gerðar við það af lögmönnum á þeim tíma að þarna væri hugsanlega um stjórnarskrárbrot a ræða.
    Hins vegar er það nú svo að tveir lögfræðingar, sem báðir hafa sent frá sér skriflegar álitsgerðir um þetta efni, telja að þarna sé jafnvel um stjórnarskrárbrot að ræða og látið verði reyna á það fyrir dómstólum hvort svo sé. Með öðrum orðum, fyrri ríkisstjórn framkvæmdi þessar breytingar í góðri trú. Núv. ríkisstjórn ætlar gera þetta ákvæði virkt samkvæmt lögum þrátt fyrir víðtækar og ítrekaðar viðvaranir af hálfu mikils metinna lögmanna um þarna geti hugsanlega verið um stjórnarskrárbrot að ræða. Það lagði ég áherslu á í fyrri ræðu minni.
    Nú er búið að lögfesta sama ákvæði um Síldarverksmiðjur ríkisins þar sem þetta er í 7. gr. þeirra laga. Af hverju ekki að doka við og láta á það reyna hvernig dómstólarnir munu meðhöndla það mál láti BSRB á málið reyna fyrir dómstólum? Hvað liggur á? Af hverju má ekki doka við og sjá hver framvinda málsins verður?
    Þeir lögfræðingar, sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson vitnaði til að hefðu verið í vafa um það hvort þetta ákvæði stæðist stjórnarskrá, og a.m.k. tveir þeirra töldu í lagi að hafa ákvæðið eins og það er nú í frv., treystu sér hins vegar ekki til þess að senda frá sér skriflega greinargerð um málið. Því er skynsamlegt að flana ekki að neinu, doka örlítið við og sjá hver framvindan verður, en það liggur ekkert á.
    Varðandi hinn þátt málsins sem upphaflegur stuðningur bæjarstjórnarinnar á Akranesi og starfsmannafélags Sementsverksmiðju ríkisins var háður því skilyrði á þeim tíma að í fyrsta lagi kæmi aðstöðugjaldið að fullu bætt til bæjarfélagsins og hitt að fyrirtækið yrði ekki selt. Báðir þessir fyrirvarar hafa núna fokið út í veður og vind. Af þeirri ástæðu hefur starfsmannafélag Sementsverksmiðjunnar óskað eftir því að málið verði ekki lögfest, formbreytingin eigi sér ekki stað. Af þessum tveimur ástæðum hefur bæjarstjórn Akraness einnig lýst andstöðu sinni við að frv. verði að lögum og þannig verði formbreyting á Sementsverksmiðju ríkisins.
    Nú eru deilur um það milli stjórnarþingmanna, hvort sem það er innan Sjálfstfl. eða milli stjórnarflokkanna, og af því að hæstv. iðnrh. er í salnum er rétt að hann skeri úr um það í umræðunni og ég spyr hæstv. ráðherra að því: Stendur til að selja Sementsverksmiðjuna í heilu lagi, þ.e. alla hlutana eða einhverja hluta hennar? Spurningin er ítrekuð út af þeirri umræðu sem hér hefur orðið. Í svari hæstv. iðnrh. á síðasta þingi við fsp. hv. þm. Ingibjargar Pálmadóttur um það hvort til stæði að selja Sementsverksmiðjuna minnir mig að hann hafi þá sagt að það ætti að selja Sementsverksmiðjuna, alla hlutana eða einstaka hluta hennar. Því ítreka ég spurninguna: Er nokkur breyting á afstöðu hæstv. ráðherra í þessum efnum? Er staðreyndin ekki sú og það vilji ríkisstjórnarinnar að allt fyrirtækið verði selt?