Lokun meðferðarheimilis SÁÁ að Staðarfelli

152. fundur
Mánudaginn 05. apríl 1993, kl. 15:41:57 (6856)


     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil aðeins rifja það upp að nánast á sömu dögum var gerður samningur við fimm aðila er varðar afgreiðslu fjárlaga.
    1. Við Náttúrulækningafélag Íslands um verulegan niðurskurð á fjárveitingum til heilsustofnunar Náttúrulækningafélags Íslands í Hveragerði.
    2. Við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri um Kristnes og verulega lækkun á framlögum til þess sjúkrahúss.
    3. Við Krabbameinsfélagið um verulegan niðurskurð á fjárveitingum til starfsemi þess.
    4. Við Landspítalann um verulega lækkun á útgjöldum til áfengismeðferðar í áfengisskor Landspítalans.
    5. Við SÁÁ um að hækka framlög til þeirra um 15 millj. kr. frá fjárlagafrv. með samningi sem gerður var 8. des. 1992.
    Af þessum fimm aðilum eru allar horfur á því að fjórir geti staðið við samninginn eins og gengið var frá honum og einnig eru horfur á því að SÁÁ geti staðið við sitt samkomulag. Þrjú atriði voru í þessu samkomulagi við SÁÁ:
    1. Lausn á ákveðnu ágreiningsmáli vegna reksturs sjúkrastofnananna á árunum 1990 og 1991. Sú lausn er nú fengin. Búið er að ná fullu samkomulagi um það mál og verður formlega undirritað af forsvarsmönnum SÁÁ á næstu klukkustundum.
    2. Samkomulag var um að skipa nefnd SÁÁ og heilbrrn. til þess að ljúka á árinu 1993 samningi milli heilbrrn. og SÁÁ um þjónustu þá sem ríkissjóður kaupir af SÁÁ vegna meðferðar áfengissjúkra. Við höfum sett okkur það mark, SÁÁ og heilbrrn., að ljúka umfjölluninni í aprílmánuði þannig að í maí liggi fyrir hver verður niðurstaðan af viðræðunum. Við höfum gefið okkur einn mánuð til þess að skoða betur frestun SÁÁ á hinum ýmsu þjónustuþáttum sem SÁÁ veitir.
    Mér var kynnt niðurstaða stjórnar SÁÁ á fundi 31. mars sl. Við skulum hafa það í huga að SÁÁ eru frjáls félagasamtök sem reka ákveðna þjónustu gegn fjárframlögum frá ríkinu. Ríkið getur ekki sett stjórn SÁÁ stólinn fyrir dyrnar. SÁÁ er sjálfráða og stjórn þess að þeim framkvæmdum og þeim áformum sem þeir hafa uppi en sagt er, með leyfi forseta, í bréfi sem ég fékk frá þeim þegar mér voru kynnt þessi áform:
    ,,Byggt á rekstri síðasta árs og fyrstu mánuðum þessa árs var síðan ákveðið á framkvæmdastjórnarfundi þann 10. mars sl. að bregðast við minni tekjum á þann hátt að loka Staðarfelli í júní. Enn fremur verður unnið áfram að því að ná niður almennum rekstrarkostnaði og þannig reynt að reka starfsemina á árinu án rekstrartaps. Ljóst er að eigi að draga úr þjónustu hvað varðar eftirmeðferð og mun það bitna á heildarmeðferðinni. Til að minnka áhrifin munu afköst verða aukin í Vík og göngudeildarstarfsemi aukin.``
    Það sem til stóð þegar samkomulagið var gert við SÁÁ 8. des. sl. var að SÁÁ lýsti því yfir að þeir teldu sig geta rekið allar þær stofnanir sem þeir höfðu í rekstri á árinu en mundu bregðast þannig við að þeir mundu draga úr rekstri hinna einstöku stofnana tímabundið á árinu, þ.e. þeir mundu draga úr rekstri Víkur, þeir mundu draga úr rekstri Vogs og þeir mundu draga úr rekstri Staðarfells, jafnvel með tímabundnum lokunum yfir sumarleyfistímann eða tímabundnum samdrætti í rekstri. Þegar betur var að gáð var niðurstaða þeirra hins vegar að fara ekki þá leiðina heldur að loka Staðarfelli en auka þjónustuna á sumum öðrum stöðum. Þeir töldu að það kæmi fjárhagslega betur út. Þetta var annað en það sem við ræddum í desembermánuði en þetta varð niðurstaða þeirra um hvað væri samtökunum hagkvæmast. Forráðamenn SÁÁ eru nú að skoða málefni samtaka sinna, m.a. þær skuldbindingar, sem samtökin hafa tekið á sig, og eru í því sambandi sérstaklega að ræða um hvernig fara skuli með lífeyrisskuldbindingar, sem hefur verið stofnað til hjá þessum frjálsu félagasamtökum, vegna þess að starfsfólk þess er í Lífeyrissjóði opinberra starfsmanna og það eru að sjálfsögðu félagasamtökin sem eru ábyrg fyrir þeim skuldbindingum.
    Virðulegi forseti. Aprílmánuður verður notaður til þess að reyna að ná samkomulagi milli heilbrrn. og SÁÁ um framtíð rekstursins. Þar á meðal kemur að sjálfsögðu til skoðunar hvernig með verður farið á þessu ári rekstur þeirra stofnana og þeirrar þjónustu sem SÁÁ hefur með höndum.