Sementsverksmiðja ríkisins

152. fundur
Mánudaginn 05. apríl 1993, kl. 15:13:31 (6837)

     Iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Vegna beinnar spurningar hv. 9. þm. Reykv. vil ég segja alveg skýrt: Það er skoðun mín að ekki sé rétt að breyta lögunum frá 1954, um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, án samráðs við samtök opinberra starfsmanna. Þetta er sjónarmið sem ég veit að ég deili með hæstv. fjmrh. Í ræðu hæstv. fjmrh. hér áðan sagði hann einmitt að hann teldi að að sjálfsögðu ætti að hafa samráð við samtök opinberra starfsmanna þegar að því kæmi, sem hann taldi tímabært, að lögunum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna yrði breytt. Ég mótmæli því þess vegna sem hv. 9. þm. sagði áðan og taldi sig hafa eftir fjmrh. Það er alls ekki rétt að hann hafi lýst þeirri skoðun að þessum lögum ætti að breyta án samráðs við opinbera starfsmenn. Þvert á móti sagði hann: Það er að sjálfsögðu rétt að hafa samráð við þá. Þetta er skoðun sem ég deili með honum og ég veit að hv. 9. þm. Reykv. er mér og fjmrh. sammála um það.
    Ég vil líka taka það alveg skýrt fram að það sem ég tel að helst hafi komið fram um þetta tiltekna mál í ræðu hæstv. fjmrh. var að hann áréttaði og ítrekaði ábyrgð löggjafarvaldsins í málinu en alls ekki þannig að ganga ætti fram hjá samtökum opinberra starfsmanna.