Sementsverksmiðja ríkisins

152. fundur
Mánudaginn 05. apríl 1993, kl. 15:21:52 (6842)

     Iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Þessi 3. umr. hefur orðið óvenjulega löng. Það á sínar skýringar í því að til þess að koma til móts við eðlilegar óskir minni hlutans í hv. iðnn. gaf hv. formaður nefndarinnar færi á því enn á ný að réttarstaða starfsmanna yrði könnuð til hlítar. Ég vildi nefna það, virðulegi forseti, að þeir sem eru áhugasamir um réttarvernd fyrir starfsmenn Sementsverksmiðjunnar ættu að kynna sér lög nr. 35 frá 1948, um Sementsverksmiðjuna, og bera ákvæði þeirra um stöðu starfsmanna saman við það sem er að finna í þessu frv., og bera líka saman ákvæðin sem varða tengsl þessa fyrirtækis við kaupstaðinn Akranes eins og þau eru í þessu frv. og eins og þau eru í þessum gömlu lögum. Niðurstaðan hlýtur að verða hjá hverjum sanngjörnum manni að með þessu frv. sé réttarstaða starfsmanna vel tryggð, samband fyrirtækisins við þá og samráð og við kaupstaðinn Akranes eru tryggð með óvenjulega skýrum, ljósum og sanngjörnum hætti. Í gildandi lögum er ekkert um þessi mál sem hér er verið að ræða. Menn tala hér eins og verið sé að svipta þá réttindum en því fer víðs fjarri. Sannleikurinn er sá að hér er verið að tryggja réttindi starfsmanna. Núv. starfsmönnum Sementsverksmiðjunnar er tryggður réttur til endurráðningar hjá hlutafélaginu í sambærilegt starf. Það er að sjálfsögðu svo að það er mjög auðvelt að tryggja sambærileg störf í hlutafélagi sem heldur áfram að fást við sama rekstur og áður var.
    Það er reyndar þannig að lögunum um réttindi og skyldur er í engu vikið til hliðar í efnislegum atriðum. Um 20 starfsmenn Sementsverksmiðjunnar eru núna í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Réttindi þeirra haldast óbreytt við formbreytinguna sem hér er gerð tillaga um. Þar má vísa til 2. mgr 17. gr. laga nr. 29/1963, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Það er svo að engir starfsmenn í Sementsverksmiðjunni hafa gerst aðilar að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins á seinni árum. Um lífeyrismál þeirra og flestra annarra starfsmanna fer eftir ákvæðum kjarasamninga. Það sem hv. 3. þm. Vesturl. talaði um hér áðan að menn mundu missa rétt og látið var í veðri vaka að gilti um alla starfsmenn verksmiðjunnar er alls ekki í samræmi við veruleikann.
    Hins vegar er það mikilvægt að menn fjalli í alvöru um það hvort verið sé vitandi vits að leggja til að sett verði lög sem brjóti stjórnarskrána. Það er ekki. Það er álit lögfræðilegra ráðgjafa ríkisstjórnarinnar, bæði iðnrn. og annarra ráðueyta að þetta sé alls ekki stjórnarskrárbrot. Það leiðir af efni málsins eins og það liggur fyrir að ekki er verið að svipta neinn mann neinum rétti, hvorki eignarrétti né öðrum rétti. Fari svo að einhver starfsmaður fái ekki sambærilegt starf hjá nýju fyrirtæki sem ég tel í hæsta máta ólíklegt, vaknar réttur hans samkvæmt lögunum um réttindi og skyldur fra 1954 við það. Skýrara getur þetta ekki verið og þeir sem halda því fram að verið sé að brjóta jafnræðisreglu sem virða skuli samkvæmt réttarfari okkar hafa heldur engan málstað. Ekki er verið að taka rétt af neinum manni. Þess vegna er ekki rétt að gera þá kröfu sem hv. 9. þm. Reykv. gerði hér áðan að væri verið að skerða rétt á einhverjum þá yrði að skerða hann á öllum. En með því að hér er ekki verið að skerða rétt á neinum þá er ekki hægt að gera þessa kröfu.
