Lokun meðferðarheimilis SÁÁ að Staðarfelli

152. fundur
Mánudaginn 05. apríl 1993, kl. 15:52:48 (6859)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Fyrst langar mig að taka fram vegna ummæla hæstv. heilbrrh. að almennt er mjög mikið um vafasaman niðurskurð í heilbrigðiskerfinu að ræða núna. Það að við erum að ræða þetta mál hér

þýðir ekki að það sé réttlætanlegt að skera meira niður eða skera niður það sem ráðherra var að nefna fyrr í ræðu sinni.
    Ég held að það sem skiptir máli núna sé fyrst og fremst hver verður niðurstaðan í málinu. Greinilegt er að annaðhvort er hæstv. ráðherra að reyna að drepa umræðum á dreif með því að gefa loðin og óljós fyrirheit um að verið sé að ræða málin eða að einhver meining er þar að baki. Ég vona að það verði en í ljósi reynslunnar get ég ekki sagt að ég fyllist afskaplega mikilli bjartsýni.
    Því miður er mikil þörf á þessari þjónustu. Vera má að einhvern tíma verðum við komin svo langt á veg með forvarnir að minni þörf verði á þessari þjónustu. Á meðan svo er þá verðum við að viðurkenna það og við verðum að bjóða upp á almennileg meðferðarúrræði. Þá á ég ekki bara við bráðameðferð heldur ekki síður þá eftirmeðferð sem fer fram á aðeins örfáum stöðum hér á landi og Staðarfell hefur sýnt mjög góðan árangur í eftirmeðferð eftir áfengismeðferð, þ.e. hina brýnustu og bráðustu. Ég bendi á að þegar áfengismeðferð heppnast vel sparar hún ómældar upphæðir í samfélaginu fyrir utan þann sparnað sem felst því að minna verður um mannlegar þjáningar og félagsleg vandamál.
    Mér finnst einnig vert að benda á að hæstv. ráðherra hefur í þessum sal lagt að jöfnu meðferðina á Staðarfelli og þá meðferð sem trúarhópar veita. Ég vara við slíkum hugmyndum.