Framleiðsla og sala á búvörum

152. fundur
Mánudaginn 05. apríl 1993, kl. 14:56:49 (6834)


     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Mér er ljúft að svara þessu. Um síðara atriðið, blómin, er það að segja að við stjórnarskiptin síðustu var ekki gert ráð fyrir því í drögunum um samninginn um Evrópska efnahagssvæðið að nein jöfnunargjöld yrðu lögð á blómainnflutning eins og hv. þm. á að vera betur kunnugt en flestum öðrum. Hins vegar tókst að laga ,,cohesion-listann`` við umræður áður en samningurinn lá endanlega fyrir í desembermánuði enda hafði hin fyrri ríkisstjórn ekki einu sinni haft samráð við blómaframleiðendur eins og þingmanninum er kunnugt um.
    Um síðara atriðið er það að segja að það liggur alveg skýrt fyrir hver er skilningur Alþingis og landbn. á þeim ákvæðum samningsins sem hv. þm. spurði um og hefur verið ítrekað hér. Það er ekki rétt að hér sé um að ræða almennan innflutning á kjöti og kjötvörum því að samkvæmt samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði höfum við það í hendi okkar hvort við flytjum inn kjötvörur eða ekki. Við erum á hinn bóginn að tala um kjöthlutann í innfluttum framleiðsluvörum eins og pitsum, pöstu og öðru þvílíku en það var svo að engin jöfnunargjöld hafa verið lögð á þessar vörur fyrr en nú. Því hefur ekki verið til að dreifa fram að þessu að nein jöfnunargjöld yrðu lögð á kjöthlutann í þessum vörum. Það er einmitt skírskotun til þess sem hv. þm. var að tala um, spurningin um rétt okkar til þess að taka það upp og halda því núna að lögð séu jöfnunargjöld á kjöthlutann í pitsum sem ekki hafði verið gert. Ég er á hinn bóginn undrandi yfir því að hv. þm. skuli taka þann kostinn að halda fram sama skilningi og ýmsir aðrir sem eru okkur ekki hagkvæmir í málinu. Um þetta hafa komið fram ákveðnar kröfur hjá Evrópubandalaginu, það er rétt. Á hinn bóginn hefur fulltrúi Íslands ekki fallist á þær og það liggur engan veginn fyrir að sá skilningur verði ofan á sem hv. þm. talaði um.