Lokun meðferðarheimilis SÁÁ að Staðarfelli

152. fundur
Mánudaginn 05. apríl 1993, kl. 15:49:39 (6858)

     Sturla Böðvarsson :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir að vekja athygli á þessu máli. Vissulega er ljóst við hvaða vanda er að etja þar sem er rekstur sjúkrastofnana SÁÁ. Þetta hefur verið til umræðu nýverið og þá upplýsti hæstv. heilbrrh. að það stæðu yfir viðræður milli SÁÁ annars vegar og heilbrrn. hins vegar um það hvernig mætti leysa það erfiða viðfangsefni sem er fjármögnun þessarar mikilvægu starfsemi á vegum SÁÁ.
    Mér heyrist á svari hæstv. heilbrrh. að hann vinni eðlilega að málinu áfram. Hann hafi átt fund með fulltrúum SÁÁ og í undirbúningi séu leiðir sem hægt sé að sættast á og geti talist ásættanlegar fyrir SÁÁ. Ég vil í tilefni af umræðunni hér vekja athygli á því að við umræður um fjárlögin og í umræðum í fjárln. kom skýrt fram að það var vilji og er vilji fjárln. að það mætti halda áfram rekstri stofnana SÁÁ og þar á meðal rekstrinum að Staðarfelli.
    Eins og kom fram í ræðu hæstv. heilbrrh. eru SÁÁ frjáls félagasamtök sem ráða því auðvitað hvernig þau standa að sínum rekstri. Það hefur einnig komið fram að það er ríkur vilji SÁÁ-manna til þess að halda áfram rekstri að Staðarfelli. Það liggur fyrir að þetta er afskaplega mikilvægur þáttur í atvinnustarfsemi þessa litla samfélags í Dölum og ég hef orðið þess var að SÁÁ-menn vilja leggja allt í sölurnar til þess að hægt verði að halda þeirri starfsemi úti. Ég tel að annað sé óásættanlegt en að það takist að reka starfsemi SÁÁ áfram að Staðarfelli. Miðað við þær aðstæður sem við búum við í þjóðfélaginu er þetta auðvitað ekki létt verk að finna rekstrarmöguleika fyrir SÁÁ.
    En ég legg á það áherslu við þessa umræðu að við þingmenn Vesturl. munum að sjálfsögðu gera hvað við getum til þess að svo megi verða.