    Hin málsástæðan að ekki sé hægt að benda á sambærilegt starf er náttúrlega efnislega þannig að sú hugmynd mundi, eins og oft er nú sagt, alls ekki standast prófstein lífs og starfs vegna þess að hér erum við að tala um sambærileg störf hjá sama fyrirtæki eingöngu með breyttu rekstrarformi. Breytingarnar sem gerðar eru hér á rekstrarforminu eða tillaga er gerð um, eru að sjálfsögðu fyrst og fremst, til þess að efla fyrirtækið treysta samband þess við Akranes og tryggja stöðu starfsmannanna í nútíð og framtíð. Allar aðrar meiningar um það hvað fyrir mönnum vaki eru einfaldlega ekki réttar. Ég tek eftir því og fagna því reyndar að hv. 9. þm. Reykv., ólíkt ýmsum flokksbræðrum sínum og systrum, tók það skýrt og skilmerkilega fram að vel kæmi til greina að breyta rekstrarformi ríkisfyrirtækja. Það þyrfti almennan farveg fyrir þá framkvæmd. Ég fagna þessum sjónarmiðum en vil að endingu eingöngu halda því skýrt til haga að á sama hátt og ég efa ekki að hv. 9. þm. Reykv. og aðrir sem stóðu að breytingum á Ríkisprentsmiðjunni Gutenberg og Jarðborunum í hlutafélög voru þá í þeirri góðu trú að þeir væru ekki að brjóta rétt á neinum manni. Þeir geta haldið sinni góðu trú í þessu máli. Þess vegna er tillagan flutt. Þess vegna hefur Alþingi alveg nýlega samþykkt sams konar ákvæði gagnvart starfsmönnum Síldarverksmiðja ríkisins.
    Ég ætla ekki að endurtaka það sem kom hér fram í orðaskiptum okkar hv. 9. þm. Reykv. vegna ummæla hæstv. fjmrh. Ég vil eingöngu vitna til þess að nýju að það var og er frá ríkisstjórnarinnar hálfu vilji til samráðs við opinbera starfsmenn um breytingar á lagarammanum fyrir skipti þeirra við ríkið, vinnuveitenda þeirra og jafnljóst er og það hefur alltaf verið að það er stefna stjórnarinnar að hafa um það náið og gott samstarf við sína starfsmenn. Ég vísa því til föðurhúsanna að það hafi nokkurs staðar örlað á ,,faxi`` í þeim hugmyndum um samráðið. Reyndar tel ég að hæstv. fjmrh. hafi einmitt sýnt það í kjarasamningunum síðast að hann vildi taka tillit til sjónarmiða opinberra starfsmanna.
    Þá kem ég að lokum, virðulegi forseti, að seinna þætti þess máls, sem menn hafa hreyft hér, og það er um sölu á hlutum ríkisins í þessu fyrirtæki. Þar vil ég í fyrsta lagi árétta enn á ný að í 8. gr. frv. segir: ,,Ríkið getur ekki boðið hlutabréf í Sementsverksmiðjunni til sölu nema hafa til þess samþykki Alþingis.`` Við erum þess vegna ekki að ræða um sölu á hlutum í verksmiðjunni. Sala á bréfunum hlýtur að ráðast af aðstæðum hverju sinni og það er Alþingis að fjalla um það. Það mál er ekki á dagskrá. Ég vil hins vegar alls ekki útiloka að það geti einhvern tíma þótt hyggilegt að selja hlutabréf í verksmiðjunni, en þá verða allar aðstæður málsins metnar, bæði markaðsaðstæður fyrir bréfin og hvaða áhrif það hafi á forræði verksmiðjunnar. Ég lýsi því hér yfir alveg hiklaust að það mál þarfnast nánari athugunar.