Lokun meðferðarheimilis SÁÁ að Staðarfelli

152. fundur
Mánudaginn 05. apríl 1993, kl. 15:36:05 (6855)

     Ragnar Arnalds :
    Virðulegi forseti. 10. mars sl. tók framkvæmdastjórn SÁÁ, Samtaka áhugamanna um áfengisvarnir, ákvörðun um að hætta starfsemi meðferðarstöðvar að Staðarfelli í Dölum frá og með júní nk. til að mæta niðurskurði á fjárframlögum ríkisins til reksturs SÁÁ á þessu ári en niðurskurðurinn frá seinasta ári nemur um 20 millj. kr. Mál þetta kom til umræðu á Alþingi 23. mars sl. í stuttum orðaskiptum hv. þm. Sturlu Böðvarssonar og hæstv. heilbrrh. Þar vísaði hæstv. heilbrrh. fyrst og fremst til þess að 8. des. sl. hefði hann náð samkomulagi við forráðamenn SÁÁ um framlög ríkissjóðs til meðferðarstofnana samtakanna.
    Einnig kom fram í máli ráðherrans að samráð hefði ekki verið haft við hann um þá ákvörðun að loka Staðarfelli. Ráðherrann lýsti því yfir að hann mundi leita eftir viðræðum við forráðamenn SÁÁ um málið. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra að því hvort þessar viðræður hafi farið fram og hvort ekki hafi verið leitað leiða til að koma í veg fyrir að loka þurfi meðferðarheimilinu að Staðarfelli.
    Eins og flestum mun kunnugt hafa þessi samtök staðið fyrir mjög umfangsmikilli starfsemi í áfengis- og fíkniefnavandamálum og þar hafa þau náð mjög merkum árangri. Samtökin hafa rekið þrjár meðferðarstofnanir með 60 rúmum að Vogi þar sem veitt er fyrsta hjálp og með 60 rúmum að Vík og Staðarfelli þar sem að jafnaði er veitt fjögurra vikna meðferð.
    Á seinustu árum hafa fjárveitingar til starfseminnar mjög dregist saman. Í fyrra voru framlögin skorin niður um 40 millj. kr. ef miðað er við óbreytt verðlag milli ára og eins og áður sagði var niðurskurðurinn í fyrra um 20 millj. kr. Í þessu máli stendur engin deila um að forráðamenn SÁÁ féllust á að leita leiða til að koma fram þessum tiltekna sparnaði. Hitt lá því miður ekki ljóst fyrir hverjar afleiðingarnar yrðu. Nú er það ljóst að forráðamenn SÁÁ telja sig ekki komast hjá því að skerða starfsemina mjög verulega og í öllu falli langt umfram það sem reikna mátti með að við alþingismenn áttuðum okkur á þegar um þessi mál var rætt á sl. hausti. Það stefnir sem sagt í að af 60 rúmum, sem eru nú til eftirmeðferðar, verði aðeins 30 eftir þegar búið er að loka Staðarfelli með 30 rúmum. Enn fremur hefur komið fram að áfengismeðferð Landspítalans á Vífilsstöðum verður dregin saman og gæti sá samdráttur numið 14 rúmum til viðbótar.
    Sú spurning hlýtur að vakna hvort ekki verði að endurskoða fyrri ákvarðanir. Forráðamenn SÁÁ telja að samtökin gætu haldið áfram rekstri að Staðarfelli ef fjárveitingar næmu 15 millj. kr. meira en gert er ráð fyrir í fjárlögum. Við alþingismenn verðum sem sagt að svara því hvort tilvinnandi sé að spara 15 millj. kr. með því að fækka meðferðarplássum vegna áfengis- og fíkniefnavandamála um 30 á mánuði sem bersýnilga mundi valda því að miklu færri kæmust að til meðferðar og það gæti numið hvorki meira né minna en um 200 manns á þessu ári. Er ekki hætt við að með þessum niðurskurði sé bæði þjóðfélaginu og ríkissjóði unnið miklu meira tjón en nemur þeim 15 millj. kr. sem ætlunin er að spara? Hefur verið tekið með í reikninginn að starfsemi þessi stóreykur veltu og umsvif og skilar því talsverðum hluta af þessu fjármagni til baka með beinum og óbeinum sköttum? Hefur verið haft í huga að mikill meiri hluti fanga er illa haldinn af sjúklegri fíkn í áfengi og hvers konar deyfandi og örvandi efni en samtökin SÁÁ hafa einmitt tekið fjölda fanga til meðferðar seinustu sex vikurnar af fangavistinni? Hver dagur á meðferðarstofnun SÁÁ kostar ríkið 4 þús. kr. lægri fjárhæð en hver dagur í fangelsi og þannig sparast verulegar fjárhæðir. Ég held að ég verði að vænta þess af hæstv. ráðherra að hann fjalli um málið frá fjárhagslegum og faglegum sjónarmiðum og eyði ekki tíma sínum í það að fjölyrða um fyrrnefndan samning sem þegar hefur verið kynntur þingmönnum. Við verðum bara að reyna að átta okkur á því hvort nokkur skynsamleg rök eru fyrir því að halda þessum niðurskurði á fjárveitingum til streitu þrátt fyrir samninginn sem gerður var í haust.