Ráðning framkvæmdastjóra ríkissjónvarpsins

152. fundur
Mánudaginn 05. apríl 1993, kl. 16:29:08 (6872)


     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Sú ákvörðun menntmrh. að setja Hrafn Gunnlaugsson í embætti yfirmanns sjónvarpsins um eins árs skeið er reginhneyksli og valdníðsla af verstu gerð. Auðvitað er það valdníðsla að setja mann sem sagt hefur verið upp störfum yfir þá sömu stofnun í óþökk allra sem þar vinna. Með þessari stöðuveitingu kórónar Sjálfstfl. áratuga misnotkun sína á opinberum embættum sem ráðamenn hans hafa óspart veitt til flokksmanna, vina og vandamanna. Sjaldan hefur þó keyrt eins um þverbak og nú þegar í hlut á vinur forsrh. sem hafður var með í ráðum ef hann er ekki ,,primus motor`` þessa gjörnings.
    Atburður af þessu tagi eru daglegt brauð í ríkjum eins og Haiti og hjá ættarveldum Stroessners í Paraguay en ættu að heyra til liðinni tíð í ríki sem kennir sig við lýðræði. Það setur að manni hroll við að horfa upp á þennan fáránleika þar sem hagsmunir einstaklings hafa verið teknir fram yfir hagsmuni eins af mikilvægustu menningarstofnunum þjóðarinnar. Hvers konar siðferði er þetta? Hvaða skilaboð er verið að senda til yfirmanna ríkisstofnana? Haldið ykkur á mottunni. Ríkið, það er ég. Það skal öllum ljóst vera hver ræður og ef menn dirfast að segja upp fólki sem er Davíð Oddssyni þóknanlegt skal ráðum beitt til að tugta yfirmenn stofnana ríkisins til. Hér hefur verið farið yfir öll velsæmismörk og fyrir þetta mun Sjálfstfl. og formaður hans fá sinn dóm frá almenningi þegar þar að kemur.
    Starfsmanni sjónvarpsins var sagt upp störfum á löglegan hátt og sú ákvörðun fékk einróma stuðning starfsmanna sjónvarpsins, enda hafði gengið á ýmsu innan dyra. Þá gerist það að yfirmaður menntamála í landinu ákveður án samráðs við útvarpsráð eða útvarpsstjóra að gera kvikmyndaleikstjórann að yfirmanni þeirrar stofnunar sem honum hafði verið vísað frá. Ef marka má orð hæstv. menntmrh. er þarna á ferð þvílíkur hæfileikamaður að sjónvarpið má engan veginn missa af honum. Ég spyr: Hvaða hæfileikar eru það? Er það hæfileikinn til að hella sér yfir samstarfsfólk sitt, sem sumir vilja kenna við málfrelsi

og tjáningarfrelsi, eða eru það þeir fersku vindar sem birtast í Hvíta víkingnum sem þjóðin má ekki án vera? Þetta er og verður hneyksli sem Sjálfstfl. ber fyrst og fremst ábyrgð á og verður að taka afleiðingunum af.
    Það er merkilegt að ráðamenn hafa ekki miklar áhyggjur af því fólki sem Hrafn Gunnlaugsson sagði upp hjá sjónvarpinu og ekki var virðingin fyrir skoðanafrelsinu mikil þegar yfirmaður bankaeftirlitsins leyfði sér að láta í ljós álit sitt á aðgerðum ríkisstjórnarinnar.
    Virðulegi forseti. Í þessu máli hafa krunkað saman hrafnar yfir krás á kvöldu svelli en sú krás á eftir að verða þeim þungmelt. Það er skylda okkar alþingismanna að standa vörð um Ríkisútvarpið og koma í veg fyrir valdníðslu af því tagi sem hér um ræðir. Ég lýsi yfir vantrausti á ríkisstjórn Davíðs Oddssonar sem ætti að segja af sér strax eins og hún leggur sig eftir að hafa afhjúpað það ítalska siðferði sem grasserar innan hennar, siðferði sem okkur ber skylda til að uppræta.